27.03.1941
Neðri deild: 24. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (25)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Bergur Jónsson:

Ég vil leyfa mér að bera hér fram fyrirspurn til. ríkisstj., þar sem ég sé, að hæstv. utanríkisráðh. er viðstaddur.

Við höfum fengið dálitla sendingu frá herveldinu Þýzkalandi, þar sem það lýsir Ísland í hafnbann. Nú mun ég ekki spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvaða ráðstafanir hún muni gera til þess að þetta hafnbann valdi sem minnstu tjóni, en ég vil leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til stj., hvort hún álíti ekki rétt að mótmæla a. m. k. þeim háðulegu ummælum, sem Þýzkaland hefur leyft sér að viðhafa um Ísland, þar sem það telur Ísland „danska eyju“.

Það fer ekki hjá því, að Þjóðverjum, sem hertekið hafa sambandsríki vort Danmörku, er fullkunnugt, að Ísland er frjálst og fullvalda ríki og Danmörku algerlega óháð. Þessi óvirðulegu ummæli koma því úr hörðustu átt.