06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög

*Steingrímur Steinþórsson:

Fyrir nálega hálfum mánuði mælti ég fyrir brtt., sem ég vár sérstaklega riðinn við, en þá mátti segja, að öll sæti væru hér auð. Nú hefur skipazt svo vel, að hér er allmargt þm. viðstatt, en það er ekki meining mín að endurtaka það, sem ég sagði þá, nema að mjög litlu leyti. Þó er eitt atriði, sem ég vil endurtaka, af því að þá var enginn viðstaddur úr hæstv. stj., en ég beindi máli mínu til hennar, einkum hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., sem báðir eru viðstaddir nú. En áður en ég sný mér að því, vil ég segja, út af tilmælum hv. frsm. fjvn. um, að við flm. till. á þskj. 638, X um að hækka framlagið til nýbýla upp í 500 þús., tækjum hana aftur, að við munum verða við þeim tilmælum og taka þá till. aftur, þar sem fjvn. hefur með brtt. sinni lagt til, að þetta framlag verði hækkað upp í 260 þús. kr. En ég vil jafnframt taka fram, eins og hv. frsm. benti á, að í 1. um landnám ríkisins, sem eru nýsamþ., er heimild fyrir stj. að veita 250 þús. kr. til þeirra framkvæmda, sem l. gera ráð fyrir, og þó að við hv. þm. Mýr. tökum okkar till. aftur, þá er það í þeirri styrku von, að þetta fé verði veitt, svo framarlega sem atvinnuhættir landsins hverfa í það eðlilega horf, að vinnukraftur okkar verði að mestu og helzt að öllu leyti notaður til okkar eigin þarfa, því að þá er ekki minnsti vafi, að sjálfsagt er að hefja framkvæmdir á þessu sviði. En eins og nú horfir við um atvinnuhætti hér á landi, þá má segja, að minni ástæða sé til, að horfið sé að slíkum framkvæmdum, þar sem nú eru mjög takmarkaðir möguleikar til að fá verkafólk. En þetta vil ég sérstaklega taka fram í sambandi við það, að við lítum svo á, að það sé rík skylda hjá stj. að nota sér þá heimild, sem er í l., að verja fé í þessu skyni, ef þörf er fyrir það á þessu ári.

Þá vil ég minnast á eina till. á þskj. 622. Hv. 1. þm. N.-M. er 1. flm. hennar og mun hafa mælt fyrir henni, en hv. fjvn. mun ekki hafa tekið hana til greina. Ég sé ástæðu til að minnast á þessa till., af því að hún er um framlag til tilraunastarfsemi í þágu landbúnaðarins, og það er beinlínis tekið fram í l., að kostnaður vegna þeirra skuli greiðast úr ríkissjóði. Hann hefur verið greiddur af Búnaðarfélaginu. Hér er í raun og veru ekki um neina aukafjárveitingu að ræða, því að þessi upphæð er ekki meiri en það, sem áður hefur verið greitt til þessarar starfsemi, þ. e. til tilraunastöðvanna á Sámstöðum og Akureyri, og auk þess er ætlazt til, að lítils háttar upphæð gangi til búfjárræktartilrauna við búnaðarskólana, sem nú er verið að setja af stað samkv. þessum l. Ef engin fjárveiting er ætluð til þess samkv. þessum l., þá er mér ekki ljóst, á hvern hátt þessari starfsemi verður hald

ið áfram á næstunni, því að eins og Alþingi. hefur gengið frá þessu, hefur verið gengið út frá því sem gefnu, að fjárveiting yrði tekin upp til þessara hluta, enda gerði búnaðarþing ekki ráð fyrir fé til þessarar starfsemi í fjárhagsáætlun sinni. Það eru einmitt í þessum l. nákvæm ákvæði um, hvernig þessu fé skuli skipt. Þetta vildi ég sérstaklega benda á. Ég sé ekki ástæðu til að fara að tala um nauðsyn þess, að þessari tilraunastarfsemi sé haldið áfram. Það er vitanlegt, að á því byggjast möguleikarnir til að breyta okkar búfjárrækt, og slíkt verður ekki gert öðruvísi en nokkurt fé sé veitt til þess. Ég vil því mjög mæla með þessari till.

