16.06.1941
Efri deild: 82. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

168. mál, ráðstafanir og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Bjarni Snæbjörnsson:

Mig langaði til þess að segja hér nokkur orð í umr. um þetta stóra mál, sem hér liggur fyrir, og skal ég reyna að takmarka mál mitt sem mest. Hæstv. forseti bað um, að þm. reyndu að takmarka mál sitt sem allra mest.

Það lá í loftinu, þegar þingið kom saman, að nokkuð mundi verða rætt um dýrtíðarmálin og reynt að stemma stigu við því kapphlaupi, sem verið hefur hingað til milli verðlags og kaupgjalds og leitt hefur til þeirrar miklu aukningar dýrtíðar, sem orðin er. Samt varð talsverð töf á, að nokkuð kæmi fram um þetta. Það lá líka í loftinu, að koma mundi till. frá hæstv. stj., en langur tími leið, þar til nokkuð heyrðist frá henni um þessi mál. Það var ekki fyrr en síðari hluta síðasta mánaðar, að ég a. m. k. hafði nokkra hugmynd um, hverjar till. stj. ætlaði sér að gera í þessu máli, og þá voru þær till. mjög svo reikular í mörgu og margt óákveðið um það, hve mikið fé þyrfti til þessara ráðstafana og hvernig skyldi verja því. Ég var þá strax þeirrar skoðunar, að þar sem málið væri ekki betur undirbúið en þetta, ættu sérfróðir menn að taka það til athugunar og vinna úr gögnum þeim, sem hæstv. stj. hefði í höndum, en þingið ætti að senda heim og kalla það saman aftur eftir þrjár vikur eða mánuð, til þess að ráða málinu til lykta. Ég hygg, að ef horfið hefði verið að þessu ráði, hefði margt verið ákveðnara í þessu frv. en nú er. En nú er þetta frv. komið fram, og harma ég, að ekki voru fyrr gerðar ráðstafanir í þessa átt og ekki farin sú leið, sem ég benti á, því að öllum, sem um málið hugsa, er vitanlegt, að mikil hætta er á ferðum að því er snertir þetta dýrtíðarmál.

Nú er frv. komið fram, og eru í því sambandi tvö atriði, sem ég vil leggja áherzlu á, að lagfæra þurfi. Annað er það, að gæta verður þess, að sama fáist fyrir sömu krónutölu af brýnustu nauðsynjum sem nú, og hitt er það, að ráðstafanir verði gerðar til, að framleiðslan í landinu dragist ekki saman. Það þarf ekki að færa rök fyrir því, að alltaf er varhugavert að fella verðgildi peninganna. Þegar þjóðstj. var mynduð og ákveðið var að fella krónuna, áleit ég, að með því væri svo stórt skref stigið, að þetta ætti ekki að gera á Alþ., heldur ætti að spyrja þjóðina um það, og yrði þá gengið til kosninga. Þetta var mín afstaða, og harma ég, að það ráð var ekki tekið. Ég er þess fullviss, að hefði það verið gert, þá hefði krónan ekki verið felld í verði. Þing hefði þá ekki komið saman fyrir haustið, en þá var stríðið skollið á, og vonir manna voru þá farnar að glæðast um það, að sjávarútvegurinn gæti grætt á stríðinu, svo að verðfelling krónunnar hefði ekki komið til greina. En nú hefur krónan verið lækkuð hvað eftir annað, eftir að hún var felld fyrst. Og með vaxandi dýrtíð hefur það orðið svo, að lítið fæst nú fyrir hana á móts við það, sem áður var.

Við vitum allir, að hyrningarsteinn fjárhagsafkomu hverrar þjóðar er það, að menn spari fé, leggi það á vöxtu og hjálpi svo til, að fjárhagsstarfsemi dafni í landinu. En ef menn hætta því, má gera ráð fyrir, að menn eyði fé sínu eða hjálpi til að hækka óeðlilega í verði ýmsar eignir í landinu, af ótta við verðfellingu peninganna. Þar sem vitað er, að ekki er hægt að hækka krónuna með því einu að skrá gildi hennar hærra, er ekki önnur leið til að sporna við þessari skriðu en sú að reyna að sporna við því, að dýrtíðin í landinu vaxi.

Um hitt veigamesta atriðið, nauðsynina á því, að framleiðslan í landinu dragist saman, ætla ég ekki að tala langt mál, því að það hafa margir gert hér á þingi og í blöðunum. En það eru ófyrirsjáanleg vandræði, sem hlotizt gætu af því, að framleiðslan drægist saman. Er ljóst, að við hefðum ekki of mikið að bíta og brenna, þó að framleiðslan héldist í því horfi, sem nú er, ef siglingar til landsins stöðvuðust, og þyrfti því framleiðslan að aukast.

