18.04.1941
Neðri deild: 39. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í B-deild Alþingistíðinda. (427)

75. mál, leigutaka á húsnæði í sveitum og kauptúnum o.fl.

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson) :

Allshn. hefur athugað þetta mál og fallizt á samþ. þess. Vil ég mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt. Rétt er að taka það fram, að það gat komið til greina, að efni þessa frv. væri afgr. með öðru máli, sem er frv. til l. um loftvarnan., þar sem væntanlega kemur brtt. við það frv. um heimild fyrir ríkisstj, til að taka öll skólahús, þinghús og önnur slík hús fyrir það fólk, sem flytja ber burt af hættusvæði. Hér er aðeins talað um að flytja börn og mæður í kaupstöðum og kauptúnum burt þaðan; sem loftárásahætta er. En það kunna að koma þær ástæður fyrir, að það þurfi að útvega einnig öðru fólki húsnæði af sömu ástæðum. Hins vegar vildi n. ekki tefja fyrir þessu máli með því að bíða eftir afgr. hins málsins og mælir því með, að frv. þetta verði samþ. Í þessu frv. er einnig miðað v ið, að ekki sé yfirvofandi hætta fyrir höndum, en þó séu gerðar varúðarráðstafanir, en í hinu frv. er gert ráð fyrir snöggum athöfnum, ef svo ber undir.

N. óskar einnig að taka það fram, að þó að haft sé þetta orðalag í frv.: „og annað nothæft húsnæði í sveitum og kauptúnum“, þá er vitanlega ekki tilætlunin, að annað húsnæði sé tekið en það, sem til þess er sérstaklega hentugt, og aðallega það, sem nú er laust, svo sem skólahús, fundahús og þinghús, en ekki t. d. á sveitabæjum það húsnæði, .sem ekki er notað að öllu leyti, og þannig sé ekki gengið inn á friðhelgi heimilanna umfram það, sem allra nauðsynlegast er, og einnig, að þess sé gætt um úthlutun þessa húsnæðis, að það fólk, sem er úr þeim kaupstöðum, sem má telja í mestri. hættu, sé látið sitja fyrir börnum og mæðrum frá þeim stöðum, þar sem ekki er talið, að geti verið loftárásahætta.