26.04.1941
Neðri deild: 45. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (3282)

120. mál, heimilisfang

*Flm. (Jón Pálmason) :

Í þessu frv. á þskj. 242 er tekið fram, hver ætlunin sé með þessum breyt., sem frv. fer fram á. En það hefur, eins og öllum þdm. er kunnugt, komið æ meira og meira í ljós, að það eru mjög miklir annmarkar á því, að því lagaákvæði sé hlýtt, að allir eigi löglegt heimilisfang á sama stað, og mjög mikil óreiða og vandræði eru það, sem ríkja á þessu sviði. Ég hef rætt þessi atriði við ýmsa þá menn, sem með þessi mál hafa að gera og standa í sambandi við kosningarrétt og gjaldskyldu til sveita og bæja, og við fulltrúa í stjórnarráðinu, sem með úrskurð sveitamála hafa að gera, og menn í framfærslun., og hjá öllum þeim, sem ég hef minnzt á þetta mál við, hefur komið í ljós sama sagan, sem sé sú, að það séu mjög mikil vandræði og óreiða á þessu sviði og fari vaxandi. Hvort þau ákvæði, sem þetta frv. felur í sér, kunna þar úr að bæta, er óvíst og ekki hægt að fullyrða neitt um það.

En það, sem mér og flm. hefur virzt einna mest valda því, hve illa hefur tekizt að halda reglu á þessu sviði, er það, að það eru engin ákvæði, sem banna einstaklingum að flytja heimilisfang sitt, ekki einungis milli bæja innan sveitar, heldur líka milli sveita- og bæjarfélaga, svo oft sem verða vill á hverju ári. Þess vegna er mikil nauðsyn á því að setja ákveðna takmörkun um það, hvað oft og með hvað miklum fyrirvara menn geta flutt sig, og uppástungan, sem við flutningsmenn höfum orðið ásáttir um, er sú, að ekki sé löglegt að skipta um heimilisfang oftar en á 6 mánaða fresti, og er miðað við áramót og 1. júlí.

Þetta hefur að vísu það í för með sér, að þeir, sem flytja í fardögum, fá ekki löglegt heimilisfang fyrr en tæpum mánuði eftir að þeir fluttu og öðlast þess vegna ekki sveitfesti, gjaldskyldu eða kosningarrétt fyrr en sá tími er liðinn.

Annað er það, að það eru ekki nein ákvæði um það, hvaða lagagildi það manntal hefur, sem prestar taka um hver áramót, en það skiptir miklu máli og kemur í ljós, þegar verið er að semja kjörskrár, að það er ákveðið gildi, sem þetta manntal hefur. Í þessu frv. er ætlazt til þess, að það manntal, sem tekið er um áramót og ætlazt er til að sé lokið fyrir lok janúar, gildi til 1. júlí.

Í l., sem nú gilda um heimilisföng, eru ákvæði um það, að hreppstjórar og lögreglustjórar eigi að taka á móti tilkynningum um breytingar, sem verða á heimilisföngum manna milli manntala, og halda skýrslu um það. Það hefur komið í ljós, að þessum ákvæðum hefur mjög lítið verið fylgt, og virðist í sjálfu sér mikið eðlilegra og réttara, að það séu þeir aðilar, sem hingað til hafa haft manntal með höndum, sem sé prestar í sveitum og kauptúnum og lögreglustjórar í kaupstöðum, sem hafi þessar skyldur.

Enn fremur höfum við sett í 3. gr. ákvæði um það, að menn séu gjaldskyldir þar, sem þeir eru heimilisfastir, þegar gjaldið er lagt á. Gjöldin eru svo mörg, að það er nauðsynlegt, að það séu ákvæði um það í l., hvar menn séu gjaldskyldir, enda hefur það komið mjög mikið í ljós, að það eru sífelldar þrætur um það, bæði milli sveitar- og bæjarfélaga og sveitarfélaga innbyrðis, að það er oft miklum vandræðum bundið að fá úr því skorið, hvar hið löglega heimilisfang er, því að það er svo oft, sem heimilisföng eru færð á milli, og meira að segja eru ýmsir menn, sem reynast eiga heima á 2 stöðum, og getur orðið örðugt að skera úr því .

Ég get vel búizt við því, að það þurfi við athugun málsins að koma fleiri breyt. á þessa löggjöf, og .vil því gjarnan mega eiga von á því, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, sem ætlazt er til, að verði hv. allshn., beri sig saman um það við mig, áður en hún afgreiðir frv. frá sér.

Að sinni sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að hv. þm. sjái, að hér er á ferðinni nauðsynlegt mál, sem fullkomin ástæða er til að lögfesta nánari ákvæði um, því að það ástand, sem nú ríkir á þessu sviði, er með öllu ófært.

Ég óska svo eftir, að þessu frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til hv. allshn.