19.05.1941
Neðri deild: 62. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

20. mál, alþýðutryggingar

Skúli Guðmundsson:

Þetta frv. er borið fram hér til staðfestingar á bráðabirgðal., sem hæstv. ríkisstj. gaf út 27. ág. s. l., og voru bráðabirgðal. um það, að greiða skyldi uppbót á slysabætur, ellilaun og örorkubætur meðan vísitala kauplagsn. er 110 eða hærri. Enn fremur um það, að meðan svo stendur, skuli Lífeyrissjóður Íslands greiða 30% af heildarupphæð ellilauna og örorkubóta samkv. 2. tölul. 80. gr. alþýðutryggingarl., og ríkissjóður endurgreiði lífeyrissjóði þann hluta af upphæðinni, sem umfram er ¾ hluta af tillagi sjóðsins eftir 79. gr. sömu l.

Nú hefur þetta frv. gengið í gegnum báðar d. þingsins. Það var fyrst lagt fram hér í hv. d. og hefur nú einnig gengið í gegnum hv. Ed., og það hafa verið gerðar á því töluverðar breyt., þ. e. a. s. sett inn í það ný ákvæði um ýmsa hluti, sem ekkert var ákveðið um í bráðabirgðal.

Eins og frv. liggur nú fyrir, er þar ákveðið, að framlag ríkissjóðs og sveitarsjóða til sjúkrasamlaga skuli hækka í samræmi við vísitölu, og sömuleiðis er það nýtt ákvæði, sem ekki var í bráðabirgðal., að nú skuli innheimta iðgjöld til Lífeyrissjóðs Íslands með viðauka í samræmi við vísitölu kauplagsn. Gildir þetta um þau iðgjöld, sem ákveðin eru í 1. tölul. 49. gr. l., en það er sá hluti iðgjaldanna, sem er persónugjald, sem hefur verið 7 kr. í kaupstöðum, 6 kr. í kauptúnum með yfir 300 íbúa og ég held 5 kr. annars staðar á landinu. Samkv. þessu mundu iðgjöldin hækka um um það bil þriðjung.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til að hækka þessi iðgjöld eins og hér er gert ráð fyrir, m. a. með tilliti til þess, að lífeyrissjóður mun fá allmiklu meira en áður í iðgjöldum samkv. 2. tölul. 49. gr. l., en samkv. því ákvæði á að greiða til sjóðsins 1% af skattskyldum árstekjum samkv. l. um tekju- og eignarskatt. Og það er vitað, að þau gjöld til sjóðsins hljóta að verða hærri nú en þau hafa verið undanfarið, vegna þess að tekjur manna eru hærri nú að krónutölu en áður, og munar það miklu. Ég hefði því haft ástæðu til að ætla, að það mætti fella niður úr frv. d-lið, sem ákveður að innheimta persónugjöld til lífeyrissjóðs með viðauka sem nemur vísitölunni.

En það er fleira í sambandi við þær breyt. á alþýðutryggingarl., sem mér finnst ástæða til að minnast á. Hingað hafa verið sendar til Alþ. ályktanir þing- og héraðsmálafundar í Vestur-Ísafjarðarsýslu, og þessi fundur, sem var haldinn í byrjun febrúar í vetur, hefur m. a. gert ályktanir um þessi mál. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp þá ályktun, sem þar hefur verið samþ. um þetta efni. Hún hljóðar svo:

„Fundurinn skorar á Alþingi að færa framkvæmd 80. gr. 2. töluliðs í VI. kafla laga um alþýðutryggingar í það horf, að öllum gamalmennum og öryrkjum, hvar sem eru á landinu og til greina eiga að koma við úthlutun ellilauna til annars flokks, skuli veitt ellilaun úr lífeyrissjóði í hlutfalli við iðgjöld á hverjum stað, en ekki miðuð við framlög sveitarsjóðs til 2. flokks, eins og nú er.

