28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (340)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Haraldur Guðmundsson:

Ég er ekki viss um, að þessi deila hjúa Alþ. verði til þess að upplýsa málið eða til að breyta afstöðu hv. þm. til þess, og allra sízt þegar þess er gætt, að þegar flm. frv. fylgdi því úr hlaði, lét hann þess getið, að ætla mætti, að frv. yrði ekki samþ., og nú er vitað mál, að það verður ekki samþ. þó játa ég fúslega, að í skýrslum um viðræður ríkisstj. um þessi mál kemur fram ýmislegt, sem hv. þm. ættu að festa sér í minni. Ég drep e. t. v. á þetta síðar, en vil nú ræða lítils háttar um ummæli hæstv. viðskmrh.

Hann sagði, að það hefði verið hægt að stemma meira stigu við dýrtíðinni með l. frá s. l. vori en gert hafi verið. Ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um þetta. Með 1. frá því í vor mætti gera enn þá meira, og því vil ég segja, að sá hluti ríkisstj., sem hindraði það, sé ámælisverður.

Hæstv. viðskmrh. sagði enn fremur, að gott væri, ef umr. um þetta nú yrðu til þess, að 1. frá því í vor yrðu framkvæmd með meiri röggsemi en hingað til. Einnig um þetta er ég honum sammála. Ef umr. verða til þessa, þá eru þær sannarlega ekki til einskis.

Enn fremur segir hæstv. viðskmrh., að Alþfl. sé með eða hafi verið með að lögfesta kaupið. Ég ætla ekki að bæta neinu við það, sem hæstv. félmrh. sagði um þetta atriði, en Alþfl. mun ekki hafa tekið aðra afstöðu til málanna en hann gerði.

Annars eru í ræðu hæstv. viðskmrh. þrjú atriði, sem ég ætla að drepa á. Í fyrsta lagi vil ég rifja upp ummæli hans viðvíkjandi lögbindingu kaupsins. Í öðru lagi þegar hann segir, að hækkun farmgjalda hafi lítil áhrif á dýrtíðina í landinu. Hann segir, að farmgjaldahækkunin hafi aðeins leitt til 6/7 stigs hækkunar á vísitölunni. Með því átti hann við þann hluta, sem kemur fram í sjálfri vísitölunni. Ég er steinhissa á, að hæstv. ráðh. skuli fara með svona lokleysur, því allir vita, að farmgjaldahækkunin hefur a. m. k. leitt til 2 stiga hækkunar á vísitölunni. Allar innfluttar vörur, hverju nafni sem þær nefnast, orsaka verðhækkun innanlands. Ég vil benda hæstv. ráðh. á það, að ef hann heldur, að farmgjaldahækkunin nemi ekki meiru en þessu, þá væri það hreinasta gullnáma, því þá væri hægt að hækka farmgjöldin eins og manni sýndist. Ég bendi á þetta vegna þess, að ef menn ætla að fara að stemma stigu við dýrtíðinni, þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, af hverju hún stafar.

Þriðja atriðið í ræðu hæstv. viðskmrh. er, þegar hann segir, að það sé hagsmunamál fyrir verkalýðinn í landinu að stöðva dýrtíðina, og lendir í því sambandi á atvinnurekendurna, sem geti dregið saman seglin og minnkað atvinnureksturinn til að forðast töp. En verkalýðurinn getur ekki dregið saman seglin eða lagt niður vinnu af þessum ástæðum. Það er hann, sem á að færa fórnir, hann er í fremstu víglínu. Fyrir hina er allt búið í haginn til að þeir geti mætt erfiðu árunum án þess að bíða neitt tjón, og ógrynni fjár er lagt í varasjóð í því skyni. Ég skal ekki fullyrða, hve mikið fé það er, en það er án efa nokkrar milljónir.

Hæstv. viðskmrh. telur þrjár höfuðorsakir til dýrtíðarinnar og telur sig hafa fundið viðunandi læknisráð við þeim sjúkdómi (þ. e. dýrtíðinni). Skilyrðin fyrir því að geta bent á ráð við einhverjum sjúkdómi eru að þekkja orsakir hans. Fyrstu orsökina telur hæstv. ráðh. vera utanaðkomandi verðhækkanir á innfluttum og sumum útfluttum vörum, sem notaðar eru til neyzlu innanlands. Í öðru lagi peningaflóðið í landinu, sem stafar af miklum útflutningi og einnig af dvöl erlends setuliðs í landinu. Þarna er ég honum að vísu sammála, enda þótt ég hefði ekki tekið það í þessari röð. Í þriðja lagi telur hann vísitölufyrirkomulagið, og hér skjátlast honum mjög, því hækkun landbúnaðarafurðanna er ein höfuðorsökin.

