03.11.1941
Neðri deild: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 93 í C-deild Alþingistíðinda. (355)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Frsm. 3. minni hl. (Stefán Stefánsson) :

Herra forseti! Á fundum fjhn. þessarar d. náðist eigi samkomulag um afgreiðslu þess frv., er hér liggur fyrir til 2. umræðu.

Hv. l. þm. Rang. og hv. þm. V.-Húnv. vildu samþykkja frv. óbreytt, en hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Seyðf. vildu fella það.

Enda þótt ég teldi frv. allathugavert og að dýrtíðarmálið þyrfti að leysa á víðara grundvelli, vildi ég eigi snúast með öllu gegn frv., heldur freista þess að fá á því gerðar nokkrar breyt., svo að við það væri unandi, enda er fylgi mitt við frv. bundið því skilyrði, að þær verði samþykktar.

Mun ég síðar ræða brtt. nánar.

Allt frá því ófriðurinn hófst og fram til þessa dags hefur mikið verið um það rætt, bæði utan þings og innan, að ráða þyrfti niðurlögum dýrtíðarinnar. En þegar eftir ófriðarbyrjun tók hún að segja til sín og hefur síðan farið ört vaxandi.

En orðin ein um þessi efni orka litlu, ef eigi fylgja athafnir.

Á síðasta reglulegu Alþ. voru þessi mál allmikið rædd, en þó meira af stjórnarflokkunum bak við tjöldin.

Ávöxtur allra þeirra umræðna voru 1. um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna. En þrátt fyrir alla þá vinnu, sem lögð var í að undirbúa þau 1. og ná um þau samkomulagi, og þá fyrst og fremst af ríkisstj., eru þau nú talin ónothæf og til einskis nýt. Ráðh. hafa í umræðum um þetta mál talið þau ýmist óframkvæmanleg eða ófullnægjandi. Það eitt vitum við, að 1. hafa eigi verið látin koma til framkvæmda nema að litlu leyti, — hvaða orsakir sem til þess liggja.

Ég tel, að ef um fullan samstarfsvilja hefði verið að ræða hjá ríkisstj. og þor til framkvæmda, þá hefði mitt verða mikið gagn að nefndum lögum.

Hvers vegna hafa t. d. eigi tollar verið lækkaðir eða niður felldir af nauðsynjavörum? Hvers vegna eigi hækkaðir tollar á tóbaki, vínum og innlendum tollvörutegundum?

Hvers vegna eigi lagt eitthvert lítið gjald á útfluttar afurðir?

Allt þetta er ríkisstj. heimilað í lögunum. Hverjar séu hinar helztu orsakir dýrtíðarinnar, skal eigi rakið hér. Mörgum hættir við að líta um of einhliða á það mál. Einn kennir um aukinni kaupgetu, annar kauphækkun, þriðji háu verði á afurðum landbúnaðarins, fjórði hinu mikla seðlaflóði, sem nú er í umferð, o. s. frv.

Allar þessar orsakir, og margar fleiri, hjálpast að því að skapa dýrtíðina.

Allir erum við sammála um, að stöðva þurfi dýrtíðina, að sívaxandi dýrtíð sé stórhættuleg fyrir allt fjárhags- og atvinnulíf þjóðarinnar í framtíðinni. Sú er reynsla okkar frá síðustu styrjöld. Sú er einnig reynsla annarra þjóða.

Vegna þeirrar reynslu gera þær sér allt far um að halda dýrtíðinni niðri. Þjóðirnar eru þess minnugar, hversu gjaldmiðill þeirra rýrnaði, að hann varð jafnvel einskis virði.

En okkur greinir á um leiðir að markinu. Ágreiningur þessi byggist oft á hinum eigingjörnustu einka- eða flokkssjónarmiðum. Foringjar sósíalistaflokkanna t. d. telja launastéttunum trú um, að frv. þetta sé hatröm árás, — að því er virðist, allt að því morðtilraun við stéttina. Þeir hrópa um þræla og þrælahald. Það er talinn glæpur að lögfesta kaup um eitt ár eða til 1. sept. 1942, og það jafnvel þó tryggt sé, eða reynt að tryggja svo sem verða má, að kaupmáttur krónunnar verði hinn sami og áður.

