28.10.1941
Neðri deild: 7. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (342)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Ég ætla að svara örfáum atriðum, sem fram komu í ræðu hv. Þm. Seyðf. En þar sem mér er kunnugt um, að hv. 2. þm. Skagf. mun svara honum að nokkru leyti, get ég látið mér nægja að drepa á fátt eitt.

Hv. þm. Seyðf. lagði á það mikla áherzlu í sinni ræðu, að það væru falsrök í grg. frv. míns, að vísitölufyrirkomulagið gæti hækkað verðlag og kaupgjald, þótt utanaðkomandi hækkanir kæmu ekki framar til greina, — eða réttara sagt, að vísitölufyrirkomulagið hlyti að valda slíkri lækkun áfram, þótt erlendar vörur hættu að hækka. Hv. þm. henti gaman að þessari röksemd og líkti henni við einhverja skjaldbökusögu, sem honum hefði verið sögð í bernsku, en hann þá vegna æsku og þroskaleysis hefði ekki haft rök gegn, en samt skynjað af „náttúrugreind“, að eitthvað hlaut að vera bogið við. Það, sem í grg. frv. stendur, er alls kostar rétt, og það mun ekki leiða til góðs, ef menn þráast við að viðurkenna þá staðreynd. Við skulum gera þetta eins einfalt og unnt er og hugsa okkur, að fyrst eigi sér stað verðhækkun á erlendri vöru, annaðhvort vegna þess að innkaupsverð eða farmgjöld hafi hækkað, eða hvort tveggja, — það skiptir ekki máli, — þá hækkar kaupgjald í landinu tafarlaust. Við það hækkar aftur allur framleiðslukostnaður, og verðlagið hlýtur að hækka á öllum vörum, sem í landinu eru framleiddar. Þá leiðir það á ný til hækkunar á vísitölunni, þótt erlendar vörur hafi ekkert hækkað á nýjan leik. Þannig gengur þetta koll af kolli, þangað til annar hvor aðilinn, launþegar eða framleiðendur, sætta sig við að fá ekki uppbætta síðustu hækkunina. Ég hygg, að þetta liggi ljóst fyrir, og að þannig verður haldið áfram á þessari hækkunarbraut, þrátt fyrir það, þótt upphaflega ástæðan til hækkunar vísitölunnar sé ekki lengur fyrir hendi, — og Það er þetta, sem er aðalatriðið. — Hv. þm. Seyðf. var að tala um það með miklum þjósti, og deildi hart á Framsfl. fyrir, að því er virtist í mikilli alvöru, að flokkurinn skyldi dirfast að lögbinda kaupgjaldið. Færði þm. það fram sem ástæðu fyrir þessari hörðu ádeilu, að hjá Framsfl. hefði það áður komið fram, að hann vildi, að þessum málum yrði skipað með frjálsu samkomulagi. Ég held, að það sé einfaldast að svara þessum ásökunum með því að spyrja hv. þm. Seyðf., hversu oft Alþfl. muni hafa lýst yfir því, að hann teldi ekki einungis æskilegt að hafa frjálsa samninga um kaupgjald, heldur að hann mundi aldrei undir neinum kringumstæðum ljá sitt lið við lögbindingu kaupsins. Þrátt fyrir þetta hefur Alþfl. átt þátt í lögbindingu kaupgjalds. — Ég er ekki að segja þetta til þess að deila á flokkinn, heldur til þess að velja athygli á því, að engin regla er til án undantekningar, og þetta hefur Alþfl. einmitt viðurkennt með því að eiga hlutdeild í því að lögbinda kaupgjald þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um, að þá leið mundi hann aldrei og undir engum kringumstæðum fara. Með þessu vil ég alveg vísa á bug þeim ádeilutón, sem hv. þm. Seyðf. notaði, er hann vítti framsfl. fyrir það að vilja nú lögbinda kaupgjald.

