08.04.1941
Neðri deild: 33. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

77. mál, fiskveiðasjóður Íslands

Jón Ívarsson:

Herra forseti! Eins og lýst var við 1. umr. þessa máls af hv. þm. N.-Þ., höfum við leyft okkur að bera fram brtt. við þetta frv., sem er á þskj. 129, en brtt. okkar eru á þskj. 142, það eru aðallega tvö atriði, sem við höfum ekki getað orðið samferða öðrum hv. nm. í sjútvn. um, eins og kemur fram á nefndu þskj. Í fyrsta lagi, hvernig skuli afla tekna til fiskveiðasjóðsins, og í öðru lagi, hve vextir skuli vera háir af útlánum.

Eins og frv. liggur fyrir er ætlazt til, að tekjurnar verði aðallega með þrennu móti: hundraðsgjald af útfluttum sjávarafurðum, í öðru lagi helmingur útflutningsgjalds af sjávarafurðum, og í þriðja lagi vextir af útlánum. Við hv. þm. N.-Þ. teljum heppilegra að hafa þetta á þann hátt að hækka það hundraðsgjald af útfluttum sjávarafurðum, sem gengur til fiskveiðasjóðsins, en sleppa því ákvæði, sem er í 2. tölul. 2. gr. frv., um að helmingur útflutningsgjaldsins skuli renna til sjóðsins. Eins og lögin eru nú, er l/8% af útfluttum sjávarafurðum, sem fiskveiðasjóður fær og hefur fengið síðan 1931. Það nemur allt að 50 þús. kr. á ári í þau 9 ár, sem gjald þetta hefur verið greitt í sjóðinn. Okkar till. miðar að því að hækka Þetta gjald upp í ½%. Við vildum í fyrsta lagi tryggja sjóðnum fastar tekjur, sem hann gæti reitt sig á. En við töldum ekki fært að hafa gjaldið meira en þetta, sökum þess að þá er meiri hætta á því, að löggjafarvaldið svipti sjóðinn þessum tekjum á erfiðum árum og láti þær renna beint í ríkissjóð. Hefur borið talsvert á slíku undanfarin erfiðleikaár, að sumir tekjuliðir hafa verið látnir renna í ríkissjóð, þó að þeim hafi með sérstökum lögum verið ætlað annað. Því meiri, sem tekjurnar voru, því meiri hætta var og er á því, að þær séu teknar til þarfa ríkissjóðsins. Hins vegar hefur ekki komið fram, svo að mér sé kunnugt um, að fella niður fiskveiðasjóðsgjaldið og láta ríkissjóð fá það. Ég tel, að lítil hætta sé á þessu, ef ákvæði í 2. tölul. 2. gr. frv. verða felld niður, eins og lagt er til. í brtt. á þskj. 142. Þegar illa lætur í ári, er mjög mikil hætta á, að allar tekjur, sem ríkissjóður fær fyrir útfluttar sjávarafurðir, verði notaðar honum til handa. Við álitum heppilegra að tryggja sjóðnum öruggar tekjur, sem lítil hætta væri á, að af honum væru teknar, þótt erfiðar blési, heldur en að ákveða þær háar nú og eiga á hættu, að hann missti þær fljótlega aftur. A-liður 1. brtt. á þskj. 129 lýtur að þessu.

Eins og nú stendur og kom fram við 1. umr., eru eignir fiskveiðasjóðsins rúml. 2 millj. kr. auk þess má telja til eigna hans tillag, sem hann á ófengið úr ríkissjóði og nemur 1 millj. króna tæplega. Auk þess fær hann eignir Skuldaskilasjóðs. Þessar eignir munu samtals nema allt að 4 millj. kr. Það er að vísu ekki verulega stór höfuðstóll til svo mikils hlutverks, sem sjóðurinn á að inna af höndum, þó að hann sé reyndar nokkur á okkar mælikvarða. Til þess að auka þetta fé sjóðsins, er honum ekki eingöngu ætlaðar tekjur af þessu hundraðsgjaldi, heldur hefur jafnframt komið fram brtt. frá n. um aukna heimild á sölu vaxtabréfa. Ef sú heimild nær fram að ganga, getur stofnfé sjóðsins brátt komizt upp í 8 millj. kr. Við lítum svo á, að vaxtabréfasöluheimildin sé nauðsynleg til þess að sjóðurinn geti orðið öflug stofnun, eins og honum er ætlað að vera. Það virðist naumast vera fært að ákveða mikið hærri tillög til fiskveiðasjóðsins heldur en hér er farið fram á, enda er ekki ráðlegt að draga of mikið úr þeim tekjustofnum, sem ríkissjóður hefur. Ég álít, að við verðum að fá stofnfé með sölu vaxtabréfa, enda er það fullkomlega forsvaranlegt, þó að slíkt lánsfé sjóðsins komist upp í 50% af starfsfé hans.

Þá er hitt atriðið, sem önnur brtt. okkar fjallar um, á þskj. 142, að vextir af útlánum sjóðsins skuli vera 4½% í staðinn fyrir 4%. Við álítum, að vextir af þessum útlánum eigi að vera í fullu samræmi við ýmsa aðra vexti hjá tilsvarandi lánsstofnunum, og koma þú helzt til greina þau lán, sem ræktunarsjóður veitir til landbúnaðarins. Nú er svo, að vextir af þessum lánum eru 5%, eða einum af hundraði hærri en lagt er til í frv. á þskj. 129. Aðrar lánsstofnanir, sem veitt hafa fé til landbúnaðarins, t. d. veðdeild Búnaðarbankans, hafa tekið 6½% í vexti. Okkur flm. þessara brtt. fannst forsvaranlegt, að vextirnir væru 4½%, enda mega þeir ekki lægri vera. Of lágir vextir mundu eðlilega leiða af sér auknar og vaxandi kröfur um lánveitingar úr sjóðnum. Þriðja brtt. er um það að bæta einni gr. inn í frumv., sem er ákvæði um að fella lög úr gildi frá 1930 og önnur 1. um breyt. á þeim l. frá 1931, vegna þess að í brtt. okkar við 2. gr. frv., a-lið, er tekið upp ákvæði þessara 1., svo að þau eiga að falla niður.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða þetta frekar. En á slíkum tímum sem þessum er mjög erfitt að segja um, hvernig umhorfs muni eftirleiðis. Ef á það er litið, hvernig núverandi ástand er með öllu óútreiknanlegt, má segja, að það sé vandasamt verk að setja löggjöf fyrir langa framtíð.