Væri okkur eigi sæmra, og þá fyrst og fremst háttv. alþm., að leggja stóryrðin, eiginhagsmunina og flokkssjónarmiðin til hliðar, helzt fyrir fullt og allt, eða a. m. k. um tíma, meðan við erum að koma fyrir þeim draug, sem dýrtíð nefnist? Sá draugur er erfiður viðfangs. Hann verður eigi unninn með orðum einum. Hann ógnar engum einstaklingi eða einstökum pólitískum flokki, hann ógnar sérstaklega allri þjóðinni.

Allir þeir einstaklingar eða flokkar, sem ala á sundrung í þessu máli og koma þannig í veg fyrir allar aðgerðir, sem líklegar væru til úrbóta, þeir vinna landi og þjóð hið mesta ógagn, einnig þeim hluta þjóðarinnar, sem þeir þykjast berjast fyrir.

Ég er þeirrar skoðunar, að forðast beri, svo sem auðið er, af hálfu þjóðfélagsins að takmarka frelsi manna til orða og athafna. En þar með er eigi sagt, að þeir tímar geti eigi skapazt, að gera verði á þessu takmarkanir um skemmri eða lengri tíma.

Naumast getur hjá því farið, að slíkar takmarkanir skerði rétt eða frelsi fleiri eða færri einstaklinga, frelsi, sem hvert þjóðfélag á að veita þegnunum á venjulegum tímum.

En tímar þeir, er við nú lifum á, eru óvenjulegir, og því getur verið, að nauðsynlegt sé að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem við kunnum illa, miðað við venjulega tíma.

Ein slík ráðstöfun er sú, sem gera á með frv. þessu til stöðvunar á dýrtíðinni. Ásamt brtt. mínum og ýmsum aðgerðum af hálfu ríkisstj. má vænta þess, að það fái einhverju áorkað.

Ein þeirra aðgerða, er ríkisstj. þarf að gera fremur öllu öðru, hvort sem frv, þetta verður að 1. eða eigi, það er að ná samkomulagi við setulið Breta og Bandaríkjamanna um þann íslenzka vinnukraft, er þeir þurfa til framkvæmda hér á landi, og um kaupgjald við þá vinnu. Ef vel hefði verið, þurfti slíkur samningsgrundvöllur að liggja fyrir áður en frv. þetta var borið fram. Því frv. þetta, þó að 1. yrði, verður óframkvæmanlegt, ef þeir samningar verða okkur óhagstæðir.

Enginn veit, hvaða verklegar framkvæmdir setuliðin kunna að gera hér. Hvað þeir þurfa til þeirra af íslenzkum verkamönnum, hvaða kaup þeir greiða o. s. frv.

Við vitum hins vegar, að brezka setuliðið hefur tekið og tekur vinnukraft frá framleiðslunni, og er sízt ástæða til að ætla annað en svo verði framvegis, og jafnvel geti það orðið í svo stórum stíl, að framleiðslan líði við það stórhnekki.

Hátt kaup, eftirvinna, helgidagavinna, létt og lítilfjörleg vinnubrögð —, slíkt er freistandi. Yfirleitt er ég því mótfallinn að lögfesta kaup og afurðaverð, en eins og nú er ástatt, þegar allt er að komast í öngþveiti út af úrlausn dýrtíðarmálanna, þá tel ég þetta eins konar neyðarráðstöfun, er menn verði eftir atvikum að sætta sig við.

Slík lögfesting var framkvæmd hér árið 1939, og þá gekk allt prýðilega. Þá var haft hátt, eigi síður en nú. Talað var mikið um árásir á samningafrelsi og sjálfsákvörðunarrétt, þrælalög, glæpi og margt fleira. — Það var reitt hátt til höggs, en höggið missti marks. Svo mun enn verða, nái þetta frv. ásamt brtt. mínum samþ. þingsins.

