10.06.1941
Efri deild: 74. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (2501)

140. mál, bankavaxtabréf

Fjmrh. (Jakob Möller) :

Af því að ég var hér staddur, þegar hv. 1. þm. Eyf. beindi til mín fyrirspurn um, hvernig hægt væri að úrskurða, hvað væri skráð gengi bréfa, ef ekki væri til í landinu sérstök stofnun, sem hefði þá skráning á hendi, þá vil ég ekki færast undan því svari, sem unnt er að gefa: Það yrði almennt talið það gengi, sem Landsbankinn keypti bréfin með, einkum þegar um erlend bréf væri að ræða. Þótt bankinn sé ekki í svipinn kaupandi bréfa, kaupir hann eitthvað alltaf öðru hverju og hefur á þeim eitthvert skráð gengi. Í sjálfu sér kæmi það til mála, sem hv. 1. þm. Reykv. vék að, að þetta gæti orðið dómstólamál, og yrði það þá að vera matsefni, hvað telja bæri skráð gengi. En hitt finnst mér sanni næst, að fara eftir landsbankagengi.