Hv. þm. Seyðf. gerði sér far um að draga líkur að því, að í raun og veru væri aðeins ein ástæða fyrir því, hve dýrtíðin hefði vaxið mikið í landinu, og hún væri sú, að lengra hefði verið gengið í því en réttmætt var að hækka verðlag á landbúnaðarafurðum, — eða þetta taldi hann a. m. k. meginástæðu hækkunarinnar. Það er undarlegt að heyra því haldið fram hér á Alþ. dag eftir dag, bæði á þessu þingi og hinu síðasta, að sjálfsagt sé, að Alþ. ákveði tekjur bændastéttarinnar með löggjöf og verðlagsákvæðum, en þeir hinir sömu menn ætla að springa af vandlætingu, ef minnzt er á það að hafa sömu aðferð um kaupgjaldið. Hv. þm. Seyðf. eyddi miklum tíma í að færa rök að því, að meginorsök dýrtíðarinnar væri fólgin í því, að verð á landbúnaðarafurðum hefði verið ákveðið of hátt. En þó gætti ósamræmis í því hjá honum, að hann bað menn ekki skilja orð sín svo, að hann hefði nokkuð við það að athuga, að landbúnaðarafurðir hefðu hækkað meira en vísitalan. Ég veit ekki, hvernig á að koma þessu saman. En vegna þess að aðalniðurstaða þm. var samt sú, að allir erfiðleikarnir stöfuðu af of háu verði landbúnaðarvara, vil ég spyrja hv. þm.: Hvert liggur straumur fólksins nú? Er það frá sjávarsíðunni til sveitanna eða gagnstætt? Hvert mannsbarn í þessu landi veit, að straumur fólksins er nú svo gífurlegur til kaupstaða og þorpa, að til stórvandræða horfir um landbúnaðarframleiðsluna. Bendir þetta til þess, að verðlag á landbúnaðarafurðum hafi verið sett óhæfilega hátt? Bendir það til þess, að það borgi sig betur að vinna í sveit en við sjó? Er það álit hv. þm. Seyðf., að betra hefði verið fyrir þjóðfélagið, að bændum hefði með lægra verðlagi verið skorinn þrengri stakkur en gert var, og að straumurinn úr sveitunum hefði þar af leiðandi verið enn örari? Ég skil ekki skraf hv. þm. Seyðf., ef það er skoðað í ljósi þessara staðreynda. Ég vil leggja áherzlu á það, að straumurinn liggur úr sveitunum til sjávarsíðunnar, og það er gleggra vitni um þetta efni en nokkuð annað, sem fram verður fært.

Hv. þm. Seyðf. sagði, að það væri undarlegt að flytja hér till. um verðuppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir alveg án tillits til þess, hverjar þjóðartekjurnar yrðu. Hv. þm. er það væntanlega ljóst, að þetta frv. gerir ráð fyrir, að veittar séu uppbætur á framleiðslu ársins 1941, en um þjóðartekjurnar á því ári er nú að mestu vitað. Þær eru miklar, og réttmætt, að hluta af þeim sé varið til verðuppbótar á þessar vörutegundir á sama tíma sem verðlag á landbúnaðarafurðum er fest á innlendum markaði. En af því að hv. þm. Seyðf. drap á þetta atriði, þá er rétt að minna hann á, að þegar hann gerir kröfur fyrir hönd annarra stétta en bænda, þá er ekki spurt um þjóðartekjur né þjóðarhag. Síðan spurði hv. þm., hvort ég vildi tryggja verkamannastéttinni hliðstæð fríðindi og bændunum. Veit hv. þm. Seyðf ekki, að með þessu tryggingarákvæði er verið að koma í veg fyrir, að tekjur landbúnaðarins lækki frá því, sem nú er, með óbreyttu innanlandsverðlagi. Þær geta helzt lækkað með tvennu móti: Að framleiðslukostnaður hækki eða verðlag á útfluttum afurðum lækki og gegn því á þetta frv. að sporna. Hv. þm. spyr, hvort ég vilji tryggja verkalýðnum svipuð kjör til handa, sem þýddi að tryggja það, að hann hafi vinnu þann tíma, sem 1. eiga að gilda. Ég get tekið það fram, að ég vil bjóðast til þess að setja ákvæði í frv. um það, að ríkisvaldið skuldbindi sig til þess meðan lögin gilda að sjá um, að verkafólkið hafi atvinnu. Ég tel það ekkert ósanngjarnt út af fyrir sig að samþ. slíkt, eins og þjóðartekjunum er nú háttað.

Hv. þm. Seyðf. spurði líka, hvort ég héldi, að verðbólgan mundi hafa orðið minni, ef verkamannalaunin hefðu verið lægri, en stríðsgróðinn þeim mun meiri. Þessi spurning er þannig fram sett, að naumast er hægt að svara henni beinlínis. Ég held, að hv. þm. Seyðf. geti verið viss um, að hlutur verkamanna hefði ekki verið verri, þótt. launin hefðu verið lægri að krónutali, ef dýrtíðin hefði verið að sama skapi minni. Hér er ekki verið að leggja til að hlífa stríðsgróðamönnunum, heldur koma í veg fyrir, að halda þurfi áfram að hækka bæði verðlag og kaupgjald í landinu hvort í kapp við annað. Nú vill svo vel til, að hv. þm. Seyðf. telur sig hlynntan því að koma í veg fyrir hækkun grunnlauna og hækkun verðlagsins. Við viljum báðir hið sama. Munurinn er hins vegar sá, að því, sem hann vill ná með „frjálsum samningum“, sem því miður aldrei verða gerðir, þykir okkur framsóknarmönnum tryggara að ná með löggjöf. Ég get því lagt þessa spurningu fyrir hann sjálfan. Við keppum báðir að sama marki. Ef mín stefna er háskaleg fyrir verkalýðinn, þá er hans stefna það einnig. Hvorugur okkar vill hlífa stríðsgróðamönnunum. Vísa ég í því sambandi til frv. míns um skattamálin, sem til meðferðar verður tekið á þessu þingi.

