29.04.1941
Neðri deild: 47. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í C-deild Alþingistíðinda. (3086)

34. mál, vigt á síld

Sigurður E. Hlíðar:

Að vísu er frsm. sjútvn. ekki viðstaddur, eins og hv. þm. V.-Húnv. gat um, og er því ekki auðvelt að svara þessari fyrirspurn út í æsar.

En hins vegar get ég upplýst það, að form. n., hv. þm. Ísaf., taldi, að ekki kæmi til mála, að hægt yrði að koma fyrir vigtaráhöldum í þeim verksmiðjum, sem til greina koma, og þá alveg sérstaklega ríkisverksmiðjunni á Raufarhöfn.

Hins vegar taldi hann miklar líkur á, að hægt væri að kippa þessu í lag á næsta ári, og þess vegna er það, að lagt er til, að 1. öðlist ekki gildi fyrr en 31. des. 1941. Það er af því, að álitið er, að ekki sé hægt að koma tækjunum fyrir á þessu sumri. Það er óþarfi fyrir mig að halda uppi vörnum í þessu efni, en ég vildi gefa upplýsingar um, að það er ósamræmi, sem á sér stað við verksmiðjur ríkisins, þar sem ríkisverksmiðjurnar á Siglufirði vega alla síld, en verksmiðja ríkisins á Raufarhöfn mælir alla síld. Ber flestum saman um, sem kunnugir eru þessum málum, að annaðhvort beri að vega alla síld til bræðslu eða mæla hana alla. Þá fyrst er samræmi um þetta. Aðrar verksmiðjur, t. d. í Krossanesi og Húsavík, hafa vogartæki, en í Djúpuvík og Hjalteyri er hún hins vegar aðeins mæld.

Þessar upplýsingar held ég, að mér sé óhætt að gefa, svo langt sem þær ná.