17.04.1941
Efri deild: 37. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

101. mál, byggingar og landnámssjóður

Sigurjón Á. Ólafsson:

Þess var réttilega getið af hv. frsm., að fulltrúi Alþfl. í landbn. mun ekki hafa getað haft mikil afskipti af meðferð málsins; þar sem hann er forfallaður. Annars vildi ég láta koma fram við þessa umr. hvað mig snertir, og ég geri ráð fyrir, að svo muni vera með aðra flokksbræður mína, að þeir muni styðja í öllum aðalatriðum þá breyt., sem hér er farið fram á, sem er eins og hv. frsm. lýsti. aukið framlag úr ríkissjóði, bæði um lán til nýbyggingar og styrk, sem hverjum einstakling skal veittur, sem leggur út í nýbyggingar.

Þetta mál var á sínum tíma, að því er ég hygg, hugsað af hálfu Alþfl., en komið í framkvæmd af Framsfl., og Alþingi féllst á það á sínum tíma, að þetta væri nauðsynjamál. Það er ekki heldur hægt að neita því, að þetta er eitt af stærri menningarmálum, sem hrundið hefur verið í framkvæmd að undanförnu, að skapa hýbýli manna þannig, að þau verði boðleg kröfum tímans, og það gerir fólkið fastara við sveitirnar en ella að geta tryggt því viðunandi bústaði.

En það er eitt í frv., sem ég vildi vekja máls á. Það er, að hér á að leggja niður nýbýlanefnd og nýbýlastjóra, en taka upp sérstaka stjórn, sem hafi þessi mál með höndum. Ég hef ekki heyrt af hálfu frsm. næga skýringu á nauðsyn þessa. Mér skilst, að með auknu fjárframlagi, sem verði varið til byggingar- og landnámssjóðs, og þar sem gera má ráð fyrir, að sjóðurinn taki til fleiri staða en áður, þá hljóti að vaxa að einhverju leyti starfsemi og umsjón með sjóðnum. Það hefur verið hingað til svo, að nýbýlastjóri hefur fallið í eitt með búnaðarstjóra, og mér skilst, að skrifstofuhald allt hafi verið á skrifstofu Búnaðarfélagsins, sem hefur gert Þennan kostnað mun ódýrari en ef horfið yrði að því ráði að stofna nýja skrifstofu með nýjum starfsmönnum og sérstaklega launuðum formanni. En ég hef sem sagt ekki heyrt nein rök fyrir nauðsyn þess, að þessu yrði breytt í þetta horf. En ef horfið verður að þessu ráði, ef hv. d. fellst á þessar breyt., þá vildi ég aðeins hreyfa því um leið, hvort ekki bæri þá að skipa þessa stjórn þannig, að það væru fleiri en 2 stjórnmálafl., sem sitja á Alþingi, sem hefðu stjórnarframkvæmdir með höndum og skipuðu menn í stjórn, en sá 3. skal svo skipaður af atvmrh. á hverjum tíma.

Af því, sem ég sagði áðan, að Alþfl. telur sig hafa átt mikinn þátt í því, að þetta mál var hafið og fékk þá byrjun, sem raun er á orðin, þá finnst mér rétt, að stjórnarfyrirkomulagið verði þannig, að honum gefist einnig kostur á að skipa einn mann í stjórn, vegna þess að það er mikill fjöldi manna, sem kemur til með að hafa not af þessum sjóði, og þá er sjálfsagt, að þar komi fram menn úr Alþfl. eins og öðrum flokkum. Það er til þess að draga fólkið frekar úr kaupstöðum upp til sveita að gera skilyrðin léttari en ella til að efla búskapinn, og því er það ekki nema eðlilegt, að Alþfl. eigi sinn hlut í stjórninni og geti lagt til það, sem honum finnst rétt, svo einstaklingar hans geti leitað til hans fulltrúa með sín málefni.

Ef stjórnin á að vera skipuð 3 mönnum, þá hefur mér dottið í hug, að allir þessir menn væru kosnir af stærstu flokkum þingsins, eins og oft á sér stað um ýmsar stofnanir, sem settar hafa verið á stofn á síðustu þingum. Þá féllu að sjálfsögðu niður þau forréttindi atvmrh. að skipa formanninn, en honum gæti verið gefinn kostur á að skipa einn af hinum stjórnendunum. Þetta hefði ég gjarnan viljað ræða við n. milli umr. Ég er ekki enn búinn að fá þær skýringar, sem sanni mér, að það sé nauðsynlegt að breyta svo um form á stjórn þessara mála sem hér er gert ráð fyrir.