16.05.1941
Neðri deild: 61. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (3187)

72. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. 2. minni hl. (Finnur Jónsson) :

Það hefur ekki verið höfð mikil framsaga í þess máli, en hins vegar hafa allmikil andmæli komið fram. Ég hirði ekki um að taka upp þau rök, sem fram hafa verið færð og öll hnigu að því, að ekki næði nokkurri átt að samþ. frv., Þar sem það mundi hafa í för með sér mikla atvinnuskerðingu fjölda fólks og enn fremur draga mikið úr útflutningi, sem hafa verið lagðar margar milljónir í að koma á fót. Af hv. þm. N.-Þ. hefur það verið dregið í efa, að rétt væri frá skýrt úr bréfi fiskimálan. um atkvgr. hraðfrystihúsanna. Ég hef því fengið hjá fiskimálan. þær upplýsingar, að 3 af 37 frystihúsum séu með því, að frv. sé samþ. Á Þórshöfn, Húsavík, Hofsós og í Kf. Skagfirðinga tóku menn enga afstöðu til málsins, en allir aðrir frystihúsaeigendur eru eindregið mótfallnir samþ. frv. af þeim ástæðum, sem ég hef frá skýrt.

Ég vil ítreka það, sem ég hef áður sagt, að þetta er mikið skaðræðismál og ekki vansalaust fyrir þingið að samþ. það.