Ég bæði dáðist að og undraðist hæstv. ráðh., þegar hann hélt meira en klukkustundar ræðu án þess að nefna á nafn hækkun landbúnaðarafurðanna, þegar 37 stig af 72 í vísitölunni eru beinlínis vegna þess. Ég skil því ekki, að hann geti ætlazt til þess að vera tekinn alvarlega, þegar hann nefnir þetta ekki á nafn.

Að mínu áliti eru orsakirnar þessar: Í fyrsta lagi verðhækkanir á útfluttum vörum og aðflutningsgjöldin; í öðru lagi hækkun innlendra vara, og í þriðja lagi peningaflóðið í landinu. En vísitölufyrirkomulagið er ekki orsök sjúkdómsins, heldur afleiðing hans. — Þetta atriði um vísitöluna undirstrika bæði hæstv. viðskmrh. í grg. sinni, og hæstv. forsrh. í grein sinni í Tímanum þ. 24. þ. m. Viðskmrh. segir svo í grg. frv.: .... „verði í eitt skipti af einhverjum ástæðum veruleg verð- og kauphækkun, nægir vísitölufyrirkomulagið eitt til þess að viðhalda áframhaldandi kapphlaupi milli verðlags og kaups, án þess að þær orsakir, sem komu upprunalegri verðhækkun af stað, séu lengur að verki og án þess að yfirleitt þurfi að vera fyrir hendi neinar aðrar verðhækkunarorsakir“. — Á, líkan hátt farast hæstv. forsrh. orð í Tímanum. Hann segir svo: „Þessi ráðstöfun (þ. e. að kaupgjald hækki í samræmi við vísitöluna) er eitt fyrsta og stærsta skrefið í þá átt að koma því ólagi á okkar fjármál, sem þau eru nú í, og a. m. k. vita sumir af ráðh. það, að ég taldi þessa ráðstöfun svo alvarlega og stefna öllu fjármálalífi í landinu út í það öngþveiti, að ég hef aldrei verið í meiri vafa en þá, hvort ég ætti að vera áfram í ríkisstjórn:

Ég vil spyrja hv. þm. að því, hvort þeir líti í raun og veru svo á, að vísitöluhækkunin geti verið orsök dýrtíðarinnar. Ég veit, að flestir sjá, að svo er ekki.

Ég minnist þess, að eitt sinn fyrir löngu síðan, þegar ég var á unga aldri, flutti maður nokkur, sem var mjög lærður í stærðfræði, mér einkennilegan lærdóm. Það, sem hann sannaði mér vísindalega, var það, að skjaldbaka eða t. d. veðhlaupahestur kæmist aldrei á leiðarenda ákveðinnar vegalengdar. Sönnunin var á þann veg, að fyrri helming leiðarinnar færi skjaldbakan t. d. á 1 klst., því næst færi hún helming þess, sem eftir væri í næsta áfanga, og svo holl af kolli, en alltaf hlyti að verða eftir óendanlega lítið brot leiðarinnar með þessu móti.

Mér fannst þetta fráleit kenning, og þrátt fyrir það, að ég gat ekki hrakið sannanir stærðfræðingsins, þóttist ég þess fullviss, að raunverulega gæti þetta ekki verið rétt. (Viðskmrh.: Hv. þm. hefur snemma verið náttúrugreindur!). Ég þótti það, þegar ég var ungur. — Nú vil ég gera hæstv. viðskmrh. tilboð að sanna kenningu hans. Við skulum gera ráð fyrir því, að nægilegt fé væri fyrir hendi til þess að lækka verðlagsvísitöluna um 5–10 stig. Eftir kenningu hæstv. ráðh. færi verðskrúfan smám saman að ganga niður á við og kæmist að lokum niður í 0, að vísu á óendanlegum tíma. Því að ef hæstv. ráðh. trúir því, að vísitölufyrirkomulagið sé þess valdandi, að verðskrúfan gangi sífellt upp á við, hlyti eins að mega, á þennan hátt, lækka hana niður í 0.

