27.05.1941
Efri deild: 69. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

135. mál, friðun æðarfugls

Ingvar Pálmason:

Ég hef skrifað undir þetta nál. fyrirvaralaust. Og það er af því, að ég tel, að þær breyt., sem í frv. eru, séu frekar meinlitlar, en þó, að ég hygg, gagnslausar. Eins og hv. frsm. tók fram, er aðalbreyt. hækkun sektarákvæðanna. Ég held, að það sé hreinn misskilningur að reyna að bjarga við lagaákvæðum á þann hátt, sem að einhverju leyti eru þannig vaxin, að borgarar landsins hafa tilhneigingu til þess að brjóta þau. Það hefur verið í l. um friðun æðarfugls, að hálfar sektirnar fyrir brot gegn þeim rynnu í sveitarsjóð, en hálfar til uppljóstursmanns. Og þetta hefur borið ákaflega lítinn árangur. Ég hygg, að það sé svo um slík l., sem töluverð tilhneiging er hjá mönnum til að hlýða ekki, þá sé nágrönnum þess manns, sem vitað er, að er brotlegur við þau l., ekkert metnaðarmál að leggja lið til þess að halda þeim. l. uppi og taka fé fyrir. Þetta hef ég að athuga við breyt., þó að ég hins vegar sjái ekki neina ástæðu til að gera brtt. við þetta atriði frv.

En annað atriði í frv., sem ég tel mjög varhugavert, er í 2. gr. Það er um það, að greiða megi þeim mönnum, er varphirða, borgun fyrir starf sitt í eggjum, ef þeir óska. Þetta tel ég varhugavert, sem er líklega af því, að ég hef aðra skoðun um þá rýrnun, sem komið hefur fram í æðarvarpi nú frá því, sem áður var. Ég álít stærstu orsök til þessarar hnignunar æðarvarps vera vanhirðu. Og eitt af því, sem undir það heyrir, er það að fara óvarlega með eggin. Það eru því miður fleiri orsakir en svartbakurinn til þess, að ekki koma ungar úr öllum eggjum. Það er með æðarvarp eins og annað, að það, sem tekið er af náttúrunni án þess að láta nokkuð í staðinn, er alltaf rányrkja. En það hefur verið svo og það hafa ýmsir fleiri en ég þá reynslu, að þar, sem æðarvarp hefur verið vel hirt, þar hefur það alltaf dafnað vel. Og þetta er ekkert undarlegt. Það byggist á því náttúrulögmáli, að öll rányrkja hefnir sín. Og ég hygg, að ef á að rétta við þennan atvinnuveg, sem líklegur er til að gefa mönnum miklar tekjur, þá sé ekki til annað ráð en að þeir, sem hafa aðstöðu til að hafa tekjur af þessum hlunnindum, þeir finni, að því aðeins geta þeir haft tekjur af þeim, að þeir hlúi eitthvað að náttúrunni í staðinn. Ég held, að það hafi opnazt augu manna fyrir þessu á ýmsum sviðum, svo sem með laxinn og silunginn. Þetta eru hlunnindi, sem hafa verið mikils virði og gengið úr sér. Menn hafa fundið, að úr þessu þyrfti að bæta. Ég hygg, að ef hér á að ráða bót á, þurfi framkvæmdirnar fyrst og fremst að koma frá þeim, sem nytjanna eiga að njóta. Lagaboð eru góð, en þau eiga að vera á þá lund, að þau séu aðeins til að styðja þá, sem rækta vilja þessi hlunnindi.

Það er hér á dagskránni næst á eftir mál, sem snertir þetta mál töluvert (frv. um eyðingu svartbaks). Ég ætla ekki að ræða það hér, en vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að hann í sambandi við umr. um það mál leyfi mér að fara nokkuð inn á tilgang þess frv., sem við höfum nú hér til meðferðar. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég fari að ræða sérstakar gr., heldur aðaltilgang frv.

Ég get látið þetta nægja, en vil geta þess, að ég tel ákvæði 2. gr. frv. eins og þau eru nú mjög varhugaverð að því leyti, sem hún heimilar að greiða mönnum fyrir að hirða varplönd með eggjum. Og ég geri ráð fyrir, að við 3. umr. komi ég með brtt. við þessa gr. Hefur mér helzt dottið í hug að hafa hana á þá leið, að aldrei megi taka egg úr hreiðri þannig, að ekki séu alltaf eftir 3 egg í hreiðri. Þegar ég var unglingur, var ég við varpland. Það var á harðindaárunum 1880–1890. Mér er það minnisstætt, að varpið gaf af sér sæmilegar tekjur. Það var hart í ári á þessum tíma. Gengið var í varpið annan hvern dag og eggin hirt til matar, en sú regla var höfð að skilja ætíð eftir 3 egg í hreiðri. Þegar byrjað var að ganga í varpið og ekki voru komin nema 1–2 egg, þá voru eggin merkt með blákrít, og svo var gert, þar til komin voru 3 egg í hreiður. Eftir það voru öll egg, sem við bættust, tekin. Og mér er nær að halda, að þetta varp hafi ekki rýrnað vonum fremur á þessum árum, þótt svona væri farið að. En það er víst, að það var hirt með mikilli nákvæmni og hlúð að hverju hreiðri. Ef á að leyfa eggjatöku, verða að vera einhverjar reglur um hana. Ég hef heyrt, að í seinni tíð séu menn hættir að merkja eggin og þau séu í stað þess skyggnd. Þetta er að sjálfsögðu hægt, en það leiðir af sjálfu sér, að það að taka hvert egg úr hreiðrinu, hlýtur að vera slæmt. Ég vil benda á, að mér finnst ákvæði frv. um það, að þessu fyrsta skilyrði fyrir viðhaldi og aukningu æðarvarpsins sé gætt, vera losaraleg. Ég tel því þörf á að breyta þessu og setja strangari reglur um eggjatökuna.

Það má segja, að það sé þarft mál að setja l. um friðun æðarvarps, en ég tel það þarfast í þessu efni að opna augu þeirra, sem tekjur hafa af þessum hlunnindum, fyrir því, að þeir þurfi ekki að hugsa til nytjanna af því í framtíðinni nema að rækta þær jafnhliða.