07.06.1941
Efri deild: 73. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1000 í B-deild Alþingistíðinda. (2583)

70. mál, Háskóli Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Mér þykir eðlilegt að segja nokkur orð um þetta mál, fyrst og fremst af því, að það hefur komið fram í hv. Nd., að málið sé flutt að tilhlutun kennslumrh. og eftir hans beiðni. Þetta mun að vísu ekki vera sagt af öðru en misskilningi, og vil ég leiðrétta hann hér, en þetta hefur áður ver ið leiðrétt í hv. Nd. Ég get sagt það, að með þeim málum, sem flutt hafa verið að minni beiðni, hef ég reynt að fylgjast sem bezt, og ég hef verið svo heppinn að geta jafnan haft góða samvinnu við hv. þm. um að koma þeim fram. Svo hefur jafnan verið á meðan ég hef verið þm. eða farið með ráðherraembætti. Og ef þetta mál hefði verið flutt að minni tilhlutun, þá hefði ég reynt að hafa samvinnu við hv. þm. um að fá því framgengt. Ég ætla að lesa hér bréf frá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu til menntmn. Nd., því til staðfestingar, sem ég sagði áðan. Bréfið hljóðar þannig:

„Hér með sendir ráðuneytið hinni heiðruðu menntamálanefnd neðri deildar Alþingis, samkvæmt beiðni háskólarektors, frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 21 1. febr. 1936, um Háskóla Íslands, ásamt bréfi rektors dags. 28. desbr. f. á., til skýringar frumvarpinu.

Enn fremur fylgir hér með afrit af bréfi háskólarektors til forsætisráðherra, dags. 3. sept. 1940, einnig varðandi breytingu á háskólalögunum, eftirrit af bréfi Gylfa Þ. Gíslasonar, hagfræðings, til háskólarektors, dags. 17. ágúst f. á., ásamt 3 fylgiskjölum, afriti af nefndaráliti Þorsteins Þorsteinssonar, Odds Guðjónssonar og Sverris Þorbjarnarsonar, dags. 2. sept. 1940, og loks áætlun um kostnað við kennslu í viðskiptafræðum og hagfræðum við Háskóla Íslands á næstu árum.

F. h. r.

Gústav A. Jónasson, Ragnar Bjarkan.

Til menntamálanefndar neðri deildar Alþingis.“

Þetta bréf er dagsett 27. febr. 1941, eða áður en deilurnar byrjuðu um þetta mál, sem verið hafa allmiklar síðan málið kom hingað. Þetta vildi ég taka fram. Það hefur ekki komið fyrir, og ég vildi ekki, að það kæmi fyrir, að mál, sem ég hefði beðið um, að yrði flutt af n., gengi gegnum þingið án þess að ég reyndi að fylgjast með því.

Svo hefur verið minnzt á það, undir hvaða ráðun. þessi skóli heyrði. Sumir telja, að allir skólar skuli tilheyra kennslumálaráðun., en það er misskilningur. Verzlunarskólinn tilheyrir atvinnumálaráðun., húsmæðra- og bændaskólar til heyra landbúnaðarráðun., en aðrir skólar kennslumálaráðun. En aldrei hefur neitt verið ákveðið um það, hvaða ráðun. þessi skóli skyldi til heyra, þó að ég hafi séð um, að hann fengi þær greiðslur, sem hann þurfti. Eftir eðli sínu ætti skólinn að til heyra utanríkismálaráðun. eða atvinnumálaráðun. Og þar sem skólinn er stofnaður af utanríkismn., eða fyrir tilhlutun, þm. í utanríkismn., en ekki ríkisstj:, hef ég ekki séð ástæðu til að hafa önnur afskipti af honum en þau að annast þessar greiðslur. En þessi bréf eru send kennslumálaráðun., vegna þess, að háskólinn, sem tilheyrir kennslumálaráðuneytinu, æskir þess, að breyting þessi sé gerð áskólanum og hann færður undir stj. háskólans.

