14.06.1941
Sameinað þing: 26. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3620)

65. mál, orlof

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég vil þakka allshn. fyrir það, að hún hefur afgr. þessa till., og sérstaklega hv. frsm. fyrir þann rökstuðning, sem hann færði með þessu máli. Mér skilst, að n. sé nokkurn veginn á einu máli um það, að rétt sé að láta undirbúa málið. Eins og hann réttilega sagði, er orðalagi nokkuð vikið við. Í staðinn fyrir n., sem stóð í okkar till., þá skal ríkisstj. leita upplýsinga hjá hinum ýmsu stofnunum, eins og í till. allshn. hermir. Ég býst nú við, að þetta komi nokkurn veginn að sömu notum, þar sem ég tel málið í svo öruggum höndum hjá hæstv. félmrh., að því er snertir þær óskir, sem verkalýðurinn í landinu yfirleitt vill leggja fram um þetta mál. Ég get því eftir atvikum sætt mig við þá afgr., sem till. hefur fengið í n. Það er ekki heldur nema eðlilegt, að leitað sé til stofnana eins og Búnaðarfélagsins, og því tek ég undir þá ósk, sem hv. þm. V.-Húnv. setti fram, að þetta gæti einnig komið til athugunar í sveitum landsins, en geri það ekki að neinum ágreiningi. En ég sé ekki, hvað Fiskifélagið á að gera inn í þetta mál, — ég get ekki vænzt, að það komi með neinar till. (GSv: Sjómenn). Þeir heyra ekki undir Fiskifélagið, þeir eru í allt öðrum félagsskap. (Atvmrh.: Félagið er, eins og það er nú, félag útgerðarmanna og sjómanna.) Það er fyrst og fremst félag framleiðenda við sjóinn og hefur alltaf verið það.

Viðvíkjandi aths. hv. 3. þm. Reykv. tel ég það ofmat, að 6 þúsund skipulagðir verkamenn séu utan við heildarsamtökin. Hygg ég, að þegar frá eru talin verkamannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði — og sennilega er ekki hægt að telja fleiri —-, þá sé það upp talið. Og það eru engin 6 þúsund. Svo að ég hygg það nokkurn veginn öruggt, að leitað verði til réttra aðila, enda þykist ég vita, að málið verði í höndum ríkisstj., og þá verði leitað til þeirra, sem vænta má tillagna frá í þessu máli.