Að öðrum kosti krefst fundurinn þess, að hreppsfélögin fái í sínar hendur stjórn þessara mála, undir eftirliti sýslunefnda, og myndi með iðgjöldunum þá tryggingarsjóði, er standa eiga undir ellilaunum og örorkubótum innan hreppsfélaganna sjálfra.“

Þessi ályktun hefur verið samþ. í einu hljóði á þessum þing- og héraðsmálafundi í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Og ég vil, í sambandi við þetta

mál, beina þeirri fyrirspurn til hv. allshn., sem hafði þetta mál til meðferðar hér í hv. d., hvort hún hafi ekki tekið þessar ályktanir til athugunar.

Tryggingarstofnun ríkisins hefur gefið út árbók fyrir árin 1936 til 1939, sem alþm. hafa fengið. Í þessari árbók eru skýrslur og ýmsar upplýsingar um starfsemi tryggingarstofnunarinnar. Þar er m. a. skýrsla um úthlutun ellilauna og örorkubóta samkv. 80. gr. l., 2. tölul., þ. e. a. s. úthlutun á 3/4 hlutum af framlagi lífeyrissjóðsins, sem úthlutað er í samræmi við þann tölul. 80. gr. l. Ég hef gert athugun á því, hvað hvert einstakt sýslufélag og bæjarfélag fær úr lífeyrissjóðnum í hlutfalli við gamalmennafjölda í héruðum og kaupstöðum. En í þessari skýrslu eru upplýsingar um það, hve margt fólk, 67 ára og eldra, sé í hverjum kaupstað og hreppi á landinu. Við þessa athugun hef ég komizt að því, að á árinu 1939 fékk t. d. Reykjavík úr lífeyrissjóðnum í ellilaun og örorkubætur samkv. þessum 2. tölul. 80. gr. kr. 60,65 til jafnaðar fyrir hvert gamalmenni 67 ára og eldra í bænum. En Ísafjörður fékk á sama ári sem svaraði kr. 91,76 fyrir hvert gamalmenni frá tryggingarstofnuninni á þennan hátt. Það er það hæsta, þegar miðað er við gamalmennatölu, sem sá kaupstaður hefur fengið þannig greitt árið 1939. Svo hef ég aftur athugað nokkur sveitarfélög og nokkrar sýslur, og þá sé ég það, að t. d. Borgarfjarðarsýsla, ef Akranes er ekki talið með, fær aðeins kr. 9,91 til jafnaðar fyrir hvert gamalmenni 67 ára og þar yfir, sem á heima í sýslunni. Það er nokkru meira á Akranesi, eða kr. 36,35. Og Mýrasýsla fær á þessu sama ári aðeins kr. 8,89 á hvert gamalmenni úr lífeyrissjóði samkv. þessu ákvæði í 2. tölul. 80. gr. l., sem ég hef nefnt. Mýrasýsla er lægst. Rangárvallasýslu fær aðeins meira, eða kr. 11,11 á hvert gamalmenni, Strandasýsla kr. 12,57, og er þetta lítið, þegar það er borið saman við kaupstaðina. Siglufjörður og Vestmannaeyjar fá rúml. 40 kr., Reykjavík rúmar 60 kr. og Ísafjörður rúmar 90 kr., eða um 10 sinnum hærri upphæð á hvert gamalmenni heldur en Mýrasýsla, sem er lægst. Svo eru nokkrar sýslur, þar sem þetta er mitt á milli. Múlasýslur fá yfir 30 kr. hvor á hvert gamalmenni. Einn hreppur í Suður-Múlasýslu, Eskifjarðarhreppur, hefur fengið kr. 83,76 á árinu 1939 til jafnaðar á hvert gamalmenni, sem þar á heima. Það hefur verið talið, að sá hreppur væri ekki vel stæður fjárhagslega, og ríkið hefur lagt fram álitlegar upphæðir honum til styrktar. Þessi háa krónutala, sem hann hefur fengið frá tryggingarstofnuninni, er því ekki vegna þess, að sá hreppur standi betur að vígi til þess að leggja fram fé á móti stofnuninni heldur en aðrir hreppar, heldur fyrir það, að hann hefur fengið mikil aukaframlög frá ríkinu. Má því segja, að ríkið hafi borgað framlög fyrir þennan hrepp til þessað hann gæti fengið úr lífeyrissjóði hlutfallslega meira heldur en aðrir hreppar á landinu fá, miðað við tölu gamalmenna yfirleitt. Og 26 hreppar á landinu, þar sem samtals eiga heima 294 gamalmenni, 67 ára og eldri, fá ekkert úr lífeyrissjóði samkv. þessu lagaákvæði. Þetta ósamræmi stafar náttúrlega af því, að l. ákveða, að framlag lífeyrissjóðs skuli miðast við framlög í hverju sveitarfélagi, og þau eru svona mismunandi há. Sum sveitarfélögin leggja ekkert fram til ellilauna og örorkubóta, og önnur leggja lítið fram, og af því stafar þessi mikli mismunur. Mér finnst því ekki undarlegt, þegar þetta er athugað, þó að Vestur-Ísfirðingar og jafnvel fleiri sendi Alþ. áskoranir um að taka þessi lagafyrirmæli til endurskoðunar og gera breyt. á þeim. Þeir Ísfirðingar fara fram á, og það kemur fram í samþykktinni, sem ég las áðan, að í staðinn fyrir að miða framlag lífeyrissjóðs við það, sem úthlutað er í hverri sveit og bæjarfélagi, skuli framlög lifeyrissjóðs vera í hlutfalli við iðgjöld, sem til falla á hverjum stað. Skýrslan frá tryggingarstofnuninni ber ekki með sér, hverju iðgjöldin nema í hverju bæjar- og sveitarfélagi, en ég hef fengið upp gefið á skrifstofu tryggingarstofnunarinnar, hve mikið hafi fallið til af iðgjöldum í hverju bæjar-, og sveitarfélagi á árinu 1939. Og svo hef ég gert bráðabirgðaathugun á því, hvernig framlögin frá lífeyrissjóðnum skiptust í hlutfalli við iðgjöld, sem til falla á hverjum stað. Kemur það þá í ljós, að þar verður auðvitað verulegt ósamræmi líka, en þó er munurinn þar miklu minni heldur en ef miðað er við tölu gamalmenna á hverjum stað.

