16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (3660)

138. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands h/f

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Hv. frsm. meiri hl, hefur gert grein fyrir gangi þessa máls, og þarf ég því ekki að endurtaka það. Og skal heldur ekki vera margorður um málið, og nægir að vísa til þess, sem sagt er í nál. minni hl. Ég verð þó að taka það fram, að málið, eins og það virðist liggja fyrir, er ekki undirbúið eins og skyldi, svo að mér finnst rétt að það verði betur athugað, áður en afstaða er tekin til þess. Ég vil aðeins, til þess að sýna fram á, hve málið er illa undirbúið, benda á það, að það er gert ráð fyrir því, að þeir menn, sem keyptu fyrir sparisjóðsinnistæður sínar í Íslandsbanka hlutabréf í Útvegsbankanum, eiga að fá aðstöðu til þess að selja þau, en aftur þeir, sem ekki áttu inni, en keyptu bréfin af þegnskap, eiga eftir till. meiri hl. n. alls ekki að hafa aðgang að því að fá innleyst sín bréf, ef þeir óska. Ég vil benda á það, að það er einnig mikill vafi á því, hvers virði hlutabréfin eru. Hv. frsm. meiri hl. gat þess að vísu, að þeir, sem ættu bréf, vildu ekki selja þau nú, að mér skildist, þó að boðið væri í þau nafnverð þeirra í peningum. En flm. þessarar till. gat þess fyrir nokkrum dögum, að bréfin væru einskis virði. Sé svo sem þessi dæmi sýna, að mikill vafi leiki á um verðgildi bréfanna, þá sýnist mér, að réttast væri, að fram færi rannsókn á því, hvað mikið verðmæti væri í þessum bréfum. Við í minni hl. nefndarinnar töldum, að það væri ekki, nú á þessum tímum, heppileg aðstaða til þess að verðleggja þessi bréf, heldur væri réttara að gera það síðar, þegar meira jafnvægi væri komið á eignir manna. Þess er einnig að gæta, að menn hafa nú meiri peningaráð heldur en þeir hafa haft á undanförnum árum, og þess vegna er þessum sparifjáreigendum minna tilfinnanlegt, þótt bréfin séu ekki keypt af þeim nú þegar. Ef það skyldi vera rétt, sem hv. frsm. sagði, að bréfin væru í fullu nafnverði, og að þau séu helzt ekki látin af hendi, þá finnst mér ekki vera nein þörf á því fyrir eigendur að selja ríkissjóði þau. Ég vænti þess fastlega, að sá ráðh., sem hefur með bankamálin að gera, segi sitt álit um þetta mál, — ég býst við að hann sé mikið fróðari en ég um þetta mál. En bréf þau, sem nú standa til boða og ef til vill verður að kaupa, ef annars verður byrjað á hlutabréfakaupunum, geri ég ráð fyrir, að mundu, ef fyrir þau væri borgað nafnverð, kosta allt að 5 millj. kr., eða viðlíka upphæð og gert er ráð fyrir að þurfi til að stöðva dýrtíðina í landinu. Mér finnst ástæða til þess að athuga þetta mái vandlega, áður en þessi mikla upphæð er lögð fram til kaupa á bréfunum.