Þá vil ég minnast á 1. brtt. mína á þskj. 20, er svo hljóðar: „Þó er heimilt að hækka kaup í sveitum, ef nauðsynlegt er til að halda við framleiðslunni.“

Í niðurlagi 2. gr. frv. segir: „Kaupgjald það, sem greitt er án þess að beint sé miðað við verðlagsuppbót, skal ekki hækka frá því, sem það var fyrir gildistöku 1. miðað við sama stað og sama árstíma árið á undan gildistöku þeirra.“

Nokkuð er í óvissu um, hvað átt er við með orðunum „á sama stað“. Hvort þar er átt við sama heimilið, sama hreppinn eða ef til vill stærra svæði. Ég geri ráð fyrir, að flm. frv. hafi ef til vill eigi gert sér þetta ljóst, en naumast mun vera hægt að túlka þetta rýmra en svo, að um sama hrepp sé að ræða.

En hvernig sem þetta kann að verða túlkað, tel ég þessa lögfestingu á kaupi til sveita stórhættulega, — svo hættulega, að lögfestingin, ásamt ýmsum öðrum öflum, sem fyrir hendi eru og skapast kunna, geti tæmt sveitirnar af fólki enn þá meir en orðið er, og vænti ég þess, að hv. flm. geti orðið mér sammála um, að engin spor megi stíga, er að því geti stuðlað, hvorki með löggjöf eða á annan hátt.

Svo sem alkunna er, hefur fólkið flúið landbúnaðinn og sveitirnar undanfarandi ár. Skal það eigi rakið nánar. Flóttinn er áframhaldandi.

Þrátt fyrir allt „afarverð“ og „okur“ á landbúnaðarafurðum, sem nú er mikið talað um, meðal annars af skriffinnum Alþýðublaðsins og fleirum, þá er landbúnaðurinn eigi samkeppnisfær um kaupgreiðslur við aðrar atvinnugreinar. Meðan svo er heldur flóttinn áfram.

Í sveitum er nú meira fólksleysi en nokkru sinni fyrr.

Horfir víða til stórvandræða, og þá einkum á þessum árstíma, um mjaltir og hirðingu búfjár. Samdráttur sá, sem full ástæða er til að óttast, að verði á framleiðslu landbúnaðarins á næsta ári, kemur fyrst og fremst niður á mjólkurframleiðslunni.

Yrði þetta frv. óbreytt að 1., þá er öll kauphækkun bönnuð í sveitum skiptir þar eigi máli, hvort hún er meiri eða minni, hvort hún er 10% eða 100%.

Kaup verkafólks í sveitum hefur undanfarið verið til muna lægra en kaup verkafólks annars staðar, enda þótt það hafi hækkað mjög hin síðustu ár og þá einkum á yfirstandandi ári.

Ég óttast það mjög, að kaupgjald til sveita hækki allverulega á næsta ári frá því, sem nú er, enda þótt kaup annars staðar hækki ekki, hvort sem það verður lögfest eða ekki. Nú þurfa sveitirnar eigi aðeins að keppa við tímakaupið. heldur einnig við eftirvinnu- og helgidagakaup, sem nú er orðið almennt og er mjög stór liður í tekjum margra verkamanna.

Er það virkilega meining hv. flm. að banna bændunum að hækka kaup verkafólksins og stofna þannig framleiðslu landbúnaðarins í voða?

Hugsum okkur t. d. bónda, sem hefur tvo vinnumenn. Hann greiðir hvorum um sig kr. 2000.00 í árskaup. Mönnum þessum býðst „Bretavinna“, en segja þó bóndanum, að ef þeir fái kauphækkun um 25%, — eða kr. 2500.00 hvor –þá skuli þeir vera hjá honum áfram. Bóndinn vill ráða mennina, en frv. þetta, ef að 1. yrði óbreytt, bannar honum það, að viðlagðri allt að 50 þús. króna sekt.

Mennirnir fara. Bóndinn fær eigi annað fólk og búskapur hans fellur í rústir.

Ég vænti þess, að hv. þm. sjái af þessu eina dæmi, að það, að banna með l. hækkun á kaupi til sveita, er með öllu óverjandi, svo ekki sé kveðið sterkar að orði, eins og nú er ástatt.

Það væri ef til vill ekkert undarlegt, þótt hv. flm., sem lítið mun þekkja til staðhátta í sveitum, beri slíkt fram, en það verður að teljast undarlegra, að bændurnir í Framsfl., með hæstv. landbrh. í broddi fylkingar, skuli vera í vitorði með flm.

