13.06.1941
Neðri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Ísleifur Högnason:

Það hafa komið fram nokkrar brtt. við frv. fjhn. Ég sé ekki í fljótu bragði, að brtt. á þskj. 741 breyti að nokkru leyti afstöðu minni til þessa frv. Eins og ég tók fram, þegar málið var til 1. umr., þá er, eins og reyndar fleiri hv. þm. hafa bent á, farið fram á svo gífurlegar heimildir handa ríkisstj., að óforsvaranlegt er fyrir hæstv. Alþ, að veita slíkar heimildir. Það, sem máli skiptir í brtt. þeim, sem nú eru fram komnar, virðist fyrst og fremst það, að ríkisstj. sé heimilt — heimilt aðeins — að fella niður tolla af nokkrum kornvörum, sem til landsins flytjast, og enn fremur að lækka tolla á sykri og sykurvörum; þetta eru brtt. við 2. gr. frv., og 2. liður. Það má segja, að þetta sé það eina í þessum brtt. á þskj. 741, sem getur unnið á móti dýrtíðinni. Svo kemur 3. liður þessarar 2, gr. brtt., sem kippir allt í einu burt verkunum þessars tilslakana, því þar er heimild fyrir ríkisstj. til að hækka um 50% tolla af áfengi og tóbaki, svo og gjald af innlendum tollvörutegundum, sbr. lög nr. 60 30. des. 1939, og aðflutningsgjöld af sams konar vörum. Samkv. upplýsingum hv. þm. A.-Húnv. gáfust árið 1940 tekjur af áfengi og tóbaki ag af innlendum tollvörutegundum sem svaraði 4.4 millj. kr. Hækkunin, með sömu neyzlu árið 1942, yrði þá á því ári um 2¼ millj. kr. Það er fljótséð, að þessi hækkun á dýrtíðinni, sem hæstv. ríkisstj er heimilt að gera samkv. 3. lið 2. brtt. á þskj. 741, vinnur ekki aðeins á móti lækkun hennar, sem fengist eftir 1. og 2. lið, heldur er sú upphæð miklu meiri. Það má benda á, að það séu ekki allt þarfavörur, sem farið er fram á að hækka toll af, svo sem áfengi og tóbak. En um þessar tvær vörutegundir er ólíku saman að jafna. Áfengi er skaðlegt mjög. Alþ. hefur fengið áskorun um það frá 23040 kjósendum í landinu, að bæjar- og sveitarfélögum verði heimilað að hafa sjálfsákvörðunarrétt um það, hvort áfengissala væri leyfð hjá þeim. En Alþ. hundsaði þessar kröfur. Og ég geri ráð fyrir, að það hafi verið af þeim ástæðum einum, að áfengið gefur svo miklar tekjur í aðra hönd. Í staðinn fyrir að verða við þessum kröfum um að heimila bæjarstjórnum að loka áfengissölum, þá er hér verið að fara fram á að hækka enn þá toll á áfengi, til þess að auka gróða ríkissjóðs á því, sem sé að binda þetta eiturlyf enn þá fastari böndum við ríkissjóðinn, svo að það verður enn erfiðara, þegar stundir líða, að losa ríkissjóð við það. Um tóbakið má að vísu segja, að það sé óþarfi. En samt geri ég ráð fyrir, að um 90% af þeim, sem eru fyrirvinna heimila, neyti tóbaks, og ég geri einnig ráð fyrir, að margir þeirra telji tóbak eitt af sínum nauðsynjum, þannig að ekki sé vafi á því, að margir menn munu, þessir, sem ég nefndi, og aðrir, láta sig skorta jafnvel margt fremur en tóbak. Þess vegna verður frá þessu sjónarmiði tóbakið að teljast til nauðsynjavara. Þá eru innlendu tollvörutegundirnar. Af kaffibæti mundi þessi tollur líklega verða um 30 aura hækkun á hverju kg, sem sennilega yrði til neytenda 40 aurar á kg. Af sykurvatni (saft) mundi hækkunin nema um 35 au., og til neytenda má gera ráð fyrir 50. au. tolli. Og báðar þessar vörur eru á borði hvers einasta alþýðumanns í landinu. Er þetta því ekki annað en að taka úr öðrum vasanum og láta í hinn, og jafnvel að taka meira en gefið er, þar sem ríkisstj. er heimilað að hækka tolla af þessum vörum. Auk þess má þess geta, sem hv. þm., vita af reynslunni, að þegar ríkisstj. hefur fengið heimild til að ívilna um tollaálagningu, þá hefur sú heimild ekki verið notuð. Þegar tollskráin nýja var samþ., var fjmrh. heimilað að fella niður að reikna verðtoll af flutningsgjaldi á því, sem til landsins flyttist. Þetta hefur ekki verið framkvæmt. Hins vegar munu engin dæmi til þess, að þegar ríkisstj. hefur fengið heimild til að leggja á tolla eða skatta, að þá hafi sú heimild ekki verið notuð.

Ég hef nú gert fulla grein fyrir því, að brtt. á þskj. 741, við 2. gr. frv.; stefna frekar að því að auka dýrtíðina heldur en að minnka hana. Verð ég því að segja, eins og ég hef áður sagt, að það er rangnefni á frv. að nefna það frv. til að hafa hemil á dýrtíðinni, heldur er það beinlínis til að auka dýrtíðina. Því að vitanlega verður líka að reikna tolla ag skatta til útgjalda, sem óhjákvæmileg eru vegna nauðsynja hvers heimilis. Og það verður ekki annað sagt en að þessir skattar, sem í frv. er gert ráð fyrir að leggja á almenning, eru býsna háir.

