21.04.1941
Efri deild: 41. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

50. mál, gjaldeyrisverslun o.fl

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég ætla ekki að tefja umr., en ég vildi bara leiðrétta það, sem hv. þm. Vestm. sagði, að ég vildi safna sem mestu af enskum pundum, — slíkt hef ég auðvitað aldrei sagt. Hitt er annað mál, hvenær það verður tímabært að flytja inn hvaða vörur sem vera skal. En þetta síðasta, sem hv. þm. var að tala um, gaf mér aðallega ástæðu til að standa upp. Út af fyrirspurn hv. 1. þm. N.-M. til hv. þm. Vestm. get ég upplýst það, að innkaupasambandið hefur, að því er ég bezt veit, ætíð fengið skiprúm, sem það hefur beðið um fyrir matvöru. En það mun hins vegar vera rétt, að það hefur stundum þurft að fá lánaða matvöru hjá S. Í. S., en ég veit ekki um nánari atvik að því, enda skiptir það ekki miklu máli. Hitt hygg ég að sé ekki rétt, að óþarfa vörur hafi komið að vestan, enda eru miklir örðugleikar með gjaldeyri, þó að við vildum kaupa ýmsar aðrar vörur en matvörur. Ef við hefðum hins vegar haft einhverja hugmynd um það, að siglingastöðvun mundi verða til landsins, áður en farmur þessara fjögurra skipa var ákveðinn, þá mundum við hafa lagt enn ríkari áherzlu á að fá aðeins brýnustu nauðsynjavörur. En þrátt fyrir það, þá fluttu skipin a. m. k. nærri undantekningarlaust vörur, sem ákaflega mikil nauðsyn var að fá til landsins.