16.06.1941
Neðri deild: 81. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

136. mál, ófriðartryggingar

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessara till. við 2. umr. og hef í sjálfu sér litlu við það að bæta. Ég er mótfallinn þeim, þó ég hins vegar telji þær ekki skipta svo miklu máli, að þó þær væru samþ., þá væri frv, þar með eyðilagt.

Ég hafði skilið álit sérfræðinganna á þann veg, að rétt væri að hafa þetta eins og það er í frv., en það má vel vera, að það sé rétt hjá hv. þm. N.-Þ., að einhverjir sérfræðinganna hafi verið á annarri skoðun um þetta. Það atvikaðist svo, að einn af þeim 3 sérfræðingum, sem unnu að undirbúningi málsins, veiktist meðan á undirbúningnum stóð, og var annar sérfræðingur kvaddur til í hans stað. Sérfræðingarnir urðu þannig 4, sem að lokum störfuðu að undirbúningi málsins. Og það má vel vera, að tveir af þeim hafi verið því andvígir að setja þetta ákvæði í frv.

Ég tel, að ef hér kemur til einhvers slíks tjóns, þá sé eðlilegast, að ríkissjóður rísi undir því að svo miklu leyti, sem hans geta leyfir. Slíkt tjón væri ekki aðeins tjón þess einstaklings, sem fyrir því yrði, heldur tjón alþjóðar, og það er þess vegna. réttlátt, að alþjóð bæti það eftir getu. Sá, sem verður fyrir slíku tjóni, verður fyrir því sem Íslendingur, vegna þess að Ísland hefur dregizt inn í hernaðaraðgerðirnar, þannig, að það hefur þessar afleiðingar. Ég tel af þessum ástæðum grundvöll frv. réttlátan eins og hann er og er því andvígur þessum brtt.