Annars verð ég að segja það, og kann einhverjum að þykja það kynlegt, að hv. 5. þm. Reykv., sem talaði næst á undan mér, tók ýmislagt fram af því, sem ég vildi hafa sagt, og fellur margt af því, sem hann sagði, saman við það, sem er mín skoðun á þessu máli.

Ég vil undirstrika það, að afleiðingin af þessari skattaherferð kemur mjög mikið niður á sjómönnum og smáútvegsmönnum, og af sjómönnum kemur það niður á þeim, sem eru ráðnir upp á hlut: Nær undantekningarlaust eru sjómenn nú ráðnir upp á hlutaskipti. Skatturinn á fob-söluverð hlýtur því að koma niður á þeim, þegar það er athugað, að útflutningsn. sjávarafurða setur hámarksverð á fiskinn. Gefur þá auga leið, að það, verður ekki sá, sem fiskinn kaupir, sem verður látinn borga þennan skatt, heldur verða dregin 10% frá því verði, sem útflutningsn. skammtar. Þess vegna hljóta þessi 10% að koma niður á smáútvegsmönnum, sem ekki hafa aðstöðu til að flytja út fiskinn sjálfir, og sjómönnum. Það passar vel inn í kramið og kemur vel heim við það mikla hrós og fagurgala, sem hæstv. atvmrh. lét klingja í eyrum sjómanna fyrir nokkrum dögum um það, hvað þeir væru verðugir sinna aura, ef hæstv. Alþ. og ríkisstj. fara nú að ræna sjómenn að einum tíunda hluta af tekjum þeirra. Það er náttúrlega ekkert breytt út af venjunni þar. Menn eru skjallaðir upp í eyrun, en hér á hæstv. Alþ. er seilzt ofan í vasa þeirra og þeir rúnir eins og frekast er unnt.

Þá get ég minnzt nokkrum orðum á brtt. á þskj. 742, frá meiri hl. fjhn., um að breyta 5. gr. þannig, að í stað þess að heimila þá skattálagningu, sem gert er ráð fyrir í upphaflega frv. frá n., er hér gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilt að innheimta á árinu 1941 viðauka á tekjuskatt og eignarskatt, álagðan á árinu, og má viðauki þessi nema allt að 10% eftir þeirri brtt. Og þá er sýnilegt, að enda þótt samkvæmt þessari brtt. muni hátekjumenn sleppa betur við skattinn heldur en þeir mundu gera samkv. núverandi 5. gr. frv., þá er þetta fyrirkomulag að því leyti betra, að lágtekjumenn sleppa margfalt betur með þessari breyt., vegna þess að með till. frv. margfaldaðist skatturinn á þeim, — ekki aðeins tvöfaldaðist, heldur þrefaldaðist. Því að eftir því, sem tekjur manna eru lægri, því hærri væri eftir þeim till. aukning tekjuskattsins. Og af því að þessi óréttur, sem er svo gífurlegur eftir 5. gr. frv., er úr gildi numinn með þessari brtt., mun ég frekar sætta mig við þessa brtt. heldur en 5. gr. eins og hún er nú í frv.

Ég má segja, að það var hv. frsm. fjhn., sem minntist eitthvað á að í sinni ræðu, að andstæðingar frv. þessa ættu skilið að fá að standa fyrir máli sínu frammi fyrir þjóðinni. Ég vildi mjög taka undir þessa ósk hans og vona, að hann styrki mig í því að fá útvarpsumr. um þetta mál áður en það verður afgr. af þinginu. Ég vænti, að þetta hafi ekki verið bara mas út í loftið, heldur hyggi hann, að málstaður hv. fjhn. og hæstv. ríkisstj. sé svo góður í þessu efni, að hann þoli að koma fram í dagsins ljós, Við sósíalistar ekki aðeins fögnum þessu, heldur munum gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess að fá að koma fram með okkar málstað og andmæli gegn þessu frv., svo að almenningur geti fengið um það að vita.

Annað, sem ég vildi sérstaklega undirstrika í ræðu hv. 5. þm. Reykv., var, að ríkisstj. sjálf hefði af reynslunni sýnt, að hún hefur beinlínis gengið fremst í fylkingu fram í því að auka dýrtíðina í landinu. Nefndi sá hv. þm. þar til lækkun krónunnar og innflutningshöftin, sem auðvitað hljóta að leiða af sér vöruskort í landinu og því vöntun á framboði á vissum vörum, sem svo aftur leiðir af sér hækkun vöruverðs á frjálsum markaði. Enda hefur sýnt sig, að þrátt fyrir verðlagsn., sem allir þekkja að litlu starfi, — og starf hennar hefur jafnvel gengið í öfuga átt við yfirlýstan tilgang með þeirri n. —- þá gefur auga leið, að innflutningshöft og vöruskortur hafa aukið dýrtíðina úr hófi fram. Ýmsar vörur, sem framleiddar eru í landinu, svo sem fatnaðarvörur og ýmiss konar vörur, sem ganga undir nafninu íslenzkur iðnaður, hafa þau, forréttindi, að það er blátt áfram innflutningsbann á þessum vörum og ekkert eftirlit með því haft, fyrir hvaða verð þessar verksmiðjur selja þessar vörur til kaupenda.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta að sinni, en mun síðar taka til máls um þetta, ef tilefni gefst. Við sósíalistar munum greiða atkv. gegn þessu frumv., þegar það fær endanlega afgreiðslu frá þessari hv. d. Aðeins vildi ég taka það fram að lokum, að ég óska þess, að við atkvgr. beri hæstv. forseti sérstaklega upp 3. lið 2. brtt. á þskj. 741, sem er við 2. gr. frv.