Þá er eitt atriði, sem ég vil minnast á og beina til hæstv. ríkisstjórnar, og er það varðandi framlag til Búnaðarfélags Íslands á yfirstandandi ári. Það var vitanlegt, eins og kom fram í ræðu hv. frsm. fjvn., að fyrri hluta þessa þings var hún með ýmsar till. um aukin fjárframlög á þessu ári til ýmissa hluta, sumpart til þess að bæta upp dýrtíðina og sumpart til þess að auka verklegar framkvæmdir. Nú skilst mér, að frá þessu muni vera horfið, og skal ég því leiða hjá mér að ræða um þetta, en það, sem ég vildi minnast á, er framlagið til Búnaðarfélagsins. Það er á þessu ári áætlað 210 þús. kr., aðeins 10 þús. kr. hærra en áður. Nú hefur félagið hins vegar orðið að fara sömu leiðina og ríkið að greiða fulla verðlagsuppbót og auk þess vitanlega að taka á sínar herðar allan aukinn kostnað, sem af dýrtíðinni stafar, eins og t. d. stóraukinn ferðakostnað. Eitt aðalhlutverk starfsmanna félagsins eru ferðalög, en ferðakostnaðurinn hefur tvöfaldazt. Það liggur því í augum uppi, að slíkt kemur illa niður á stofnunum, sem hafa mikil ferðalög. Það, sem ég vildi leyfa mér að beina til hæstv. stj., einkum hæstv. landbrh. og hæstv. fjmrh., sem þetta heyrir undir, hvort Búnaðarfélagið muni ekki mega vænta þess að fá sæmilega uppbót úr ríkissjóði fyrir árið í ár. Mér hefur verið tjáð, að fjvn. hafi í þeim till., sem hún var með í vetur, verið með hugmyndir um, að félaginu skyldi greitt til viðbótar 70 þús. kr., þannig að það fengi á þessu ári 200 þús. kr. Ég vil lýsa því yfir, að ég geri ráð fyrir, að Búnaðarfélagið mundi sætta sig mjög vel við slíka afgreiðslu og að það mundi þá geta klárað sínar sakir. nokkurn veginn nú í ár. Það er síður en svo, að ég hafi ástæðu til að vantreysta hæstv. ríkisstjórn í þessu máli, hvorki hæstv. landbrh., sem ævinlega hefur sýnt félaginu velvilja, og ekki heldur hæstv. fjmrh., því. ég hef ekki orðið var við annað en að hann hafi gert sitt bezta gagnvart félaginu. En nú er hálft ár liðið og við höfum ekki getað rekið búskap okkar nema að safna skuldum. Er því ekki nema eðlilegt, að félagið vilji sem fyrst fá að vita; hvers það megi vænta í þessu efni. Og vegna þess umtals, sem varð um þetta í fjvn. og á þingi, þá taldi ég rétt að beina þessu til ríkisstj. nú.

Það var aðeins þetta, sem ég vildi taka fram, þó það sé að nokkru leyti endurtekning, vegna þess að ég hygg, að ríkisstj. hafi ekki verið við, er ég flutti mína fyrri ræðu.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða almennt um afgreiðslu fjárl. að öðru leyti. Ég skal aðeins geta þess, að ég tók eftir, að hv. frsm. bauð það, að hann og meðflm. hans tækju aftur till. um ábyrgð á láni til rafvirkjunar í Árnessýslu, ef við, sem stöndum að till. um sams konar ábyrgð fyrir Snæfellsnessýslu, tækjum aftur okkar till. Ég hef ekki heimild til þess að segja um þetta að svo stöddu, ekki fyrr en ég hef rætt málið við meðflm. mína. Það er mjög eðlilegt, að þessar 2 ábyrgðarheimildir haldist í hendur og annaðhvort verði þær báðar samþ. eða hvorug.