19.11.1941
Neðri deild: 25. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

19. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Einar Olgeirsson:

Það er nú búið að ræða þetta mál þó nokkuð, og hafa samt, að því er virðist, undarlega fáir hv. þm. tekið til máls um það. Ég veit ekki, hvort þetta mál á kannske að skoðast sem eitt af þeim fáu málum, sem ekki eru ágreiningsefni hjá stjórnarflokkunum og að samþykkt þess eigi að vera einhvers konar sárabætur fyrir mann, sem illa hefur orðið úti í viðskiptum stjórnarflokkanna. En hvernig sem því er háttað, langar mig til að gera eina tilraun enn til þess að fá hv. þm. til að athuga, hvað þeir eru nú að gera. Nú er málið komið í það horf, að eftir frv., eins og það er nú orðið, er eitt einasta verk, sem bannað er að gera við fornritin, að gefa þau út nákvæmlega eins og þau eru að málblæ, efni og meðferð. Eins og þessi l. eru nú, má allt annað gera við þau, þannig að hver, sem vill, má endursegja Íslendingasögurnar eins og honum þóknast, og er þetta skv. 1. gr., eins og hún er nú, því þar segir, — með leyfi hæstv. forseta:

„Þó að 50 ár eða meira séu liðin frá dauða rithöfundar, má ekki birta rit hans breytt að efni, meðferð eða málblæ, ef breyt. er svo háttað, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði tjón af.“

M. ö. o., það má breyta þessum fornritum öllum saman, rétt eins og mönnum þóknast, svo framarlega að sá, sem þeim hefur breytt, geti sannað það fyrir dómstólunum á eftir, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði ekki tjón af. Það má gefa þau út umskrifuð og endursögð, stytt o. s. frv., bara ef hægt er að sanna fyrir dómstólum, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði ekki tjón af. T. d. með því að breyta þeim, ef málið er fyllilega eins gott eða jafnvel betra heldur en á sumum Íslendingasögum, þá yrði erfitt fyrir dómstólana að dæma þannig, að menning eða tunga þjóðarinnar biði tjón af. Það er ekki viðurkennt meðal stórþjóðanna, að það geti komið til mála að umskrifa rit beztu höfunda heimsins. En það er eftir þessu frv. fyllilega leyfilegt að umskrifa Íslendingasögurnar fyrir börn, því það verður erfitt að sanna það fyrir dómstólunum, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði tjón af því, og með þessu móti kæmust þarna endursagnir af þeim til fjölda barna, sem þær hafa ekki náð til áður. Hv. 2. þm. Árn. var að tala um, hvílík frábær málsnilld Sveinbjörns Egilssonar væri. Ef t. d. Sveinbjörn Egilsson eða einhver slíkur málsnillingur annar hefði tekið sig til og endurskrifað Íslendingasögurnar í þeim stíl og formi, að það hefði verið ljómandi fallegt mál, þá get ég hugsað mér, að erfitt væri að sanna, fyrir dómstólum, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði þar tjón af. Það er aðeins eitt, sem ekki má þá gera við Íslendingasögurnar, að gefa þær út á máli Jónasar Hallgrímssonar og Jóns Sigurðssonar, þ. e. a. s. með nútímastafsetningu. Allt annað má gera við þær, ef hægt er að sanna fyrir dómstólum, að menning eða tunga þjóðarinnar bíði ekki tjón af. Sjá nú hv. þm. ekki, hvílíka ófæru hv. þm. eru komnir út í út af einhverjum duttlungum eða reiðikasti manns, að koma með frv., sem er svo afkáralegt, að því verður að breyta til þess að vera frambærilegt hér á hæstv. Alþ.? Svo hafa þeir orðið að viðurkenna, að stafsetningin sé ekkert aðalatriði. En samt sem áður er hún nú orðin eina atriðið, sem eftir er orðið í frv. Mér finnst, að hv. þm. ættu nú að sjá sóma sinn í því að láta þetta mál ekki fara lengra. Mér finnst, að nú við þessa 3. umr. málsins mætti gjarnan stöðva það. Það er nú búið að lofa því að komast það langt; og það er náttúrlega nokkur virðing, sem því hefur verið sýnd, þó að það hafi reyndar orðið að umskrifa það. Ég vona, að hæstv. Alþ. geri sig ekki að þeim kjána fyrir duttlunga eins manns að samþ. annað eins og þetta. Ég vil því leggja til, að frv. verði fellt.