13.06.1941
Efri deild: 78. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (3608)

116. mál, hestavegir meðfram akbrautum

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Þetta mál, sem kom til n. snemma á þingi, var nokkuð lengi hjá n., því að hún sendi það til vegamálastjóra, og það dróst nokkuð lengi að svar hans bærist. Till. er um það að fela ríkisstj. að láta gera áætlun um kostnað við það að gera reiðvegi meðfram helztu akbrautum landsins. N. er sammála um, að þar, sem bílaumferð er mikil, sé sérstaklega torveldaður allur flutningur á vegunum, hvort sem um er að ræða kerruhesta, ríðandi menn eða klyfjahesta. Þyrfti því að hafa sérstaka vegi fyrir þá, sem enn nota hesta að flutningatækjum. Hins vegar lítur n. svo á, að mjög þurfi hér að gæta hófs, meðan enn hagar svo til hér á landi, að ýmsir þeir, sem verða að draga allt að sér á hestum, hafa ekki fengið vegaþörf sinni fullnægt að svo miklu leyti, að þeir geti komið við kerru, hvað þá bílum.

Vegamálastjóri hefur heitið að leggja fram nokkuð af vegafé til þess að leggja slíka vegi meðfram bílvegunum í nágrenni Reykjavíkur, upp undir heiði eða hraun, hvort sem hann hefur hér hæstv. ríkisstj. til fylgis við sig eða ekki. Hinu sama. hefur hann lofað að því er snertir vegina fyrir austan fjall, og hafa félög hestamanna þar lofað að taka að sér viðhald á reiðvegum þessum.

N. vill nú gera nokkrar smávægilegar brtt. við till. Hún vill láta koma orðið „hestvegir“, þar sem stendur „reiðvegir“, og vill hún með því láta skína í, að vegir þessir eigi ekki að vera eingöngu fyrir ríðandi menn, til að leika sér á. Svo vill hún fella burt orðið „öllum“, svo að till. nái aðeins til reiðvega „meðfram helztu akbrautum landsins“. Vill hún með þessu koma í veg fyrir, að rannsókn á þessu verði eins víðtæk og orðalag upphaflegu till. bendir til, því að þegar talað er um allar helztu akbrautir landsins, þá má deila um það, hvort það nær ekki yfir langmestan hlutann af þeim akbrautum, sem búið er að leggja. N. hugsaði sér, að vegamálastjóri gæti látið gera þetta smám saman, án mikils aukakostnaðar. En sums staðar hlýtur kostnaður að verða allmikill, því að víða liggja vegir um mýrlendi, þar sem ekki væri hægt að gera þessa reiðvegi, nema með mikilli fyrirhöfn eða með því að fara mikla króka. N. býst því við, að vegamálastjóri stilli í hóf rannsóknum á þessu. N. getur þess vegna mælt með því, að till verði samþ. með breyt. þeim, er hún leggur til.