Ég vil aftur vísa til grg. hæstv. viðskmrh.: „Með öðrum orðum, verði í eitt skipti af einhverjum ástæðum veruleg verð- og kauphækkun, nægir vísitölufyrirkomulagið eitt til þess að viðhalda áframhaldandi kapphlaupi milli verðlags og kaups án þess að þær orsakir, sem komu upprunalegri verðhækkun af stað, séu lengur að verki og án þess að yfirleitt þurfi að vera fyrir hendi neinar aðrar verðhækkunar orsakir: (Viðskmrh.: Og þessu trúir hv. þm. ekki?). Nei, það gegnir sama máli og um dæmi stærðfræðingsins um skjaldbökuna. Ég veit, að þetta er rangt. Ef staðhæfingar hæstv. ráðh. í grg. frumv. væru réttar, skipti það ekki verulegu máli, hvort verðlagsuppbótin væri 75% eða 100%.

Verkanirnar yrðu þær sömu, og hér væri ekki um eðlismun að ræða. Í því frv., sem hér liggur fyrir, eru að því er þessa hlið snertir tvö atriði: 1. afnám vísitölufyrirkomulagsins og

2. að banna hækkun grunnkaups frá því sem nú er.

Ég hef nú nokkuð rætt vísitölufyrirkomulagið og leitazt við að sanna, að það er ekki orsök dýrtíðarinnar. Um hitt atriðið get ég verið stuttorður.

Síðan um áramót hefur engin hækkun orðið á grunnkaupi verkafólks, og hefur það því ekki valdið vaxandi dýrtíð. Allar spásagnir um það, hvað verða muni í komandi framtíð, eru úr lausu lofti gripnar, en þær orsakir eru a. m. k. ekki enn fyrir hendi, sem réttlæti það að lögfesta kaupið og svipta samningsaðila réttinum til frjálsra samninga.

Það er vitanlegt, að þegar l. um stéttarfélög og vinnudeilur voru samþ. fyrir tveim. árum, þá var það gert í þeim tilgangi að beina þeim ágreiningi, er risi í meðferð þeirra mála, í ákveðinn farveg. Að ætla sér að knýja fram lögbindingu kaups án þess að sanna, að hækkun grunnkaups sumra stétta, eins og t. d. bílstjóra, svo að tekið sé dæmi, sé óréttmæt, nær engri átt.

Ég verð að segja, að ólíkt hafast menn að. Á síðast liðnu ári hefur verðlag á landbúnaðarvörum fyrir tilstilli opinberra nefnda, sem hæstv. landbrh. ber raunverulega ábyrgð á, hækkað svo gífurlega, að valdið hefur þeirri hækkun á vísitölunni, sem ég hef áður lýst. Allan þann tíma hafa verkalýðsfélögin sýnt þann þegnskap, að þau hafa ekki reynt að koma fram hækkun á grunnkaupi, þrátt fyrir mikið vinnuframboð og þær aðstæður, sem við það hafa skapazt. Viðurkenning Alþ. á þeim þegnskap ætti þá að vera slík, að kaupið yrði lögfest, eða réttara sagt, það má ekki hækka, en atvinnurekendur mættu lækka kaupið, ef þeir sæju sér það fært, þótt það sé að vísu ekki sérstaklega fram tekið í frv. hæstv. ráðh. (Viðskmrh.: Það mætti bæta því inn í frv., ef hv. þm. óskaði þess!) — Ég býst við, að sú viðbót hæstv. ráðh. mundi sízt verða til þess að auka frv. fylgi.

Ég tel, að slík framkoma af hálfu löggjafans gagnvart verkalýðsfélögunum sé ekki sæmandi, og ég óttast, að hún væri, því miður, líkleg til þess að framkalla mótráðstafanir af þeirra hálfu, og teldi ég það þó ekki æskilegt. Ég vil enn undirstrika, að verkalýðsfélögin hafa ekki notað sér breyttar aðstæður til þess að koma fram hækkun á grunnkaupi. Hefur sama sjónarmið verið ríkjandi að því er snertir verðlag á landbúnaðarafurðum? Því miður ekki.

Hæstv. viðskmrh. hefur mjög fjölyrt um, að honum hafi um langa hríð verið ljóst, hver ógæfa það væri fyrir þjóðina, ef dýrtíðin væri ekki stöðvuð.

