23.04.1941
Efri deild: 43. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

101. mál, byggingar og landnámssjóður

Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég má til með að svara ræðu þessa hv. þm., sem ég man ekki númerið á. Hún var svo full af fjarstæðum, að ég get ekki vitað af því, að slík ræða standi í þingtíðindunum án þess að henni hafi verið svarað. Hv. þm. sagði meðal annars: „Ég veit ekki, hverjir verða stærstu flokkar þingsins framvegis.“ Það skiptir engu máli, hverjir það verða. Sá flokkur, sem nær því að verða svo fjölmennur, á að hafa sinn rétt innan þingsins, hverju nafni sem hann nefnist, þó að ég voni, að Alþfl. verði annar eða þriðji ofan frá. — Hv. þm. minntist á Bændafl. í þessu sambandi. Það þykir nú alltaf heldur kuldalegt að vera að nefna menn til lífsins, þegar þeir eru að deyja. Sá flokkur á ekki uppreisnarvon, enda hlægilegt að nefna hann í þessu sambandi. Hv. þm. notaði orðið „skjótvirkni“, sagði, að „ekki væri skjótvirkni nein hjá Alþfl. til landbúnaðarmálanna.“ Ég þori óhræddur að leggja það undir dóm þjóðarinnar, hvað Alþfl. og þm. hans hafa lagt til landibúnaðarins. Framsfl. mun taka undir það, að ekki munu aðrir flokkar hafa stutt betur landbúnaðarmálin en Alþfl. Er það mjög ómaklega mælt af hálfu hv. þm., að Alþfl. hafi verið banamaður góðra mála. (ÞÞ: Framsfl. gefur þá vitnisburðinn núna). Hann vill kannske ekki gera það nú, en af umr. og skrifum um þessi mál að undanförnu sést skilningur og velvilji Alþfl. í garð landbúnaðarins. Ég skal benda á eitt dæmi, sem mér dettur í hug í augnablikinu, að þegar hin svokallaða mæðiveikinefnd, sem tilheyrir landbúnaðinum, starfaði hér, þá átti Alþfl. einn mann í þeirri n. Allir, sem störfuðu með þeim manni, munu. viðurkenna, að hann hafi verið sá leiðandi kraftur, sem mest áhrif hafði á framgang þeirra mála, og mun Alþfl. vel trúandi fyrir að skipa menn í n. til vandasamra landbúnaðarstarfa.

Svo mátti skilja á hv. þm., að frv. það, sem hér er til umr., væri eingöngu landbúnaðarmál, en það er jafnframt fullkomið bæjarmál. Með nýbýlal. er verði að greiða fyrir því, að fólkið, sem býr við slæm kjör í bæjunum, geti leitað upp til hins óræktaða lands, og hjálpa því til að koma þar fótum undir sig. Þess vegna er fullkomin ástæða fyrir bæjarmálaflokka, sem líka eiga mikil ítök í sveitunum, að hafa fulltrúa í slíkri n. sem þessari. Hv. þm. vildi láta líta svo út, sem það mundi stöðva framgang málsins, ef brtt. yrði samþ. En ég get fullvissað hann um, að málið er jafnöruggt með að fá afgreiðslu á þessu þingi, þó að brtt. mín verði samþ., ef ekki öruggara. Þetta er því alveg út í hött sagt hjá hv. þm., þegar hann heldur því fram, að ég vilji torvelda framgang málsins. Að lokum vildi hann láta skjóta málinu til landbn. Nd. og hún gæti tekið endanlega ákvörðun um það, sem brtt. fer fram á. En það er ekki þessum hv. þm. að þakka, hvað landbn. Nd. kann að gera í því efni, og yfirleitt ekki honum að þakka, þó að einhverjir kunni að lagfæra þær vitleysur, sem hann hefur gert sig sekan í.