09.05.1941
Sameinað þing: 14. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 13 í D-deild Alþingistíðinda. (3453)

26. mál, handrita- og skjalasöfn ríkisins

*Frsm. (Einar Árnason) :

Þessi till. er flutt af hv. þm. N.-Ísf., þess efnis, að ríkisstj. geri ráðstafanir til að byggja sprengjuhelda geymslu fyrir handritasöfn landsbókasafnsins og þjóðskjalasafnsins. — Allshn, hefur haft þetta mál til meðferðar og fallizt á það.

Nefndin og allir eru sammála flm. um, að nauðsyn beri til að vernda þessi dýrmætu skjöl og aðra gamla og verðmæta gripi í eigu þjóðarinnar, sem ekki verða bættir, ef þeir farast.

Þessi till. gerir ráð fyrir því einu að fela stj. að gera ráðstafanir til, að byggð verði sprengjuheld geymsla, en allshn. lítur svo á, að í rauninni geti hætta loftárása verið svo nærri, að eigi vinnist tími til að byggja slíka geymslu. Þess vegna flytur n. brtt. á þskj. 296, sem er bæði orða- og efnisbreyting við aðaltillöguna og gerir aðaltill. fyllri að því leyti, að ríkisstj. geri nú þegar ráðstafanir til að koma þessum verðmætum á örugga geymslustaði utan Reykjavíkur.

N. er kunnugt um, að á síðastliðnu ári var flutt nokkuð af þessum verðmætum burt úr Reykjavík, en sennilega er þó eitthvað eftir, sem ástæða væri til að flytja burt.

N. játar að vísu, að með þessu eru skjölin ekki eins tiltæk til notkunar og ef þau væru í tryggari geymslu hér í Reykjavík. — En tímarnir eru svo núna, að eigi dugar að hörfa í þau óþægindi, og má kalla, að þjóðin sleppi vel við stríðið; ef hún hefur ekki önnur óþægindi af því en að hafa ekki aðgang að þessum skjölum. Hins vegar er n. sammála flm. að fela stj. að undirbúa byggingu sprengjuheldrar geymslu til varðveizlu safnanna í framtíðinni. Það tekur tíma að byggja slíkt, og á þeim tíma getur margt skeð. — Auk þess er ekki vitað, að efni til slíkrar byggingar sé fyrir hendi hér í Reykjavík.

N. leggur til, að þessi till. verði samþ. með þeim breyt., sem n. flytur á þskj. 296, og væntir þess, að eigi verði ágreiningur af hálfu flm., þó að þessar breytingar yrðu gerðar af n.

N. leggur til, að ríkisstj. heimilist nauðsynlegt fé úr ríkissjóði til þessara ráðstafana.