Með því að athuga. Reykjavík t. d., þá sjáum við, að iðgjöld, sem. hafa fallið til þar 1939, hafa numið um 380 þús. kr. En þessir ¾ hlutar af framlagi lífeyrissjóðs, sem Reykjavík fær í sinn hlut, nema 140 þús. kr. Reykjavík fær, sem sagt. 37% af sínum framlögum endurgreitt sem framlag til ellilauna og örorkubóta samkv. þessum 2. tölul. 80. gr. Ísafjörður fær aftur á móti 60% af sínum framlögum endurgreitt á þennan hátt. En svo eru einstök héruð, eins og Strandasýsla, sem fær ekki nema 25%, Siglufjörður 27% og Vestmannaeyjar 28%, svo að tekin séu nokkur dæmi.

Nú má náttúrlega um það deila, við hvað rétt sé að miða þessi tillög frá lífeyrissjóði til ellilauna og örorkubóta. En ég kemst ekki hjá því að álykta, að það sé óeðlilegt að búa við það fyrirkomulag, að sum sveitarfélög fái ekki nema tæpar 10 kr. greiddar á hvert gamalmenni á sama tíma, sem önnur bæjar- eða sveitarfélög fá sem svarar 90 kr. á hvert gamalmenni. Og það sjáum við, að þetta kemur ekki vel niður, því að það er ekki hægt að gera ráð fyrir því, að aldrað fólk, sem á heima í þeim sveitahreppum, sem annaðhvort hafa ekki möguleika til að leggja fram til þessara ellilauna eða vilja ekki gera það, sé yfirleitt betur á vegi statt og hafi minni þörf fyrir ellilaun heldur en það fólk, sem annars staðar á heima, þar sem meira er lagt til þessara mála.

Auk þess, sem ég ætla að leggja fram brtt. um hækkun á iðgjöldum til lífeyrissjóðanna, þá vildi ég beina fyrirspurn til hv. allshn. um það, hvort hún hefði tekið þetta efni til athugunar við meðferð málsins, og þá, ef hún hefði ekki gert það, hvort hún vildi taka málið til athugunar á ný. Sjái n. sér þetta ekki fært, áskil ég mér rétt til að flytja brtt. við frv. nú.