07.11.1941
Neðri deild: 18. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (205)

22. mál, gagnfræðaskólar

Eiríkur Einarsson:

Ég ætla ekki að taka til umr. þetta frv., sem fyrir liggur. Ég hef ekkert um það að segja. Hins vegar vil ég nota tækifærið til þess að hafa orð á því, að mér þykir afgreiðsla skólamála hér á Alþ. vera orðin alleinkennileg.

Ég minnist þess, að það voru nokkur frv. borin hér fram á síðasta aðalþingi um þessi efni, en þá var þess eindregið óskað, að beðið yrði með afgreiðslu allra slíkra mála, þar sem skipa ætti milliþn. til að rannsaka skólamálin í heild. Ég hef sérstaklega í huga eitt frv. í þessu sambandi, sem borið var fram hér í hv. d. á síðasta þingi. En eftir því, sem ég bezt veit, mun þessi n. vera óskipuð enn þann dag í dag, og virðist mér helzt sem slegið hafi verið einhverju gervitjaldi yfir þessi mál.

Ég vil ekki vera að tefja hér umr. með því að orðlengja þetta meira, en ég verð að segja það, að mér þykir það koma dálitið einkennilega fyrir sjónir, að ýmist skuli vera óskað eftir, að ákvörðunum um þessi mál í heild sé frestað, eða að tekin séu út úr einstök frv., eins og hér er gert, og lagt til, að þau séu keyrð í gegn.

Mér þætti vænt um, ef hv. menntmn, gæti frætt mig um, hvernig á þessu stendur.