16.05.1941
Efri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2884)

41. mál, krikjuþing

Frsm. meiri hl. (Árni Jónsson) :

Herra forseti! Ég þarf ekki að halda hér langa ræðu, því að bæði flm. þessa máls og samnm. minn, hv. 2. landsk., hafa að mestu tekið af mér ómakið. Ég vil aðeins aftur víkja að því, sem hv. minni hl. n. gerir að almennum ágreiningi í nál. sínu,

sem er það, að hér sé verið að stofna til stéttaxþings og þar með verið að ýta undir stéttatogstreitu í þessu þjóðfélagi. Eins og ég hef tekið fram, er ég honum sammála um það og undirstrika það, hvílíkt böl það er fyrir þetta þjóðfélag sem önnur, ef stéttarígur og stéttatogstreita verður mjög harðvítug. En ég gerði fullkomna grein fyrir því í fyrri ræðu minni, og auk þess hefur hv. 1. þm. Reykv. ítrekað það, að hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Þing þetta verður að hálfu leyti skipað mönnum, sem alls ekki eru innan prestastéttarinnar, heldur leikmenn úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Og eins og hv. 1. þm. Reykv. benti á, þá er það svo með prestastétt landsins, að hún hefur í raun og veru blandazt saman við aðrar stéttir þjóðfélagsins meira en nokkur önnur embættismannastétt landsins. Við vitum, að til sveita eru langflestir prestar bændur jöfnum höndum, og sumir meira að segja miklir frömuðir í búskap. Hv. flm. benti á það, að einu prestur hefði verið bílstjóri, hefði fengið sér bíl og haft af því nokkrar aukatekjur að flytja vörur og fólk. Auk þess má á það benda, að á seinni árum hafa ýmsir merkir prestar stundað sjómennsku. Einn hámenntaður prestur á Norðurlandi var formaður margar vertíðir, ár eftir ár. Þó að málið væri ekki tekið nema út frá þessu sjónarmiði, þá er það víst, að hér yrði ekki um hættulega togstreitu að ræða, jafnvel þó að þetta kirkjuþing yrði aðeins skipað prestum einum. Við þetta má svo því bæta, að ef þetta kirkjuþing svarar þeim tilgangi, sem ætlazt er til með þessu frv., að auka áhrif kirkjunnar í landinu, þá er vitanlega öllum kunnugt um það, að áhrif kirkjunnar eru aldrei þau að ýta undir stéttaríg og togstreitu, heldur þvert á móti að draga úr því.

Ég ætla líka, að það sé ástæðulaust að halda, að þetta verði kröfuþing. Það eru hin sameiginlegu andlegu áhugamál, sem ég geri ráð fyrir, að yrðu aðaluppistaða þessa þings.

Mér skildist á öllum, sem talað hafa hér, að þeir séu sammála um það, að það væri þörf á því, að hér yrði nokkur trúarvakning. Ég held, að menn séu líka sammála um, að það sé ekki þörf á því, að sú trúarvakning færi út í neinar öfgar. En einmitt eins og hér er til stofnað, þar sem þessi trúarvakning kæmi öðrum þræði frá leikmönnum, þá held ég, að engin hætta væri á því, að hér kæmi upp nokkur ofstækisfull trúarvakning. Því að eins og hv. flm., sem er prófessor í guðfræði við háskólann, veit, þá hefur það verið svo með okkur Íslendinga, sem betur fer, að við höfum yfirleitt ekki lent út í miklar öfgar í trúarefnum.

Hv. 1. þm. N.-M. talaði hér nokkur orð um frv., og mér skildist, að það, sem hann hafði fram að færa gegn. frv., væri fyrst og fremst það, að hann væri ekki ánægður með fyrirkomulag kosninganna, eins og það er afmarkað í frv. og einnig, að hann teldi kjörtímabilið of langt. Ég vil benda honum á það, að þetta er 2. umr. málsins, svo að ef hann vill, getur hann komið með brtt. við frv. fyrir 3. umr.

Hæstv. forsrh. var heldur dauftrúaður á það, að þetta frv. næði tilgangi sínum, og bjóst ekki við, að það mundi valda neinum straumhvörfum um trúaráhuga í landinu. Ég veit ekki, hvort til þess er ætlazt, að þessi ráðstöfun, sem frv. gerir till. um, valdi neinum straumhvörfum. Ég held, að hér sé aðeins um að ræða rólega þróun í trúarefnum, sem ég tel líka þá beztu trúarvakningu, sem við gætum kosið okkur. En ég fæ ekki skilið þær röksemdir hæstv. forsrh., að samþykkt frv. gæti orðið á nokkurn hátt til þess að torvelda safnaðarlíf í sóknum landsins. Ég held, að safnaðarlífið í sóknunum mundi sízt dofna við það, að þessari nýju stofnun yrði komið á fót, heldur þvert á móti mundi það glæðast við það. Um prestastefnuna er það að segja, að hún mundi vitanlega starfa eftir sem áður, þó að þetta frv. yrði samþ. Ég sé ekki heldur, að það gæti dregið neitt úr þýðingu þeirrar stofnunar, sem hér er um að ræða, að fá eitthvað nýtt tækifæri eða verksvið. Og ef við erum sammála um, að meiri þörf sé á því, að kirkjan láti til sín taka nú á þessum tímum en nokkru sinni fyrr á okkar ævi, þá ættum við að vera sammála um, að þetta nýja, sem hér er um að ræða, getur ekki útilokað neina aðra og gamla möguleika fyrir kirkjuna til að sinna sínu hlutverki. Og af því að hér er um mjög lítið fjárhagsatriði að ræða, treysti ég því, að hv. þdm. muni fallast á að láta frv. ganga áfram út úr d.