14.06.1941
Efri deild: 80. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vildi fyrst athuga þetta frv. lítils háttar alveg án tillits til þess ranglætis, sem í því felst; að hve miklu leyti það nær tilgangi sínum, eða réttara sagt því markmiði, sem látið er í veðri vaka, að sé tilgangur þess.

Höfundar frv. segja, að aðaltilgangur þess sé að draga úr „verðbólgunni“ og bjarga ísl. krónunni. Krónan er nú skráð á líklega helmingi lægra verði en sannvirði gagnvart sterlingspundi. Svo segja hinir vísu höfundar frv., að ráðið til að draga úr aukningu dýrtíðarinnar sé að leggja tugmilljóna króna skatt á landsmenn og greiða þetta fé til útflytjenda.

Eins og frv. var upprunalega borið fram í Nd., var ætlazt til, að verðuppbætur yrðu aðeins greiddar á útfluttar vörur. En sú breyt., sem þar var gerð á frv., var svo almennt orðuð, að hún breytir þar litlu um.

Í 1. lagi er það augljóst, að verð á erlendri vöru heldur áfram að hækka eftir sem áður, úr því krónan er skráð á sama verði.

Í 2. lagi er það og augljóst, að verð á innlendum iðnaðarvörum heldur áfram að hækka eftir sem áður, þar sem öll erlendu hráefnin hækka í verði.

Í 3. lagi getur verðuppbót á útfluttar landbúnaðarafurðir ekki orðið til þess að lækka verðið á þeim á innlendum markaði.

Hingað til hafa kjötverðlagsn. og mjólkurverðlagsn. afsakað hið háa verð á þessum vörum með því, að útflutningsverðið væri svo hátt, að það borgaði sig betur að framleiða fyrir útflutning, ef innlenda verðið væri ekki hækkað í samræmi við það. Nú er það augljóst, að ef greiddar eru verðlagsuppbætur í stórum stíl á útfluttar landbúnaðarafurðir, þá mundu verðlagsnefndirnar skírskota til hins háa útflutningsverðs, þegar þær hækka verðið á innlenda markaðinum, og mundu segja, að það væri tap fyrir bændur að selja á lægra verði.

Samkv. frv. hefur ríkisstj. enga heimild til þess að skipta sér af verðlaginu á þessum vörum og má ekki heyra nefnt að fá þá heimild. Það mundi því litlu breyta, þótt henni væri fengin slík heimild. Í 1. lagi hafa menn reynsluna af því, hvers virði slík heimild er í höndum ríkisstj., sem alls ekki vill fá hana, og í 2. lagi er hægur vandi fyrir verðlagsnefndirnar að gera fyrir þeirri lækkun, sem þá kynni að verða. Útkoman yrði skrípaleikur. Úr því að allt verðlag hlýtur að hækka þrátt fyrir þessar ráðstafanir, þá segir sig sjálft, að kaup hlýtur einnig að hækka, nema ný kaupþvingunarlög verði sett, eins og viðskmrh. vill óður og uppvægur að verði gert.

Ekki er gott að segja, hvernig höfundarnir hugsa sér að koma kauplækkuninni, sem þeir tala mest um, í framkvæmd. Því verður ekki neitað, að skattaviðaukinn, sem lagður er á verkafólk, er allmikil kauplækkun, en atvinnurekendur verða að greiða jafnhátt kaup fyrr það. Svo það getur engin áhrif haft til lækkunar á framleiðslukostnaði og vöruverði.

Þrátt fyrir allar þessar ráðstafanir mun krónan því halda áfram að hrapa og vöruverð að hækka eftir sem áður. Eftir sem áður halda peningamenn áfram að kaupa upp fasteignir, til þess að koma peningum sínum í verðmæti, áður en þeir verða að engu. Eftir sem áður mun braskið blómgast og verð á fasteignum verða skrúfað upp án takmarka.

Það er ekki hægt að fá nema eitt út úr þessu dæmi. Þessar ráðstafanir frv. eru sama eðlis og Þegar Münchausen barón dró sjálfan sig upp úr feninu á hárinu, eða þegar Bakkabræður báru sólskinið inn í trogum; svo ég noti líkingu hv. 1. þm. Reykv.

Sumir hv. þm. halda því fram, að rétt væri fyrir Alþ. að láta í ljós vilja sinn um að fá breytt gengi krónunnar, en það eru Bretar, sem hafa ákveðið gengi hennar gagnvart sterlingspundinu. Þetta er alveg tilgangslaust nema skipt verði um atvmrh. um leið, og yrði þá sennilega nauðsynlegt, að fram færu alger stjórnarskipti. Því að atvmrh. hefur sérstakan persónulegan hag af því, að gengið sé lágt, og hefur beinlínis lýst því yfir, að hann sé á móti því, að það sé hækkað. Og það segir sig sjálft, að það er alveg tilgangslaust að fela slíkum manni að semja við Breta um hækkun íslenzku krónunnar. Það væri álíka og að fela Mussolini að semja við Hitler um einhver hagsmunamál Danmerkur.

Tilgangur þessa frv. hlýtur að vera allur annar en sá, sem látið er í veðri vaka í grg. Tilgangurinn er sá, að taka tugi millj. kr. úr vasa ákveðinna ríkisborgara og stinga þeim í vasa annarra. Þeir, sem á að rýja, eru verkamenn og sjómenn og aðrir launþegar, og þeir, sem eiga að fá millj. að gjöf, eru atvinnurekendur, sem framleiða til sölu á erlendum markaði.

