25.02.1941
Efri deild: 7. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

19. mál, óskilgetin börn

Félmrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Samkv. l. nr. 39 28. jan. 1935, um breyt. á l. nr. 46 27. júní 1921, um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, skal ráðuneytið ákveða upphæð meðalmeðgjafar með óskilgetnum börnum, að fengnum tillögum sýslunefnda og bæjarstjórna, fyrir 3 ára tímabil í einu. Á síðastl. ári stóð svo á, að eitt slíkt þriggja ára tímabil var á enda, og átti því að byrja á nýju. Tillögur sýslunefndanna, sumra a. m. k., komu ekki til félagsmálaráðuneytisins fyrr en komið var langt fram á sumar, sem m. a. stafaði af því, hve seint sýslufundir voru haldnir í sumum sýslunum. Þegar nú svo var komið, að mjög var orðið liðið á árið, þegar hægt var að fara að ákveða meðalmeðlagsupphæð með hinum óskilgetnu börnum, ritaði ráðuneytið framfærslunefnd ríkisins um. málið og óskaði tillagna hennar, með því líka að allur framfærslukostnaður landsmanna fór ört vaxandi, sökum hinnar miklu dýrtíðar, en að sjálfsögðu þurftu og þurfa meðlög með óskilgetnum börnum að vera sem næst hæfilegum framfærslukostnaði á hverjum tíma, og fyrir því er frv. þetta fram komið.

Í frv. eru tvær höfuðbreyt. frá gildandi lögum. Fyrst sú, að í stað þess að ákveða meðal meðgjöf óskilgetinna barna til 3 ára í senn, skuli hún nú ákveðin til eins árs í einu, jafnframt því, sem meðlagsárið skal nú vera frá 1. ágúst ár hvert til 31. júlí næsta ár á eftir.

Þá er í 2. gr. frv. lagt til, að þegar ekki þyki lengur þörf fyrir lagaákvæði þessi, megi fella lögin úr gildi með tilskipun, því að ekki þykir ástæða til að halda áfram því fyrirkomulagi, sem frv. gerir á gildandi lögum í þessu efni, ef ástandið breytist svo, að það verði sem næst því að vera normalt.

Að síðustu vil ég svo taka það fram, að það mun ekki þykja heppilegt að miða hina umræddu meðlagsupphæð við verðvísitölu, sem breytist oft á ári, heldur verður hér að reyna að finna út þá leið, sem ætla mætti, að komizt yrði sem næst meðalverðlagi á árinu.

umr. lokinni óska ég frv. vísað til 2. umr. og allshn.