Þess vegna virðist mér þetta frv. mjög mikilvægt, og þó að það sé ekki eins og ég hefði kosið, er það spor í þá átt að fyrirbyggja þetta tvennt, sem ég minntist á, og bæta hag þjóðarinnar í framtíðinni. Hins vegar þykir mörgum, eins og minnzt hefur verið á, of langt gengið með því að krefjast mikils gjalds af útflutningsafurðum eða veita ríkisstj. þá heimild, sem í frv. getur, en hún á að fá heimild til að leggja á allt að 10% af fob-verði afurðanna. Nú er það vitanlegt mál, og hef ég heyrt það af umr., líka frá hæstv. ríkisstj., að ætlunin sé að hafa gjaldið misjafnt eftir því, hverjar vörurnar eru og hvaða verð fæst fyrir þær, eða eftir því, hvaða skatt þær þola. Ég er hv. 10. landsk. sammála um það, að frá þessum tíma til áramóta sé ekki hægt að leggja nema mjög lítið — og ef til vill ekkert — útflutningsgjald á sjávarafurðir eins og ísfisk, sem bátar afla til útflutnings. En það má segja, að á vertíðum eftir áramót séu oft, eins og var í byrjun þessa árs, svo mikil uppgrip, að hægt sé að leggja á útflutningsgjald, er sé talsverður hluti af því, sem hér er farið fram á. Eins og hann drap á, má segja um síldarafurðir og aðrar afurðir, að hæpið sé, að hægt sé að leggja útflutningsgjald á þær, ef ekki verður breytt samningum, sem gerðir hafa ver ið. En þess má geta, að togurum er heimilt að selja vöru til Englands, ef siglingar hefjast aftur, og ef sama verðlag helzt og fyrri hluta þessa árs, er ég ekki í vafa um, að sölurnar þyldu talsvert útflutningsgjald: Enn fremur er ekki útilokað, samkv. till. frá Bretum, að nokkur skip fengju að sigla til Englands með afla, sem þau hefðu keypt af öðrum. Því finnst mér ekki fráleitt, að þetta 10% gjald gæti staðizt í sumum tilfellum.

Svo er hitt atriðið, sem er jafnmikils virði Hvernig verður því fé varið, sem kemur til kasta ríkisstj. að úthluta? Þar kemur fram sú skoðun mín, sem líka kom fram hjá hv. 5. landsk., en hann minntist á, að sjálfsagt væri að hafa verðuppbætur til bænda fyrir framleiddar afurðir misjafnar, því að allir vita, hve misjafnlega auðvelt er að framleiða t. d. kjöt og mjólk, eftir því, hvar á landinu er. Tökum t. d. mjólkina. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru bágar horfur fyrir bændur að því er snertir þessa framleiðslu. Í Borgarfirði eru líka mikil vandræði bænda, sem verða að búa við miklar skuldir mjólkurvinnslunnar, sem þar er. En austanfjalls hefur mjólkurbúið vexti af sinni innstæðu og skuldar ekkert. Ástæður eru því mjög misjafnar. Þetta er einnig misjafnt að því er kjötið snertir, því að víða á landinu er, sem betur fer, ekki um neinar sauðfjárpestir að ræða, kjötframleiðslan gengur þar sinn vanagang, og bændur græða á búskapnum, en í þeim héruðum, þar sem fjárpestirnar ríkja, gengur búskapurinn saman, og er við búið, að margir bændur flosni upp afjörðum sínum. Mér finnst því rétt að hafa styrkinn breytilegan eftir héruðum.

Ég ber svo mikið traust til þeirra ráðh. í hæstv. ríkisstj., sem eru sjálfstæðismenn, að þeir muni viðhafa fullkomna sanngirni í þessum tveim málum og undir engum kringumstæðum samþ., að sjávarútveginum verði íþyngt um of, þó að stj. fái þessa heimild.

Ég býst við og vænti þess, og vildi gjarnan fá yfirlýsingu frá hæstv. stj. um það mál, að þing verði kallað saman aftur, ef verulegur ágreiningur verður innan ríkisstj. um það, hvernig haga skuli skattinum, hve hár hann skuli vera og hvernig skuli verja honum. Ég vil vita, hvort ætlunin muni vera að láta aðeins meiri hl. atkv. ráða, ef ágreiningur verður um þetta.

Hér liggja fyrir brtt. frá 4 hv. þm. í þessari d. Ég segi fyrir mig, að ég er að miklu leyti sammála brtt. frá hv. 1. þm. Reykv. Ég get líka sagt um till. hv. 10. landsk., að ég get að miklu leyti fallizt á þær. En meðan ég fæ ekki annað upplýst, stend ég í þeirri meiningu, að ef nokkur brtt. verður samþ. hér í hv. d., þá sé frv. þar með dautt, en ég vil ekki undir neinum kringumstæðum stefna málinu í voða, svo að það fengi ekki afgreiðslu á þessu þingi. Mér kom því nokkuð á óvart, er hæstv. viðskmrh. mælti með því, að till. hv. 1. þm. Eyf. yrði samþ. hér í hv. d. Ég álít, að með því væri málinu stefnt í voða. Því vil ég spyrja hæstv. viðskmrh., hvort hann álíti ekki, að málinu væri stefnt í hættu með því að samþ. þessa till., því að ef hann álítur það ekki, mun ég greiða atkv. með nokkrum af þeim brtt., sem komið hafa hér fram.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri. En ég vonast til þess að fá svar, sérstaklega við þessum tveimur atriðum, í fyrsta lagi, hvort málinu sé ekki stefnt í voða, ef einhverjar brtt. verða samþ. hér í þessari hv. d., og í öðru lagi, hvort það sé svo, að ef ágreiningur verður innan ríkisstj. um það, hve hátt þetta gjald skuli vera á einstökum afurðum, og líka um það, hvernig skuli verja því, þá verði kallað saman þing aftur til þess að fá úr því skorið, hvað skuli verða gert.