10.05.1941
Neðri deild: 56. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í C-deild Alþingistíðinda. (3064)

31. mál, raforkusjóður

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að það er ekki eðlilegt eins og sakir standa, að sú kvöð sé lögð á allar stærri rafveitur hér á landi að greiða gjald í raforkuveitusjóð, til þess að nýjar rafveitur geti fengið lán með miklu lægri vöxtum en þessar rafveitur verða að borga. Ég vil taka sem dæmi rafveituna á Ísafirði, sem er gerð við ákaflega erfið skilyrði og varð tiltölulega dýr, og lánin, sem hvíla á henni og eru mikið til það, sem rafveitan kostaði, eru mjög dýr. En þar í nágrenni er ágætt fallvatn, og gæti vel farið svo, að rafveita þaðan yrði miklu ódýrari. Þá. ætti Ísafjarðarrafveitan með sitt 6% lán að leggja fram fé til þess, að sú rafveita gæti fengið 3% lán. Þetta er ekki sanngjarnt, og það er svo, að allar rafveitur, sem koma til með að greiða þetta gjald nú þegar, sem búið er að koma á, þær skulda svo að segja allan stofnkostnað. Og þegar þessar rafveitur voru byggðar, var peningamarkaðurinn ekki hagstæðari en það, að þær hafa orðið að sæta mjög erfiðum lánskjörum.

Ég ætla ekki að fara að ræða þetta mál neitt meira en gert hefur verið, en ég vil lýsa yfir því, að ég mun greiða atkv. með brtt. á þskj. 407, frá hv. þm. Seyðf., en ef 1. töluliður þeirra yrði felldur, þá vildi ég fyrirbyggja, að ekkert kæmi í staðinn og vil því leyfa mér að leggja fram skrifl. brtt., sem ég, með leyfi hæstv. forseta, vil lesa hér upp. Hún hljóðar þannig:

„2. tölul. 2. gr. orðist svo:

Árlegt gjald frá rafveitum, sem reistar hafa verið og reistar verða og hafa vatnsafl til orkuframleiðslu, hafa Vélasamstæður stærri en 150 kw. og skulda ekki yfir 40% stofnkostnaðar.

Gjald þetta skal vera 6 krónur á ári fyrir hvert kw. í málraun rafals í hverri vélasamstæðu.“

Það held ég, að hv. þm. geti varla orðið ósammála um, að sé sanngjarnt. Og þó að ég gangi á þann hátt inn á það, að rafveitur greiði gjald til þess að hægt sé að útfæra rafveitunetið um landið, þá er hér farin sú sanngirnisleið, að þetta verði ekki, óeðlilega þungbært fyrir þau fyrirtæki, sem enn hafa mjög erfiða fjárhagsafkomu. Því að þetta gjald verður auðvitað eins konar nefskattur á fólkið, sem nýtur rafveitnanna.

Ég afhendi hæstv. forseta mína skrifl. brtt. og bið hann að bera hana því aðeins upp til atkv., að 1. liður brtt. á þskj. 407, frá hv. þm. Seyðf., verði felldur.