06.05.1941
Neðri deild: 52. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Sigurður E. Hlíðar:

Ég kann ekki við að láta þetta mál fram hjá mér fara án þess að gera grein fyrir minni afstöðu.

Mér skilst eftir þeim ræðum, sem hér hafa verið haldnar um málið, að það sé einhver deyfð yfir því. Það má skilja það, að hér sé ekki um neitt stórmál að ræða. Þetta er þó eitt stærsta málið, sem fyrir þessu þingi hefur legið, ekki sízt fyrir það, hvað fjárfrekt það er.

Mín afstaða til málsins hefur verið skýrt mörkuð frá því fyrsta, og stafar það vitanlega af því, að ég er fagmaður í þessu máli. En allt um það hefur hv. Alþ. ekki séð ástæðu til að leita minnar umsagnar eða taka tillit til minna tillagna í málinu. Þetta verð ég að taka sem móðgun við mig persónulega, og um leið gefur það til kynna, hversu hv. þm. eru djarfir.

Ég fullyrði, að það sé alls ekki sannað enn þá, að mæðiveikin sé smitandi sjúkdómur. Það hefur enginn getað sannað þetta, heldur þvert á móti. Hér er hins vegar um grundvallaratriði í þessu máli að ræða. En það þýðir víst lítið að koma fram með slíkar staðhæfingar. Það er verið að hólfa í sundur og girða þvers og kruss til að verjast veikinni, þótt hún sé vitanlega meira og minna um landið allt. Þannig mun verða haldið áfram, þar til búið er að króa hverja sýslu af. Ég tel, að hér sé verið að leggja á tæpasta vaðið, og svo tæpt, að ekki sé hægt orðalaust að láta það ganga fram hjá sér. Þess vegna vil ég lýsa því yfir mjög ákveðið, að ég er á móti þessu máli.