25.03.1941
Sameinað þing: 6. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3451)

26. mál, handrita- og skjalasöfn ríkisins

Flm. (Vilmundur Jónsson) :

Ég hef litlu við að bæta það, sem segir í grg. fyrir þessari till. Ég hef gert mér ljóst, að mikil nauðsyn er að gera ráðstafanir til öryggis handrita- og skjalasöfnum vorum, og það dylst víst engum — sízt þeim, sem þurfa að hafa þeirra not —, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið hingað til um geymslu þessara safna, eru mjög ófullnægjandi. Hitt hef ég ekki kynnt mér, hvernig geymslu þeirra yrði haganlegast fyrir komið, né hvað kostnaðurinn af öruggri geymslu þeirra þyrfti að verða mikill. Ég tel sjálfsagt að vísa málinu til n., hv. allshn. Sþ., og þar sem enn er langt eftir þingtímans, vona ég, að n. gefist nægilegt tóm til að athuga málið með hæfum kunnáttumönnum.

Ég vil vænta þess, að við athugun sjái n. sér fært að breyta orðalagi till. svo, að ríkisstj. verði beinlínis falið að framkvæma þegar í stað þær ráðstafanir, sem stefnt er að með till. Ég geri sem sé ráð fyrir, að rannsókn n. leiði í ljós bæði það, að ekki verði komizt hjá að gera frekari ráðstafanir í þessu efni en gerðar hafa verið, og enginn hagur sé að því að fresta frambúðarráðstöfunum söfnunum til fyllstu tryggingar.