Annað, sem sérstaklega einkennir þetta frv., er einræðisbragurinn á því. Ríkisstj. er heimilað að leggja skatt á útfluttar vörur, sem geta numið a. m. k. 10 millj. kr. eftir þeim reglum, sem henni býður svo við að horfa. Með þessu afsalar Alþ. í hendur ríkisstj. valdinu til þess að setja skattal, og þessum 20–26 millj. kr., sem ríkisstj. fengi til umráða, ef frv. yrði samþ., getur hún síðan varið eins og hún vill, án þess að vera bundin nokkrum reglum, sem þingið setur þar um. Alþ. framselur með öðrum orðum líka réttinn til þess að setja eins konar fjárlög. Með þessu er löggjafarvaldið í veigamestu málunum afhent einræðisstj. og tekið af Alþ.

Það virðist ætla að rætast, sem marga grunaði, þegar stjórnarskráin var brotin og þm. ákváðu að skipa sjálfa sig til þingsetu til fjögurra. ára, að næsta skrefið mundi verða að afhenda ríkisstj. einræðisvald. Ríkisstj. fær ótakmarkað vald til þess að, refsa og umbuna, og í því skyni er henni fengið í hendur fjármagn, sem skiptir tugum millj. kr. Ríkisstj. getur því refsað stéttum og hópum manna, sem henni er illa við, með því að leggja á þá þunga skatta, og hótað þeim þungum sköttum, ef þeir eru ekki auðsveipir. Öðrum hópum og atvinnustéttum getur hún veitt umbun fyrir góða þjónustu og mútað til fylgis við sig með þessum sömu millj., auk þess, sem þetta er líka prýðilegt tækifæri til þess að sjá hagsmunum sumra ráðh. og þeirra venzlamanna borgið. Ef síldveiði verður lítil í sumar, þá er ekkert líklegra en að sumir stríðsgróðamennirnir, sem undanfarið hafa gert út á síld, eins og t. d. hlutafélagið „Kveldúlfur“, geti fengið ríflegan hlut af þessum millj. kr. í uppbætur. Mér þykir satt að segja ekkert undarlegt, þó að bændur telji sig afskipta, ef það er rétt, að mjólkurverðið til bænda í Borgarfirði t. d. hafi hækkað aðeins um rúm 21% s. l. ár, á sama tíma, sem hækkun verðvísitölu er talin vera 32% að meðaltali.

Nú er það svo, að síðan verðið á mjólkinni og kjötinu var gefið frjálst, hefur útsöluverð á þessum vörum verið mun hærra en vísitalan. Og nú er svo komið, að verðvísitalan er 53%, en útsöluverð á mjólk frá því fyrir stríð hefur hækkað um 80%. En það er tiltölulega meiri hækkun á afurðum úr vinnslumjólk.

Ég mun verða fyrstur manna til þess að styðja hvers konar ráðstafanir, sem gætu orðið til þess, að hlutur bænda yrði bættur, ef það er ekki gert með þeim hætti, að ríkir stórbændur yrðu fyrst og fremst hjálparinnar aðnjótandi. Bændaalþýðan í landinu óskar áreiðanlega ekki eftir því, að stórbændum verði gefnar millj. kr., sem teknar eru úr vasa skattþegnanna, þar á meðal sveitafólksins. En það, sem fyrst og fremst þarf að rannsaka, er það, hvernig stendur á því, að bændur bera svo skarðan hlut frá borði á sama tíma og afurðir þeirra hækka svo gífurlega í verði. Þarna hlýtur að vera eitthvað bogið. Notadrýgsti stuðningurinn við bændur væri að kippa því í lag.

Annað vandamál í sambandi við landbúnaðinn er, hvernig eigi að tryggja það, að landbúnaðurinn hafi nægilegt vinnuafl til þess að halda framleiðslunni í horfinu og til þess að auka hana. Við þm. Sósíalistafl. höfum flutt till. um þetta efni, þar sem lagt er til, að ríkissjóður leggi fram fé til kaupjöfnunar í landbúnaðarvinnu, svo að bændum verði gert kleift að greiða samkeppnisfært kaup um heyskapartímann. Við gerðum ráð fyrir, að til þess nægðu ein til tvær millj. kr., og það fé er fyrir hendi. Þetta verður síðan endurgreitt í afurðum eftir efnum og ástæðum og þeirri endurgreiðslu varið til þess að lækka útsöluverðið. Þessar till. fengust ekki teknar fyrir.

Ég hef nú sýnt fram á, að öll þessi undralyf, sem hæstv. ríkisstj. þykist vera að brugga, og allar þær skottulækningar, sem hún er að glíma við, er ekki annað en hlægileg Kleppsvinna að svo miklu leyti, sem tilgangurinn er ekki sá einn að auðga ákveðna menn á kostnað annarra. Það þýðir ekkert annað en að horfast í augu við staðreyndirnar. Sannleikurinn er sá, að við Íslendingar erum innlimaðir í hagkerfi þeirra stórvelda, sem nú eru að heyja sitt dauðastríð. þetta hagkerfi á sér engrar viðreisnar von. Heilbrigt þjóðfélag getur aðeins skapazt á rústum þess. Lausn á þessu vandamáli verður ekki til á grundvelli auðvaldsskipulagsins. Það eru ekki til nein tvö úrræði eða fleiri, sem hægt er að velja um, heldur aðeins eitt, sem er kollvörpun hins sundurvirka þjóðskipulags og sköpun samvirks þjóðfélags, sem byggja verður frá grunni.