Það, undir hvaða ráðun. skólinn heyrir, kemur þessu máli ef til vill ekki mikið við, en það má minna á það, hvernig skólinn er til kominn, að utanríkismn. hefur raunverulega stofnað hann, án þess að fyrir liggi nánari 1. um rekstur hans. Það er verið að óska eftir reglugerð um það, hvernig skólinn skuli rekinn, en enginn ráðh. mundi gefa út slíka reglugerð, því að enginn grundvöllur er til undir hana. Eini aðilinn, sem gefið gæti út slíka reglugerð, er utanríkismn: Það er reyndar til uppkast að reglugerð, og mundi hún að líkindum vekja nokkurn ótta hjá stúdentum um það, að kröfur til inntökuprófs yrðu lækkaðar, svo að „standard“ skólans lækkaði. Afskipti háskólans af þessu máli komu til á fyrra ári. Háskólarektor ræddi þá um málið við ríkisstj. og krafðist þess, að gefin yrðu út brbl. um þetta. Um sama leyti þurfti stj. að fá húsnæði fyrir menntaskólann í háskólahúsinu og var þess þá krafizt, að ríkisstj. gæfi út brbl. um viðskiptaháskólann eða lofaði að flytja á Alþ. frv. það, sem hér liggur fyrir. Það hefur komið fram, að stj. hafi lofað að flytja þetta frv., en það er ekki rétt. Stj. gat ekki lofað því, þar sem hún var ekki rektor sammála. Auk þess taldi stj. ekki rétt af rektor að setja henni skilyrði fyrir því, að hún fengi þetta húsnæði. Rektor var tilkynnt, að líklega væri meirihlutafylgi við málið á Alþ., og varð hann að sætta sig við það. Ég get tekið það fram, að málið fékk leiðinlegri afgreiðslu milli stj. og rektors en ég hefði óskað. Þetta get ég sagt, þó að ég fari ekki nánar út í þá sálma án tilefnis. Þess vegna er það ekki sízt, að málið var sent Alþ. hinn 27. febr. á þann hátt, sem ráðuneytið lét það frá sér fara.

Um breytingarnar sjálfar, sem lagt er til í frv. að gerðar verði, er það að segja, að ágreiningurinn er ekki um það, hvort sameina eigi viðskiptaháskólann háskólanum, því að ég hygg, að þrír fjórðu hlutar hv. þm. séu því fylgjandi. Ágreiningurinn er um það, hvort inn í viðskiptaháskólann eigi að komast stúdentar einir, eftir að hann hefur verið sameinaður háskólanum, eða ekki. Háskólinn leggst á móti því, að aðrir en stúdentar fái upptöku í viðskiptadeildina.

