04.06.1941
Efri deild: 71. fundur, 56. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (958)

134. mál, eyðing svartbaks

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Það er þýðingarlítið að vera að ræða lengi um þetta mál, því að efni þess er svo takmarkað, að það verður eins og þegar mest var um það deilt í Nd., að mér virtust þá mest vera haldnar sömu ræðurnar, umr. eftir umr., enda er það eðlilegt af þessum ástæðum, sem ég hef þegar greint. Ég vil þess vegna ekki endurtaka neitt eða sem allra minnst af því, sem ég hef áður sagt, en svara þessu örfáum orðum.

Það er minnzt á, að þetta sé tilraun, og má náttúrlega lengi um það deila, hvort svo er eða ekki, en ég benti á, að þetta er ekki á tilraunastigi, vegna þess að þessi aðferð hefur verið notuð um marga áratugi og gefizt mjög vel, og því búið að gera tilraun löngu áður en ætlazt var til, að hún yrði gerð með þessu frv.

Viðvíkjandi undirbúningnum, sem ég taldi vera góðan, vil ég svara því, að þegar fyrir liggja sannanir um, að þessi fugl hirði 37% af eggjum í varpi og egg úr 56% af öllum hreiðrum, þá tel ég það vera nokkurn undirbúning.

Það er jafnframt fullyrt af þeim, sem hafa undirbúið frv., að ef útrýma á þessu, þá sé önnur aðferð til, sem færðar eru sönnur á í undirbúningi þessa frv., eins og grg. ber með sér, og sú reynsla er reyndar fengin áður, því að gerðar hafa verið tilraunir við Vesturland, og er það sú eina aðferð, sem reynzt hefur nothæf.

Það eru engin rök gegn þessu máli, þó að svartbakurinn kunni að finna upp einhverja mótstöðu gegn þessari eitrun, — hún er sú efna aðferð, sem dugar af þeim, sem þekkjast nú.

Það eru heldur engin rök í þessu máli að segja, að vörpin hafi minnkað, vegna þess að þau séu ekki eins vel hirt, og að æðarfuglinn muni vanta æti, en á það er ég ekki dómbær, en dreg það hins vegar ekki í efa:

Enn fremur er það sagt, að vélbátaumferðin hafi aukizt, en kunnugir fullyrða, að fuglarnir venjist hávaðanum, því að vélarnar hafa jafnan hávaða, og við vélbátana er ekki hægt að losna, en það er svartbakurinn, sem drepur í vörpunum, og það er hann, sem við erum hér að fást við.

Hvað viðvíkur hættunni, sem af þessu stafar, þá vil ég segja það, að það hefur verið eitrað fyrir ref í mörg ár. Það má náttúrlega segja. að af þessu geti stafað nokkur hætta, en ég veit ekki til þess, að það komi mjög að sök, og það má benda á, að það eru miklu minni líkur til þess, að af þessu eitri stafi hætta.

Fáir fuglar munu éta egg, en í skýrslunni er fullyrt af þeim manni, sem hefur undirbúið þetta frv., að örninn éti ekki egg, og er það fróðleikur, sem er alveg nýr fyrir mér.

Enn fremur má benda á það, að þó að af þessu stafi hætta og aðferðin sé talin ómannúðleg, þá má einnig benda á, að það stafar einnig hætta af því að fara með byssu, og það meira að segja stórkostleg hætta, sem við verðum varir við á tilfinnanlegan hátt. En þrátt fyrir það álítur n., að það sé sú eina aðferð, sem nota á til þess að útrýma svartbaknum, þó að hún sé bæði hættuleg og gagnslítil.

Hvað viðvíkur því, að aðferðin sé ómannúðleg, þá fullyrði ég, að með því að nota eitrið, sem drepur fuglinn á mjög stuttum tíma, 2 til 3 mín., og án verulegra kvala, að því er náttúrufræðingar fullyrða, þá sé það miklu mannúðlegri aðferð en að eyða honum með skotum. Eitrunaraðferðin er líka sú aðferð, sem notuð er í dýragörðum, og mundi ekki vera notuð, ef hún væri talin ómannúðleg. Aftur á móti er það vitað mál, eins og ég benti á við síðustu umr. þessa máls, að meiri hl. fuglanna, sem skotnir eru, þeir sleppa særðir. Og efast ég því um, að n., sem talaði svo mikið um þá ómannúðlegu hlið þessa máls, geti þá leyft sér að staðhæfa það, að skotin séu ekki ómannúðlegri aðferð en eitrunin.

Meðan hv. frsm. n. var að tala, leit ég yfir bréf, sem ég fékk frá bóndakonu norður í Húnavatnssýslu, og segir í því frá almennum fréttum. Í lok bréfsins segir hún, að allt gangi sæmilega, tíðin sé góð og sauðburður byrjaður, en „veiðibjallan og refirnir tína upp lömbin, og þeir verða að missa, sem eiga.“

Þetta er ekkert nýtt. Við, sem ferðumst norður um Strandir, þar sem mikið er um svartbak, vitum, að svartbakurinn hirðir mikið af lömbum og fer ekkert mannúðlega að því að draga úr þeim innyflin. Alveg eins er um uppsveitir Árnessýslu, þar gerir svartbakurinn einnig mikið tjón.

Þess vegna er það, að það þarf að gera ráðstafanir í þessu máli, og þær ráðstafanir, sem hér eru gerðar, eru þær einu, sem verður von um, að muni duga, vegna þess að þær eru ekki hættulegri en skotin, en mannúðlegri.