16.06.1941
Sameinað þing: 28. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 1272 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Út af fyrirspurn hv. þm. Vestm. skal ég taka það fram, að eftir því, sem mér er kunnugt um, hefur það ekki verið nein föst venja að leggja viðskiptasamninga sérstaklega fyrir utanríkismálan., áður en þeir væru afgreiddir. Ég man ekki til þess, að það hafi verið gert að reglu undanfarin ár. Þess vegna hefur ekki þótt sérstök ástæða til að kalla þessa n. saman, þegar gerðir voru nú síðast viðskiptasamningar við Bretland, sem gerðir voru af viðskiptan. í samráði við ríkisstj. Ef ég man rétt ákvæðin um utanríkismálan. í þingsköpunum, sem sett voru í þau, þegar þessi n. var stofnuð, þá var aðallega verkefni hennar að vera með ríkisstj. í ráðum um það, sem við kemur utanríkismálum almennt. Þau utanríkismál, sem ríkisstj. hefur sérstaklega séð ástæðu til að ráðfæra sig við, utanríkismálan. um, hafa verið fyrir hana lögð. Sum mál hafa jafnvel verið lögð fyrir þingmannafundi, og það meira heldur en fyrir þessa n. Og ég hygg, að ekkert sérstakt utanríkismál hafi komið upp nú nýverið, þann tíma, sem fundir hafa ekki ver ið haldnir í n., sem sérstök ástæða hefur þótt til að kalla n. saman út af. Það mikla mál, sem í sjálfu sér er mikið utanríkismál, afstaða íslenzka ríkisins til Danmerkur, var ekki aðeins rætt innan utanríkismálan., heldur á fundum flokkanna, og á fundum þingmanna þeirra, sem styðja ríkisstj. Það mál var ekki farið með af ríkisstj. einni út af fyrir sig, heldur í samráði við hæstv. Alþ. og í samráði við alþm. yfirleitt.

Ég held því varla, að það sé hægt að segja, að það hafi orðið nokkur stefnubreyting hvað snertir störf utanrmn. nú upp á síðkastið, þó að því sé ekki að neita, að ríkisstj. þótti það mjög miður, að eftir að á fundi utanrmn. var lagt fyrir n. mál, sem snerti utanríkismál Íslands og afstöðu þess til annarra ríkja, þá virtist það mál upp úr þeim fundi verða hljóðbært um allan bæinn. Og eitt blað hér í bænum skýrði nokkuð frá því máli, þar sem það var að vísu rangfært. Og ætla má, að einhver vitneskja hafi borizt út um þetta mál, þegar það var rætt af ríkisstj. við trúnaðarmenn sína í utanrmn. Ég vil ekki segja, að vegna þessa hafi utanríkismn. ekki verið kölluð saman upp á síðkastið, heldur vegna þess hvað mig snertir, að í því ráðuneyti, sem ég hef með að gera, hefur ekkert mál komið fyrir, sem ég hef séð sérstaka ástæðu til að kalla n. saman út af og leggja fyrir hana til sérstakrar athugunar. Það er að vísu alveg matsatriði fyrir hverja ríkisstj., hvaða mál, sem snerta utanríkismál, eigi að bera undir og ræða við utanrmn. Og það getur risið ágreiningur um það innan ríkisstj., hvort ástæða sé til að ræða eitthvert visst mál við þessa n. En mín skoðun er sú, að þau utanríkismál, sem upp hafa komið nú þann tíma, sem fundir hafa ekki verið haldnir í utanrmn., hafi ekki verið þess eðlis, að sérstök ástæða væri til þess að leggja þau fyrir þessa n. Hitt er atriði, sem ég vil ekki um dæma, hvort eðlilegt sé, að viðskiptasamningar, sem gerðir eru af hálfu íslenzkra stjórnarvalda, séu ræddir í utanrmn. Ég hygg, að um það hafi ekki myndazt nein föst venja, sem út af hafi verið brugðið á síðustu tímum.