Út af því, sem hæstv. atvmrh. sagði í dag, vil ég aðeins drepa á eitt atriði. Ráðh. er ekki hér í d., og mun ég því verða stuttorður. Það er broslegt að heyra því haldið fram, að það hafi

ekki alveg eins verið hægt í sumar að framkvæma gömlu dýrtíðarl. og nú. En hæstv. ráðh. sagði, að þá hefði verið eftir að afla fjárins, og hann sagði, að sjávarútvegurinn mundi ekki hafa getað sætt sig við það, að þess hefði verið aflað með útflutningsgjaldi, til þess að koma í veg fyrir verðhækkun innlendra afurða á markaði hér. Ef þetta er svo, þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvað hann og flokkur hans meinti með því að samþykkja þetta útflutningsgjald, ef þeim fannst aldrei koma til mála að framkvæma innheimtu á því. Hvers konar skrípaleikur var þá að afgreiða þessi l. frá síðasta Alþingi, og hvernig á að nota þau l. nú? (FJ: Þá var ekki brezki fisksölusamningurinn). Atvmrh. hefur ekki talið þann samning þannig, að hans vegna þyrfti að hverfa frá því að innheimta útflutningsgjaldið. (FJ: Reynslan hefur sýnt það.) Nei, ég tel ekki, að svo hafi verið. Það hefði mátt leggja á eitthvert útflutningsgjald, þótt það hefði þurft að vera lægra en 10%. Þótt ráðherrann hefði haft þá skoðun, að ekki væri hægt að leggja á útflutningsgjald, þá var heimild til þess að verja úr ríkissjóði 5 milljónum króna til dýrtíðarráðstafana, og ef þeim hefði verið varið til þess ásamt þeirri einu milljón, sem gert var ráð fyrir að afla með tekjuskatti, þá hefði mátt koma í veg fyrir meginhluta þeirrar hækkunar á vísitölunni, sem orðið hefur í sumar og haust. Reynslan hefur sýnt, að þetta hefði verið unnt að gera, jafnvel þótt útflutningsgjaldið hefði ekki verið notað.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að það væri undarlegt, að Framsfl. hefði ekki heldur viljað fella þjóðstjórnina á skattamálunum en dýrtíðarmálunum. Ég vil taka það fram út af þessu, að Framsfl. hefur aldrei haft í huga að slíta stjórnarsamvinnunni eða að fella þjóðstjórnina, heldur þvert á móti. Eins og hér hefur verið rakið, hefur Framsfl. í sambandi við þetta mál reynt að afla því þess fylgis, sem auðið væri hjá hinum þjóðstjórnarflokkunum, til þess að ekki kæmi til samvinnuslita í ríkisstj. Ástæðan til þess, að Framsfl. tók upp dýrtíðarmálið nú á Alþ., var sú, að ekkert fékkst gert í ríkisstj., vegna þess, að sumir hæstv. ráðh. stóðu á móti öllum framkvæmdum. Meðan ekkert var gert, hélt kapphlaupið milli kaupgjalds og afurðaverðs áfram. Það þoldi enga bið að taka ákvörðun um það, hvort taka ætti föstum tökum á dýrtíðarmálunum; það eru síðustu forvöð að snúa við, ef menn eiga að geta vænzt árangurs af gagngerðum dýrtíðarráðstöfunum; vegna þess tók Framsfl. dýrtíðarmálin til gagngerðrar meðferðar nú þegar á þessu aukaþingi. Skattamálið var hins vegar þannig vaxið, að ekki var ástæða til að boða til aukaþings út af því sérstaklega. Það mál var hægt að afgr. með góðum árangri síðar í vetur. Hins vegar mun Framsfl. mjög bráðlega láta koma fram þær till., sem hann hefur að gera í skattamálunum, þar sem aukaþing er nú saman komið. En hinar beinu dýrtíðarráðstafanir kölluðu mest að; þess vegna var þetta frv. látið ganga á undan. Framsóknarflokkurinn hefur ekki farið með þessi mál sem pólitísk mál, heldur tekið þau í þeirri röð, sem eðlileg var og nauðsyn krafði.