06.06.1941
Sameinað þing: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

1. mál, fjárlög

Páll Zóphóníasson:

Ég leyfði mér að bera fram skrifl. brtt., sem ég vil skoða sem leiðréttingu. Í l., sem þingið hefur samþ. nú um húsmæðraskóla í kaupstöðum, er ætlazt til þess í 11. gr., að sett verði á stofn húsmæðrakennaradeild í sambandi við húsmæðraskóla Reykjavíkur. En ætlazt er einnig til eftir öðrum 1., að slík kennaradeild verði sett á stofn í sambandi við skóla á Laugarvatni. Nú er þetta sameinað og ætlazt til, að þessi kennsludeild verði við báða skólana, til skiptis, og það var hugsað þannig, að hún byrjaði hér í Reykjavík, yrði þar fyrsta veturinn, en síðan að vorinu að Laugarvatni, og svo til skiptis á stöðunum báðum.

Kennslukvennaskólinn á því að vera einn og rekinn eftir atvikum á báðum stöðum. Ég skoða því þessa brtt. mína sem leiðréttingu við aðgæzluleysi fjvn.

Úr því að ég stóð upp, vil ég í fyrsta lagi ítreka það, sem ég sagði í minni fyrstu ræðu, að nauðsyn bæri til þess að Alþ. sæi um, að fé væri til staðar til áframhaldandi tilrauna viðvíkjandi landbúnaðinum, þannig að tilraunastöðvarnar njóti áframhaldandi styrks. Fjvn. hefur gleymt að taka þetta upp í brtt. sínar, svo að við hv. 2. þm. Skagf. höfum flutt brtt. um, að sú sama fjárveiting verði nú veitt í þessu skyni, sem hefur verið að undanförnu og þá komið frá Búnaðarfélagi Íslands. Ég vænti þess, að bæði hv. fjvn. og Alþ. sjái nauðsyn þessa máls og greiði till. atkv. sitt.

Ég vil einnig geta þess, að ég tel, að óafsakanlegs ábyrgðarleysis gæti í þessum fjárl. hjá Alþ. Enn fremur hefur fjvn. gengið feti framar en áður hefur verið gert í því að láta ekki sjást, til hvers fjárveitingar eru veittar, heldur slengt í eitt fleiri liðum. Ég tel þetta óafsakanlegt spor í einræðisátt, og þannig má það ekki vera framvegis. Í öðru lagi hefur n. ekki rökstutt till. sínar, en slíkt hefur aldrei áður átt sér stað. Það hefur aldrei áður verið veitt fé til hafnargerða án þess að sett hafi verið um þær sérstök lög og fyrir legið kostnaðaráætlun. Þegar slíkt ábyrgðarleysi kemur fram hjá fjvn., ráðherrum og ríkisstjórn, þá er ekkert undarlegt, þó að þess sama gæti hjá hv. þm. Margir hv. þm. koma með órökstuddar till. og enginn getur vitað, hvort þær eru þarfar eða óþarfar. Fjárl. eru því komin í hið mesta óefni, eins og hv. þm. V.-Húnv. lýsti yfir áðan, og ég mun ekki greiða þeim atkv. mitt eins og þau eru nú.