02.04.1941
Neðri deild: 29. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

32. mál, fjarskipti

*Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Ég hef ekki haft tækifæri til að hlusta hér á ræðu hv. þm. og get því ekki svarað því, sem fram kynni að hafa komið við umr. En ég tek eftir því, að ein af brtt. n. lýtur að því að fella niður ákvæðin um þátttöku sveitarfélaga í rekstri símastöðva. Þessi hugmynd hefur um nokkurt skeið verið til athugunar og umræðu milli mín og póst- og símamálastjóra. Ég geng út frá, að frsm. n. hafi fengið allar upplýsingar um málið hjá póst.- og símamálastjóra, þar á meðal þetta atriði. Ég hefði þó, um leið og ég játa mig algerlega samþykkan niðurfellingu þessara skyldna, eins og póst- og símamálastjóri er einnig, viljað skjóta því hér inn til athugunar í lm. n., hvort ekki væri unnt að tímabinda þetta við 1. jan. 1942. En þar eð ég sé nú, að þetta er 3. umr., er þetta líklega nokkuð seint á ferðinni hjá mér. (GSv: Það er komin til forseta skrifl. brtt. um þetta sama efni). Ég vil þá þakka lm. n. fyrir þessa brtt. og vona, að d. samþ. hana, þótt ég sé að öðru leyti samþykkur hinni upphaflegu brtt. efnislega. Enda er síminn nú betur fær til að standa undir þessum rekstri en áður var, meðan byrjunarörðugleika var við að etja. En síminn var í öndverðu veik stofnun, þótt nú hafi hann sigrazt á hinum fyrstu erfiðleikum,

Það má vera, að eitthvað það felist í öðrum brtt., sem ég get ekki fellt mig við, en ég kem ekki auga á það við fljóta athugun málsins. Ég hef ekki haft mikinn tíma til að sinna þingstörfum, því að undanfarinn hálfan mánuð hef ég setið á nefndarfundum að heita má allan daginn. Sú nefnd er að vísu ekki kosin af Alþingi, en hún hefur haft ærið að starfa.

Að lokum vil ég svo þakka hv. samgmn. fyrir meðferð málsins og legg til, að frv. verði samþykkt.