21.05.1941
Neðri deild: 64. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í D-deild Alþingistíðinda. (3560)

152. mál, kirkjubyggingar í Skálholti og á Þingvöllum

*Gísli Guðmundsson:

Þessi þáltill. fjallar um það að skora á ríkisstj. að láta fram fara undirbúning til endurreisnar kirkjunum í Skálholti og á Þingvöllum, og með undirbúningi mun vera átt við kostnaðaráætlanir og uppdrætti. Undanfarið virðist hafa verið nokkur tilhneiging til ofvaxtar í kirkjugerð í landinu, og á ég þar sérstaklega við 2–3 dæmi, sem ég mun ekki fara út í nánar, en það ber að viðurkenna, að hér stendur sérstaklega á, þar sem um er að ræða sögufræga staði, sem full ástæða er til að heiðra og vernda. Ummæli hv. flm. bera það með sér, að hér er hóflega í farið, þar sem gert er ráð fyrir, að stærð kirknanna miðist við hæfi safnaðanna.

Ég vildi nú skjóta því fram, hvort ekki væri rétt að athuga samtímis því, sem undirbúningur kirkjubygginganna færi fram, að aðsetursstaður biskupsins yrði eftirleiðis í Skálholti. Af þessum ástæðum þætti mér vel til fallið, að umr. yrði frestað nú og málinu yrði vísað til n., sem þá mundi vera allshn., og vil ég skjóta þeim tilmælum til hæstv. forseta.