10.03.1941
Efri deild: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (3347)

43. mál, veiting prestakalla

*Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er kannske ekkert undarlegt, þó að frv. komi fram um þetta atriði, því að það fyrirkomulag, sem nú er í íslenzkum l., að prestar séu kosnir, er a. m. k. að margra áliti vandræðafyrirkomulag og hreint undantekningaratriði í löggjöfinni. Ég hygg, að ekkert því líkt sé til í 1. á Norðurlöndum, embættismenn eru þar hvergi kosnir. Það hefur yfirleitt hvergi tíðkazt í löggjöf Evrópuþjóða, heldur er þetta fyrst og fremst amerískt fyrirkomulag. Einu sinni átti ég viðræður um þessi prestskosningalög við gamlan þingmann. Í fyrstu fékk tillagan um þau engan byr. En árið 1885 var lagt fyrir þingið eins konar stjórnarfrv. um málið og þvingað í gegn. Af Dana hálfu var þetta eiginlega gert til þess að fá reynslu á því, hvernig það gengi að kjósa presta. Þegar það hafði verið reynt hér nokkur ár, þótti það hafa gefizt svo illa, að ekki þótti fært að reyna það annars staðar. Svo illa hafði það gefizt. Það hefur meira að segja gefizt svo illa, að maður, sem var vestur í Ameríku, þegar hann var kosinn prestur hér, kvartar undan því enn að hafa ekki verið nógu fjarri þeim ókristilega leik, — allt logaði í ófriði, þegar hann kom heim og þurfti alls annars með í prestsstarfi sínu en hitans eftir illvígar kosningar.

Hér er þjóðkirkja. Trúfrelsi er hér að vísu fullkomið, en þess verður að gæta, að í þjóðkirkjunni séu ekki boðaðar neinar kenningar, sem henni eru ósæmandi. Það er framkvæmdarvaldsins að vaka yfir slíku, og rökrétt ályktun er, að þá verði það að hafa veitingarvaldið í sínum höndum. Vitanlega verður ekki við því gert, að embættismenn eru misgóðir, jafnt meðal presta sem lækna eða valdsmanna og dómara, og sá mismunur þykir ekki næg ástæða til þess að taka veitingarrétt embætta yfirleitt af framkvæmdarvaldinu og fela þeim, sem njóta eiga starfs embættismannsins. heima í héraði. Eigi að kjósa presta, lægi jafnnærri að kjósa aðra embættismenn yfirleitt. Af þessari ástæðu verður að líta á prestskosningalögin sem hreina undantekning í löggjöf okkar Íslendinga.

Þetta er ekki hrein kosning, heldur fá kjósendur að láta í ljós skoðun sína á því, hvaða prest þeir vilja fá. Eins og við munum allir, þarf að mæta á kjörstað helmingurinn af þeim, sem kosningarrétt hafa, en til að prestur sé löglega kosinn, þarf hann að fá helming þeirra atkvæða. Manni virðist, að ef ekki er svo mikill samhugur um að velja prest, að ekki séu 25% af sóknarbörnum sammála um valið, þá sé ekki hægt að taka tillit til þess vilja; sem þar kemur fram. Það er tæpast hægt að hugsa sér, að lengra verði gengið en svo, að þar sem 100 menn eru í sókn, geti 26 menn ráðið vali prestsins. Það er verulegur minni hluti, sem getur ráðið því til fullnustu, hvaða prestur skuli kosinn, án þess að veitingarvaldið hafi neitt þar um að segja. Þetta er ekkert lýðræði, heldur skrípamynd af lýðræði. Ég held, að lýðræðið þurfi á öðru að halda nú á tímum en að það sé flatt út meira en orðið er.

Mér finnst, að líta megi á frv., sem hér liggur fyrir, sem velviljaða tilraun til að breyta því fyrirkomulagi, sem við búum við samkv. þeim einstæðu og einkennilegu 1. um prestskosningar, sem hér gilda. En ég hygg, að á meðan við höfum þetta kosningafyrirkomulag yfirleitt, sé ekki hægt að koma í veg fyrir allan þann róg og klofning, sem við sjáum, að fylgja þessari löggjöf. Dettur mönnum nú í hug, að þegar á að fara að grennslast eftir, hvort völ sé á góðum presti, þegar liðinn er allt að því mánuður frá því er prestakall losnar, muni ekki mörg prestsefni hafa athugað, hvort þeir eigi fylgismenn á þeim stað, sem um er að ræða? Það fara að koma bréf frá þeim til prófasts og sóknarnefndar um að mæla með sér. Svo byrja átökin, sóknarnefnd klofnar og allt kemst í uppnám. Fundirnir, sem áttu að vera friðarfundir, verða rifrildis- og framboðsfundir, eins og á undan þingkosningum. Enn er þó fyrirkomulagið svo, að ekki eru haldnir opinberir rifrildisfundir, heldur er róið í mönnum á bak við tjöldin. Setjum nú svo, að ekki náist meiri hl., þá verða kosningarnar því heitari á eftir, þegar fundirnir hafa undirbúið jarðveginn. Þegar kosningar hafa loks farið fram, þá á kosning að ráða, hversu lítið brot af söfnuðinum sem fylgir prestsefninu. Setjum svo, að 500 manns væru í söfnuðinum, en prestsefnið fengi 50 atkvæði, af því að kosningar væru svo skiptar. Prestsefnið ætti fyrir því skilyrðislaust að vera kosinn og honum veitt embættið. Ég vil benda á, að þetta er ekkert lýðræði, og ég vil benda á annað í þessu sambandi, sem vel má athuga, að með þessu háttalagi er veitingarvaldið tekið úr höndum ríkisstj. Prestur getur hagað sér svo, að hann eigi að setja frá embætti. Þarna er skipt því valdi, sem setur menn frá embætti, og því, sem veitir embætti. Við skulum segja, að prestur hafi gert svo fyrir sér, að biskup vildi láta setja hann af. Þá væri hægt að hafa nýjar kosningar og veita honum á ný.

Það er um þrennt að velja: láta 1. gilda áfram eins og þau eru, afnema þau alveg og hætta við prestskosningar, en veita prestum brauð eftir sömu reglum og gilda um aðrar embættaveitingar, eða í þriðja lagi að taka upp almennar kosningar á embættismönnum.

Ég er á móti þessu frv., og ef ekki á að láta l. í friði eins og þau eru, er um tvennt að ræða: afnema þau alveg eða taka upp almennar kosningar á embættismönnum.