07.05.1941
Neðri deild: 53. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 826 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

131. mál, þegnskylduvinna

Jóhannes Jónasson:

Ég bið hv. þm. V.-Ísf. að virða mér til vorkunnar, þótt ég tæki málið nokkuð hátíðlega. Mér skildist, að hann reyndi að gera sem minnst úr því, og að þetta frv. væri borið fram fyrst og fremst vegna óska tveggja hreppa, en mér er óskiljanlegt, hvernig hann hefur tekið óskir aðeins tveggja hreppa svo hátíðlega, að það yrði til þess, að frv. kæmi hér fram. Hann sagði, að ég þyrfti varla að óttast, að heimildin yrði notuð hér í Reykjavík. — Mér er þá spurn: hvers vegna stendur í frv., að heimildin skuli einnig ná til kaupstaða?

Hv. þm. bar ekkert fram gegn rökum þeim, sem ég færði fyrir máli mínu, enda þótt hann segði, að ég liti á málið eins og óargadýr, hvað ég nú raunar ekki gerði. Ég lít aðeins á þetta frv. sem upphaf að tilraun til almennrar þegnskyldu hér á landi.