11.11.1941
Neðri deild: 20. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

4. mál, húsaleiga

Sveinbjörn Högnason:

Við 1. umr. vakti ég athygli á nokkrum ágöllum, sem ég taldi vera á þessum bráðabirgðal. og þyrfti að lagfæra hjá n. N. hefur nú skilað áliti, þar sem hún hefur talið ráðlegast að gera ekki verulegar breyt., sjálfsagt til að halda n. saman. Hins vegar segir það ekkert um það, hvort nm. hefðu talið breyt. æskilegar. Tel ég því rétt að leita þess í hv. d., hvort ekki er þar meiri hl. fyrir breyt. Get ég þar nefnt tvennt. Hv. 5. þm. Reykv. hefur minnzt á annað, sem sé að setja yfirdómstig í húsaleigumálum, því að það nær engri átt, að ekki sé hægt að áfrýja jafnvandasömum og viðkvæmum málum, og ég held, að hvergi þekkist jafnilla um hnútana búið og hér er að þessu leyti. Brtt. um þetta mun koma fram við 3. umr. málsins.

Þá er annað atriði, sem ég tel nauðsynlegt að lagfæra. Þegar litið er á þessi brbl., þá sést, að þau ná einungis til íbúðarhúsnæðis, og þrengja þau þar mjög að húseigendum, en öllu öðru húsnæði virðist vera heimilt að segja upp. Sér hver maður, hvað af því gefur leitt, ef það er látið vera svo, þar sem nú er sótt eftir hverri holu, sem hægt er að nota til að selja veitingar útlendum hermönnum, og svo verður kannske nauðsynlegur rekstur að víkja fyrir slíku, ef húsnæðinu er sagt upp með 3 mán. fyrirvara og húseigandi eða vandamenn hans vilja nota það. M. ö. o., það er hægt að segja upp öllu húsnæði nema íbúðum þrátt fyrir brbl., ef húseigandi sjálfur eða vandamenn hans vilja hafa þar einhvern atvinnurekstur. Gæti farið svo, að þetta ylli erfiðleikum á nauðsynlegri vörudreifingu í bænum. Ég þekki þess dæmi, að fara varð aðra hvora leiðina, sleppa húsnæðinu og láta nota það til einhvers, sem er miður nauðsynlegt, eins og veitingastofur fyrir erlenda hermenn, eða að borga í kyrrþey hærri húsaleigu, sem þýðir aukna dýrtíð. Það er því óhjákvæmilegt að setja sams konar ákvæði einnig um þetta húsnæði, að ekki megi segja því upp, nema eigandi sjálfur ætli að nota það annars er sjáanlegt, að til mestu örðugleika kemur um alla dreifingu á nauðsynjum bæjarbúa, bæði hér og annars staðar í þessu mikla kapphlaupi, sem nú er um hvern krók og kima. Ég mun því leyfa mér að bera nú fram skrifl. brtt. við frv. á þessa leið:

„Við 4. gr. Aftan við greinina bætist : Upphaf 2. gr. sömu laga orðist svo : Leigusala er óheimilt að segja upp leigusamningum um húsnæði, nema hann þurfi á því að halda til íbúðar fyrir sjálfan sig eða vandamenn sína:

Með því er skapað öryggi fyrir þá, sem reka atvinnu í bænum, sem er ekkert, ef þessi breyt. fæst ekki samþ.

Ég skal fúslega játa, að með þessum 1. er að mörgu leyti gengið á rétt vissra aðila, sem sé húseigenda í bæjum, og það er að mörgu leyti gengið of langt í að banna þeim að hækka húsaleigu, meðan ekki eru sett tilsvarandi ákvæði um að banna hækkun á öðrum sviðum. Ég sé ekki mikinn mun á því mannréttindalega séð að banna mönnum að hækka leigu á eign sinni eða banna mönnum að hækka kaup sitt, sem fjöldi hv. þm. álítur ógerning, bæði að banna að hækka kaup og verð á afurðum. Og ég tel miklu skynsamlegra að leyfa jafnvel að hækka húsaleiguna upp að vissu marki heldur en að leyfa húseigendum að gera vissan atvinnurekstur ómögulegan með því að taka af honum húsnæði, kannske til þess að nota það í þágu erlendra hermanna, sem dvelja nú hér um stundarsakir. Ég veit til þess, að nú er víða byrjað á því, hvað sem 1. segja, að hækka leigu fyrir húsnæði til atvinnurekstrar, það er borgað í kyrrþey á bak við, svo að menn geti haldizt þar við með nauðsynlegan atvinnurekstur. Ég vænti því, að hv. d. sjái, hver nauðsyn er á því, að þessi till. verði samþ. Ég hef rætt um þetta við hæstv. félmrh., og hefur hann tekið vel í till. og ýmsir fleiri hér í d., og vænti ég því, að það komi í ljós við atkvgr., að hún hafi mætt fullum skilningi.