14.05.1941
Neðri deild: 59. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (2432)

94. mál, girðingar til varnar gegn útbreiðslu sauðfjársjúkdóma og fjárskipta

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson) :

Það er dálítið einkennilegt og óviðkunnanlegt að hlusta á málflutning hv. andstæðinga þessa máls við þessar umr., og reyndar oft áður. Það mætti ætla, eftir ræðum þeirra að dæma og undirtektum yfirleitt, að landbn., sem flytur frv., sé að því eingöngu fyrir sjálfa sig, eða þá a. m. k. fyrst og fremst fyrir þau héruð, sem komin eru nú þegar undir fordæmingu hinna geigvænlegu pesta, staðinn fyrir, að þetta frv. er, eins og allir vita, flutt í því skyni að bjarga þeim héruðum, sem enn eru ósýkt.

Og það, sem einkennilegast verður að telja, er það, að aðalmótstaðan kemur frá fulltrúum þeirra héraða, sem verið er að reyna að forða með þessu. Það er verið að gera þetta fyrir þau héruð, sem eru svo lánsöm að hafa sloppið fram að þessu. Þetta eru svo undirtektirnar, og við í landbn. erum í tilbót sakaðir um frekju og framhleypni fyrir að hafa undirbúið málið.

Hv. 2. þm. Rang. sagði eitthvað á þá leið, að nóg væri að viðhalda aðalvarðlínunni um Þjórsá að sunnan og Héraðsvötn að norðan. En það þarf að verjast fleiru en mæði- og garnaveiki, og því þarf að halda uppi vörnum víðar og á öðrum línum. Nú er komin upp ný pest norður í Þingeyjarsýslu, sem ekki er hægt að staðbinda eða verjast með öðru en girðingum.

Ég álít, að hæstv. ríkisstj. og mæðiveikin. eigi skilið þakkir fyrir að hafa staðið fyrir pöntun í girðingarefni í tíma, en ekki ávítur. Það hefði farið betur, ef sama framsýni hefði verið sýnd, þegar mæðiveikinnar varð fyrst vart.

Eða á nú enn enga lærdóma að draga af þeirri reynslu, en bíða og velta vöngum tvístígandi, þangað til pestirnar hafa náð að flæða yfir allt landið, bæ frá bæ, hérað eftir hérað?

Hv. þm. V.-Sk. (GSv) sagði, að við, sem sæti eigum í landbn., værum orðnir svo djúpt sokknir í pest og skilningsleysi, að við vildum ekki lengur hlusta á till. og úrræði annarra en okkar sjálfra.

Ég lýsti því í framsöguræðu minni, að við hefðum tekið til greina allar bendingar hv. þm., en að við mundum hins vegar aldrei víkja frú aðalatriði þessa máls Og sjálfum grundvelli þess, eins og gert væri með samþykkt hinnar rökst. dagskrár.

Þá sagði sami hv. þm., að því fé, sem varið hefði verið til girðinga undanfarin ár, hefði verið á glæ kastað. En ég vil svara því til, að það ætti hann að geta séð og viðurkennt, sem allir sjá, að tekizt hefur að hefta framsókn veikinnar á tveim línum, við Þjórsá og Héraðsvötn, og það var gert með girðingum. Og ég vil bæta þessu við, að þótt ekki takist að stemma stigu fyrir útbreiðslu pestanna annars staðar en þar, þá er því fé vel varið, því að það tjón, sem af hlytist, ef veikin fengi að breiðast út, yrði þrefalt á við það, sem nú er orðið, eða hver veit hvað. Og það yrði margfalt á við þann kostnað, sem ríkissjóður hefur haft vegna varnanna. Og þó að varið hefði verið tvöfalt hærri upphæð til varna, þá hefði það ekki verið of mikið, miðað við það, sem í húfi er.

Ég fullyrði það, þótt of seint hafi verið gripið til varna og á mörg misstigin spor sé hægt að benda, sem stafa af reynsluskorti og þekkingarleysi, þá hefur árangurinn samt orðið ómetanlegur.

Þá sagði hv. þm. V.-Sk. enn fremur, að einræði landbn. væri orðið svo mikið, að mæðiveikinefnd væri ekki einu sinni spurð ráða. Þessu vil ég svara með því að benda honum á þá staðreynd, að þegar frv. var samið og lá fyrir búnaðarþinginu, þá áttu þar sæti tveir menn, sem eru í mæðiveikin., og ég veit ekki betur en þeirra aths. hafi verið teknar til greina. Þá má og geta þess, að mæðiveikin. kom tvisvar á fund landbn. og að landbn. tók tillit til allra bendinga hennar.

Það er svo engin ný speki hjá hv, þm., að búnaðarþing sé ekki sett yfir Alþ. Hitt er vitaskuld, að frv. ber frá okkar sjónarmiði ekki að skoða sem neitt valdboð, þótt það komi þessa leið inn á Alþ. Heldur ber að skoða það sem tillögu þeirra manna, er það sömdu, en það voru allt kunnáttumenn með sérstaka þekkingu á þessu máli. Ég á því einnig örðugt með að skilja, hvernig það getur orðið árásarefni á n.

En sé rétt að segja, að búnaðarþing sé ekki yfir Alþ. sett, þá mun víst með sama rétti mega halda því fram, að sýslunefndir séu það ekki heldur. Ef fara á að senda málið núna til sýslunefndanna, láta þær liggja á svo og svo lengi, en síðan loksins að senda Alþ. það til ákvörðunar, þá getur það vitanlega aldrei orðið til annars en tefja framkvæmdir. Slík sending á milli Heródesar og Pílatusar mundi í reyndinni aðeins valda því, að pestirnar fengju að leika lausum hala á meðan og drepa niður stofninn óhindrað og í friði.

Einnig var sami hv. þm. mjög hneykslaður á því og kallaði það frekju, að landbn. skyldi leggja áherzlu á samþykkt þessa frv., sem „aðeins væri borið fram af fáeinum mönnum“. (GSv: Það eru nú ekki allir þm. svo hrokafullir, að þeir ætlist til, að allt nái fram að ganga, sem þeir bera fram.) Ég held nú bara, að þessi hv. þm. sé svo hrokafullur, að hann beri aleinn fram mál, sem hann ætlast til, að nái samþykki.

Að lokum vil ég enn láta í ljós undrun mína á því dæmalausa fyrirbrigði, að landbn. skuli sæta ákúrum frá fulltrúum þeirra héraða, sem verið er með þessu frv. að reyna að bjarga frá því að lenda í sama foraðinu og héruðin, þar sem fjárpestirnar hafa geisað. Mér finnst þetta sama og að kalla pláguna yfir sig vitandi vits. Og það minnir mig á hið fornkveðna, sem á vel við að rifja upp fyrir herra kirkjuráðsmanninum : „Gef oss Barrabas lausan“.