12.06.1941
Efri deild: 77. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (2981)

145. mál, bráðabirgðatekjuöflun fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Frsm. (Magnús Jónsson) :

Þetta mál er svo einfalt, að ekki þarf um það langar umr., en n. hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að réttast sé að afgreiða það með rökst. dagskrá, sem fylgir áliti n. á þskj. 665.

Fyrir 4–5 árum, þegar miklir fjárhagserfiðleikar steðjuðu að Hafnarfjarðarbæ, veitti Alþ. bænum heimild til þess að innheimta aukagjald af farmiðum með vögnum milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur. Ég var þessu máli fylgjandi, því að mér fannst þörf bæjarins fyrir þennan tekjustofn vera svo mikil, þótt hér væri gengið á snið við hagsmuni kjósenda minna hér í Reykjavík, sem greiddu þetta aukagjald í sjóð annars bæjarfélags. Þetta mæltist ekki illa fyrir, en ef litið er á þetta á þennan hátt, mega þau bæjarfélög, sem slík fríðindi fá, ekki fara fram á að halda þeim lengur en þörf er á, ella er hætt við, að Alþingi dragi að sér höndina um að veita slíkar heimildir í framtíðinni, jafnvel þótt þess væri þörf.

Ég er því sammála flm. frv., að nema beri þessi lög úr gildi. . En þar sem lögin eru tímabundin við árslok 1942, þá þótti n. naumast taka því að gera sérstök l. um það efni, en áleit nóg að afgr. málið með rökst. dagskrá, svo hljóðandi:

Með því að lög þau, sem frv. fer fram á að nema úr gildi, eiga samkv. 5. gr. að falla úr gildi í árslok 1942, og í því trausti, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar noti ekki heimild laganna til innheimtu á gjaldi því, sem þar um ræðir, meðan venjulegir tekjustofnar bæjarsjóðs eru nægilegir, þykir deildinni ekki ástæða til að afgreiða þetta mál og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.

Þegar maður sér, að bæjarstjórn hefur getað jafnað niður margföldum upphæðum við það, sem hún hefur áður gert, er erfitt að verja innheimtu þessa gjalds. Hv. þm. Hafnf. hefur flutt brtt. í þessu máli, þar sem hann fer fram á, að féð verði innheimt eftir sem áður, en að því verði varið til þess að malbika götu þá, sem liggur í gegnum Hafnarfjarðarkaupstað og skoða megi sem part af þjóðveginum. Við þessu væri ekkert að segja, ef sýnilegt væri, að endurnýja þyrfti þessi lög mjög fljótt. — Ég vil nú líta svo björtum augum á framtíðina, að Hafnarfjörður, með sínum góðu skilyrðum, þar sem hann hefur hlutfallslega meiri útgerð en nokkur annar bær á landinu, muni ekki hafa þörf fyrir þessa heimild. Og það verður að fara um þessa götu sem aðrar götur í bænum.

Ég sagði eitt sinn í gamni, þegar flóð af brtt. við vegal. gekk hér yfir þingið, að ég vildi bera fram brtt. um, að Laugavegurinn, sem er án efa fjölfarnasti vegur á landinu, skyldi tekinn í þjóðvegatölu. En bæirnir verða sjálfir að sjá um sínar götur.

N. vildi fara þá sanngjörnu leið að fara bil beggja, að afnema ekki lögin að svo komnu máli, en ná samt eðlilegum tilgangi frv., að innheimta ekki gjaldið, þegar þess væri ekki lengur þörf. Ég vil því mæla með, að hin rökst. dagskrá verði samþ.