Ég minnist þess, að á þingi 1939, þegar gengislögin voru samþ., var mikið rætt um nauðsyn þess að koma í veg fyrir, að af gengislækkuninni hlytist tilsvarandi aukin dýrtíð. Vil ég í því sambandi minna á ýmis ummæli framsóknarmanna þá, þ. á m. hæstv. viðskmrh., en þó sérstaklega á ummæli hv. þm. V.-Húnv., sem þá var atvmrh., þar sem hann ræðir um þau ákvæði gengisl., að verðlag á kjöti og mjólk skuli fara eftir sömu reglum og kaupgjaldsbreyt. og telur eðlilegt, að þetta tvennt haldist í hendur. Þá segir hann:

„Sérstök ástæða er til þess að benda kaupstaðarbúum á það, að með ákvæðum þessa frv., ef samþ. verður, eru gerðar ráðstafanir til þess, að þeir geti að verulegu leyti sparað sér þau aukin útgjöld, sem verðlækkun krónunnar að öðrum kosti hefði í för með sér, með því að nota hlutfallslega meira en áður af innlendum vörum, því að verðlag á þeim verður eftirleiðis hlutfallslega hagstæðara fyrir neytendur en áður, samanborið við verðlag á erlendum vörum. Kaupstaðabúar geta því sparað sér aukin útgjöld af völdum gengisbreyt. með því að auka neyzlu á íslenzkum vörum, um leið og þeir með því styðja framleiðslustarfsemina og atvinnulífið í landinu. Er ástæða til þess að vekja á þessu sérstaka athygli.“

Enn fremur var þá gerð grein fyrir því af þáv. atvmrh. og hæstv. viðskmrh. með tilliti til styrjaldarhættunnar, að því meira, sem við neyttum af innlendum vörum, því meira mætti spara útlendar vörur, sem fluttar yrðu til landsins með dýrum farmgjöldum.

Ég var þessum sjónarmiðum samþykkur þá og er það enn, og ég harma, að frá þeim skuli vera horfið. Nú eru önnur sjónarmið uppi. Verð á innlendum afurðum er nú miklu hærra en þá var gert ráð fyrir, t. d. á kjöti. Nú má enginn skilja orð mín svo, að ég vilji slá því föstu, að innlendu afurðirnar eigi ekki að hækka meira en sem svarar hækkun vísitölunnar. Ég get ekkert um það fullyrt, því að hér eru engar skýrslur fyrir hendi um framleiðslukostnað á landbúnaðarvörum. Þetta er slík hneisa, að ekki verður borin kinnroðalaust. Hef ég þráfaldlega á þetta bent, t. d. í n. Alþ., en ekkert hefur þó áunnizt í því efni.

Ég óttast, að þeir, sem ráða verðlagi á þessum vörum, muni líta svo á, að opinberar skýrslur um framleiðslukostnaðinn mundu ekki verða til þess að réttlæta svo hátt verð sem nú er, og því fáist slíkar skýrslur ekki birtar. Um þetta get ég þó ekki fullyrt. Hafi tekjur þjóðarheildarinnar aukizt, er sjálfsagt og réttmætt, að tekjur bænda aukist að sama skapi. Hafi einhverjar vörur bænda verið seldar með of lágu verði, á sömuleiðis að bæta úr því. En þetta átti að sanna. Allir vita, að framleiðslukostnaður á kjöti hefur ekki hækkað neitt svipað því sem verðlag á kjöti, og hefur enda verið lítið breyttur þangað til í sumar vegna hækkunar á kaupi kaupafólks. Um hækkunina á mjólkinni gegnir öðru máli; hún hefur verið sanngjarnari, og þar kemur fleira til greina en kaupgjald í sveitum.

Ég hef verið að leita að því í huga mínum, hver muni ástæðan til þess, að hæstv. viðskmrh., sem fyrir löngu hefur gert sér ljóst, hvílíkur voði hin vaxandi dýrtíð er þjóðinni, og jafnframt að vísitölufyrirkomulagið sé undirrót hennar, skuli ekki fyrr en nú hafa komið fram með till. sínar til úrbóta, sem hann er svo sannfærður um, að séu þær einu, er að gagni megi koma. Hvers vegna bar hann þær t. d. ekki fram í sumar, úr því að hann hefur alltaf vitað þetta?

Var hæstv, ráðh. að bíða eftir því, að hinar óábyrgu nefndir kæmu verðlaginu á landbúnaðarafurðunum svo hátt, að lengra mætti varla komast, og því ætti að lögfesta það verð? — Engin minnsta viðleitni hefur verið sýnd til þess að sanna, að þetta verð sé það rétta.