Vitanlegt er, að mjög mikið fylgi er fyrir því, að skólinn verði einnig opnaður fyrir aðra en stúdenta frá menntaskólunum. Og ég held sannast að segja, að það ætti að vera alveg vandalaust að búa svo um, að aðilar yndu við og sættir kæmust á í þessu máli, þannig að menn úr verzlunarskólunum gætu, að viðbættu nokkru námi, fengið að taka próf inn í viðskiptaháskólann, eftir að hann væri sameinaður háskólanum, og mætti vel, til að friða háskólann, kalla þá viðskiptastúdenta. Við höfum hér fyrir bæði máladeildarstúdenta og stærðfræðideildarstúdenta, og þetta próf mætti að vísu taka án þess að stunda nám í menntaskólunum í Rvfk og á Akureyri, en með svipuðum kröfum í ýmsum greinum og sömu stjórnskipuðum prófdómurum og þar. Þannig ætti að mega tryggja, að viðskiptastúdentar gætu í raun og veru engu síður en aðrir stúdentar haft örugga menntun til að standa á og stunda háskólanám. Ég hygg, að fyrir þessari lausn sé verulegur vilji í þinginu og málið verði aldrei leyst með öðru móti á viðunandi hátt eða til frambúðar. Hins vegar veit ég ekki á þessu stigi málsins, hvaða afstöðu háskólinn mundi taka til þeirra breytinga, sem um var rætt. Hann hefur verið þeim mjög andvígur. En viðvíkjandi stúdentum þeim í viðskiptaháskólanum, sem nú hafa hætt við að taka þar próf í vor og eru hræddir um, að prófið yrði sér að litlu eða engu gagni, ef inntökuskilyrði skólans og „standard“ hans allur ætti að lækka, vil ég taka fram, að ég veit reyndar, að flest eru þetta mjög dugandi stúdentar, og ég skil vel, að þeim þyki leitt að geta átt á hættu að skólanum verði breytt: En ég hygg, að sú áhætta fyrir þá sé það lítil, að þeir hefðu vel mátt taka prófið fyrir henni. Þó að þetta mál verði e. t. v. ekki afgreitt að sinni, mun vera eindreginn vilji fyrir því hjá miklum hluta Alþ., að sameiningin við háskólann fari fram nú eða síðar og viðskipta- og hagfræðideildin verði vel úr garði ger; ekki lakar, heldur betur en viðskiptaháskólinn er, svo að ótti um lækkaðar kröfur er ástæðulítill. Í haust, sem leið, var Gylfi Þ. Gíslason hagfræðingur ráðinn til kennslu með því loforði af hálfu ríkisstj. allrar, að ef sameiningin færi ekki fram innan tveggja ára, skyldi hann að þeim tíma liðnum verða dósent og síðar meir prófessor í hagfræði við háskólann. Þessi frestur var settur, til þess að vissa væri fyrir, að málið yrði afgert, áður en honum lyki. Ég veit að vísu talsvert um þá sögu, hve stúdentarnir í viðskiptahásk. eru orðnir þreyttir á núv. fyrirkomulagi, en eitt ár mætti vel bíða fyrir því með lausn málsins. Fyrir sex vikum komu þeir á fund minn og óskuðu eftir þeirri yfirlýsing frá minni hálfu, að „standard“ námsins í skólanum og inntökuskilyrðin skyldu á engan hátt verða lækkuð frá því, sem er. Ég hef minnzt á þetta við aðra í ríkisstj., en ekki treyst mér til að lýsa yfir því við stúdentana, fyrr en vilji Alþingis lægi skýrt fyrir. Skoðun mín hefur jafnan verið sú, að sá vilji geti ekki orðið nema einn að athuguðu máli, — þess vegna væri stúdentunum áhættulaust að taka próf. Þó að þetta prófsverkfall sé það, sem maður hefði kannske tekið sjálfur þátt í á sínum tíma í skóla, er það náttúrlega dálítið vafasamt fyrir þá að hætta við próf fyrir það eitt, að þeir fá ekki þær breytingar, sem þeir óska á þeim tíma, sem þeir óska. Verður það að skrifast á reikning þess, að hér eru ungir menn á ferð.

Af þessum ástæðum getum við sagt, að það skipti ekki mjög miklu máli, hvort þessar breytingar eru afgreiddar nú eða síðar. Það er vitað mál, að stórfelldar breytingar þarf að gera á öllum fræðslumálum landsins, og er nauðsyn á, að þau verði athuguð í heild í nefnd fyrir næsta þing. Ég er forviða á þeim undirtektum, sem það mál hefur fengið hér á Alþingi, og lýsi yfir því, að vilji það ekki gera nauðsynlegar ráðstafanir, mun ríkisstj. gera það. Eitt af því, sem breyta þarf, er ýmislegt viðvíkjandi háskólanum. Það er vitaskuld ekki nema eðlilegt, að þær breytingar, sem þetta frv. ræðir um, féllu inn í þær almennu breytingar, sem þá yrðu gerðar. Á hinn bóginn er það ákaflega leiðinlegt fyrir Alþingi, ef afgreiðsla þessa máls eða töfin á henni verður til vandræða þeim ungu mönnum, sem fyrstir hafa numið hér þetta nám. Ég hygg, að ekki sé hægt að koma frv. fram, nema það verði fleiri en stúdentar, sem fá rétt til inngöngu í hina nýju deild háskólans, eða þá menn, sem kalla má viðskiptastúdenta, og má vissulega gera inntökupróf þeirra eins fullkomið og stúdentspróf á sinn hátt. Það var í rauninni yfirsjón þeirra, sem að málinu stóðu, að fá þessu ekki breytt þegar í Nd., og er sú breyting raunar gerð að vilja þeirra, sem gengust fyrst fyrir sameining skólanna, þótt málið legðist síðan að nokkru leyti í aðra farvegi.