03.05.1941
Neðri deild: 50. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

110. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson) :

Hv. fyrri þm. Rang. segist bera fram sínar till. til þess að skapa samræmi á milli húsmæðrafræðslu í sveitum og kaupstöðum. Og svo kemur hann fram með till, um það, að í stað 400 kr. styrks í kaupstöðum komi 200, en í lögunum um sveitaskólana er styrkurinn 440 kr. Mér er ómögulegt að sjá, að hv. þm. sé að skapa hér samræmi, — hann er að skapa ósamræmi á milli sveita og kaupstaða. Í sveitaskólum verður kostnaðurinn ekkert meiri fyrir skólann sjálfan. Stúlkur í heimavist kosta sig algerlega sjálfar, og upphitun og kennsla er nákvæmlega sama í kaupstöðum og í sveitum. Hvað nemendafjölda snertir, þá er ekki hægt að hafa marga nemendur í einu. Það má fullyrða, að rekstur skólanna er engu ódýrari í kaupstöðum en í sveitum. Ég nefni sem dæmi, ef till. hv. þm. verða samþ., að þá mundi húsmæðraskólinn á Ísafirði lækka í styrk frá því, sem hann hefur haft á fjárlögum í mörg ár, og það er þó ekki tilgangur þessara laga. Þá ber hv. þm. fram till. um, að fellt sé niður ákvæðið um, að „óheimilt sé að taka kennslugjald“, en í ákvæðunum. um sveitaskólana stendur, „að nemendur greiði ekkert skólagjald“, svo að ekki er þetta til samræmis, heldur þvert á móti til ósamræmis. Slíkir skólar sem þessir eiga að vera sem almennastir, og þegar ríkið styrkir, og sömuleiðis bæjarfélög og aðrir aðilar, þá er þetta ágætt ákvæði, að skólarnir megi ekki taka skólagjald og svo ætti það að vera með alla sýsluskóla og er svo með flesta. Hér er heldur ekki skapað samræmi. Hitt má segja, að brtt. við 9. gr.: „heimavistargjald má þó aldrei taka hærra en 45.00 kr. á nemanda fyrir skólaárið“ sé til samræmis, og menntmn. hefur ekkert á móti þessari till. Vitanlega verður að taka hærra gjald en 45.00 kr. fyrir bæði húsnæði og fæði, en í sveitaskólal. stendur, að þó sé heimilt að taka húsaleigugjald af stúlkum allt að 45.00 kr. á hverja, og vil ég leita samkomulags við hv. flm. um skrifl. brtt. frá mér, að í stað „heimavistar-“ komi: húsaleigugjaldi, og í staðinn fyrir 45 kr. komi 40 kr. — til þess að skapa samræmi.

Við 10. gr. ber hann fram þá till., að fellt sé niður, að ríkissjóður greiði hálfa húsaleigu. Nú má hann vita það, að um gagnfræðaskóla í kaupstöðum hefur í mörg ár gilt sú regla, að ef þeir eru bæjarins eign, þá greiddi ríkið hálfa húsaleigu. Þessi regla er til, og þessi regla mundi líka hafa verið sett inn í sveitaskólal., ef um leiguhúsnæði hefði þar verið að ræða, en í sveitunum er ekki til neitt leiguhúsnæði og þarf því að byggja skólana í upphafi. Nú er einn skóli starfandi, Ísafjarðarskóli, sem hefur alla tíð verið leiguskóli, og ef þessi till. verður samþ., kemur þetta mjög hart niður á honum. Ég get ekki séð, að hv. þm. sé að skapa hér neitt samræmi. Ég get heldur ekki séð, að hér sé um að ræða jafnan og ójafnan leik. Það er eins og hv. þm. hugsi sér, að sveitirnar og kaupstaðirnir séu að keppa. Það er engin hætta á neinni baráttu í þessu efni. Í kaupstöðunum eru stúlkurnar ekki í heimavist, en það er ekkert ódýrara að vera á heimilunum. Kostnaðurinn fyrir stúlkur, sem stunda hér nám, er eins mikill og hjá þeim, sem eru á heimavistarskólum, því þær yrðu að vera allan daginn við sitt nám og mestallan daginn á skólanum sjálfum.

Með þessum till. er hv. þm. að skapa ósamræmi, en ekki samræmi. Ég hygg, að sveitamenn kæri sig ekki um að draga þetta niður fyrir þann styrk, sem þeir njóta.