28.05.1941
Neðri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (3325)

162. mál, iðnskólar

*Frsm. (Emil Jónsson) :

Eins og segir í grg. frv. þessa, barst það n. svo seint, að hún taldi vonlítið, að það mundi ná að ganga fram á þinginu, þótt fram kæmi. N. taldi þó rétt, að það kæmi fram, svo að þm. fengju tækifæri til að kynna sér það, því að í því felast ýmis atriði, sem athuga þarf rækilega, og gæti þá gengið greiðlegar að afgreiða það síðar, er það verður aftur borið fram. Enn er sú ástæða, að gert er ráð fyrir að athuga öll skólamál landsins í heild fyrir næsta Alþingi, og er sjálfsagt, að þetta mál sé þar tekið fyrir, ef við það fengjust breytingar til bóta. Æskilegt væri einnig, að stjórnir iðnskólanna úti um land segðu álit sitt um þetta efni.

Þó að n. teldi rétt að flytja frv. nú þegar, hefur nefndarmönnum ekki gefizt tími til að kynna sér það svo rækilega, að þeir séu tilbúnir að taka afstöðu til einstakra atriða þess.

Iðnskólar hafa verið settir nokkuð á annan bekk en t. d. búnaðarskólar, sjómannaskóli, vélstjóraskóli o. fl., sem kostaðir eru eingöngu af ríkissjóði til undirbúnings mönnum í starfsgrein þeirra, Iðnskólarnir hafa aðeins notið styrks,, og hans ekki ýkjamikils, eftir nemendafjölda og námsgreinafjölda. Með þessu frv. er ekki farið fram á að gera þá algerlega að ríkisskólum, heldur eiga sveitar- og bæjarfélög að leggja fram sinn hluta og iðnfélögin að eiga hlut að máli. Það skiptir miklu máli, að iðnskólarnir fái notið áhuga allra aðila og eigi rétt á stuðningi þeirra. Nú má segja, að nýjar og miklar kröfur séu gerðar, og daglega auknar, til meiri og meiri kunnáttu og leikni í flestum iðngreinum. Á hinn bóginn hættir mörgum til að gera lítið úr kunnáttu iðnaðarmanna. Það hefur komið fyrir, að menn með nær enga kunnáttu hafa verið teknir fram yfir þá, sem lært höfðu.

Ég vænti þess, að frv. verði tekið til vandlegrar athugunar, og óska, að því verði vísað til 2. umr.