12.03.1941
Neðri deild: 16. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

53. mál, fiskveiðasjóðsgjald

Flm. (Pétur Ottesen) :

Mér er það gleðiefni, að sjútvn. skuli hafa hafið undirbúning að því að taka mál þetta til meðferðar. Að því leyti, sem þær tillögur, sem nefndin kann að hafa á prjónum, stefna að sama marki og frv. mín og gefa ekki lakari raun fyrir sjóðinn, þá get ég sjálfsagt tekið undir þær, þó að þær kunni að vera að einhverju leyti á annan veg. Því fleiri, sem leggja sig fram um að finna heppilega lausn á þessu aðkallandi nauðsynjamáli, því meiri líkur eru til, að viðunandi lausn fáist á því.

Það er alveg rétt, að ég átti tal við hv. 5. þm. Reykv. í þann mund, sem ég var að afgreiða þetta frv. inn í þingið, og þá sagði hann mér, að hann væri að vinna að frv., sem hann ætlaði að leggja fyrir sjútvn., en þá ekki lengra komið en það, að hann væri ekki farinn að ræða það mál í n. Ég hélt því áfram með flutning þessa frv. og vænti, að framkoma þessara frv. geti orðið til þess að greiða götu þessa máls, og ég ber engan kvíðboga fyrir því, að ekki geti tekizt gott samkomulag milli mín og hv. nm. um heppilega lausn þessa máls.