Ég vil nú benda á eitt dæmi þess, hve landbúnaðarafurðirnar hafa hækkað gífurlega. Þegar gengisl. voru samþ. 1939 með verðbindingu þessara afurða og lögfestingu kaupgjalds, var hlutfallið á milli verðlags á kjöti í smásölu og kaupi verkamanna 1:1, þ. e. tímakaup var þá kr. 1.45 og 1 kg af kjöti kostaði kr. 1.45. Síðan er þessi verðbinding felld úr l., en í trausti þess, að þessi hlutföll röskuðust ekki verulega. Nú er tímakaup rúml. kr. 2.40, en verð á kjöti er kr. 3.60, rúmlega, kg. M. ö. o.: nú þarf 1½ klst. vinnu til þess að geta keypt 1 kg af kjöti. Þetta nýja hlutfall vill Framsfl. lögbinda.

Þá skal ég aðeins drepa á eitt atriði ennþá. Ég er hæstv. viðskmrh. sammála um það, að hin óvenjulega tekjuaukning þjóðarinnar hefur verið nokkur orsök dýrtíðarinnar, þar sem ekki hefur verið hægt að mæta kaupmáttaraukningunni með tilsvarandi framboði á vörum. Í grg. frv. kemur Það fram, að ætlunin sé að sjá fyrir því, að kaupgjald hækki ekki, þannig að kaupgeta verkalýðsins aukist ekki frá því, sem nú er.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort hann líti svo á, að sá hluti af tekjuaukningu þjóðarinnar, sem lent hefur í hlut verkalýðsins, skapi hina vaxandi dýrtíð. Ef hlutur verkamanna yrði minni og hlutur stríðsgróðamannanna meiri, heldur hann þá, að verðbólgan mundi minnka?

Hættan stafar ekki af aukinni kaupgetu verkamanna, heldur af hinu lausa fé fjárgróðamannanna, sem nota það til alls konar spekulationa.

Loks er enn eitt atriði frv., það ákvæði, að ríkisstj. skuli heimilt að greiða ákveðna uppbót á útflutningsvörur bænda, þannig að sama verð fáist fyrir ull og gærur og fékkst á s.l. ári, og fyrir dilkakjöt, miðað við verðið á því í sumar. Hvað þetta kostar, veit enginn. Hve mikið af þeim 8 millj. kr., sem ráðh. gerir ráð fyrir í dýrtíðarsjóð, fer til þess að greiða slíkar uppbætur til bænda, verður ekki sagt, því um það liggur ekkert fyrir. En ef gera má ráð fyrir því, að útflutningur haldist óbreyttur, má vænta, að svipað fé þyrfti til eins og Bretauppbótin nam, en hún nam nokkuð á 5. millj. kr. Slík uppbót gæti verið réttmæt og eðlileg, en eins og á stendur nú, get ég ekki fallizt á, að svo sé. Með þessu móti ætti að tryggja einni stétt, bændunum, sömu tekjur og þeir hafa haft s.l. 12 mánuði, án tillits til þess, hverjar heildartekjur þjóðarinnar verða. Ég vil benda hæstv. ráðh. á, að það er augljóst, að þess er ekki að vænta, að tekjur sjávarútvegsins verði eins geysilegar á næsta ári og árið 1940, enda þótt þess sé að vænta, að afkoma hans geti orðið sæmileg.

Það væri barnaskapur að vænta jafnmikilla tekna af þessum iðngreinum og 1940, eða treystir hæstv. ráðh. sér til þess að tryggja verkamannastéttinni sömu tekjur og hún hafði þá? Ég veit, að hæstv. ráðh. er mér sammála um, að slíkt kemur ekki til mála. En ef sanngjarnt er að tryggja bændastéttinni ákveðnar tekjur án tillits til þjóðarteknanna í heild sinni, mundi vera sjálfsagt og réttmætt að láta verkamenn njóta sömu hlunninda. Vill hæstv. viðskmrh. tryggja verkafólki sömu tekjur næsta ár og það hefur þetta ár? Ég býst við, að honum mundi reynast það erfitt, þar sem verkamenn hafa nú mjög hátt kaup.

Ég get því ekki komizt að annarri niðurstöðu en þeirri, að frv. þetta sé aðeins kosningabragð hjá Framsfl., og ég harma það mjög, að svo veigamikið málefni skuli vera borið fram í slíkum tilgangi á þessum alvarlegu tímum.