Allt frá byrjun þessa ófriðar hefur þjóðinni verið það ljóst, að þeir tímar gætu verið skammt fram undan, að allar siglingar til og frá landinu stöðvuðust að mestu eða öllu. Íslendingar yrðu því að vera við því búnir að geta búið sem mest að sínu. Allt kapp yrði því að leggja á að viðhalda og efla framleiðsluna og þá einkum framleiðslu landbúnaðarins. Þetta hefur þjóðinni verið sagt í blöðum, í ræðum og í útvarpi af sjálfum hæstv. landbrh, og nokkrum hv. alþm.

En nú heyrast engar hvatningar meir, hvorki frá hæstv. landbrh. né öðrum.

Er þá eigi lengur þörf á því að viðhalda og efla framleiðslu landbúnaðarins?

Jú, vissulega, fremur en nokkru sinni fyrr. Þær hættur, sem hafa ógnað landi og þjóð, ógna henni enn, og það í ríkara mæli en nokkru sinni áður.

Hæstv. landbrh, væri vissulega sæmra að hvetja þjóðina til viðhalds og eflingar á framleiðslu landbúnaðarafurða, svo sem hann hefur áður gert, heldur en vera í vitorði um flutning frv., sem, ef að 1. yrði óbreytt, gæti haft stórlamandi áhrif á alla framleiðslu landbúnaðarins.

Þing og stjórn verður að gæta þess að að hafast ekkert, hvorki með löggjöf eða á annan hátt, er haft getur lamandi áhrif á landbúnaðinn. Nógir eru hans erfiðleikar samt.

Sökum þeirra árása, sem hefur verið og er haldið uppi á afurðaverð landbúnaðarvara, og meðal annars var haldið uppi við 1. umr. þessa máls af forseta sameinaðs þings, hv. þm. Seyðf., vil ég fara um það nokkrum orðum.

Allt frá því heimsstríðinu lauk 1918 hefur landbúnaðurinn átt næsta erfitt uppdráttar. Jafnvægi það, er skapazt hafði fyrir stríðið milli afurðaverðs og kaupgjalds, raskaðist. Þetta jafnvægi hefur eigi náðst aftur, enda þótt mikið hafi miðað í þær áttir nú allra síðustu ár.

Kaupgjald hér í Reykjavík er enn þá hlutfallslega miklu hærra en verð á kjöti og mjólk, sé miðað við verðlag og kauplag árið 1914.

Það ár var kaup verkamanna kr. 0.40 um klukkustund. Heildsöluverð á dilkakjöti var þá kr. 0.58 kg, og verð á mjólk kr. 0.22 hver lítri.

Verkamaðurinn var því tæplega 1½ klst, að vinna fyrir 1 kg að kjöti, en rúmlega ½ stund að vinna fyrir 1 lítra af mjólk.

Nú er verkamannskaup í Reykjavík kr. 2.49 á klst. Heildsöluverð á dilkakjöti er kr. 3.20 hvert kg, og verð á mjólk kr. 0.80 hver lítri.

Nú er verkamaðurinn 1 klst. og 17 mínútur að vinna fyrir 1 kg af kjöti, eða nokkru skemmri tíma en áður. Hins vegar er hann aðeins rúmar 19 mínútur að vinna fyrir 1 lítra af mjólk, eða meira en 1/3 skemmri tíma en árið 1914.

Frá 1914 til 1941 hefur heildsöluverð á dilkakjöti hækkað úr kr. 0.58 kg í kr. 3.20 kg, eða um 552% .

Á sama tíma hefur útsöluverð mjólkur hækkað úr kr. 0.22 í kr. 0.80 hver lítri, eða um 364%. Kaup verkamanns í Reykjavík hefur hins vegar hækkað úr kr. 0.40 á klst. árið 1914 í kr. 2.49 á klst. árið 1941, eða um 623%.

Verðlag á mjólk og kjöti í Reykjavík á árunum 1914–1941 hefur því eigi hækkað til jafns við kaup verkamanna á sama tíma.

Hefði heildsöluverð á dilkakjöti og útsöluverð mjólkur hækkað hlutfallslega jafnmikið og kaupið, væri verð þessara vara nú:

Heildsöluverð á dilkakjöti kr. 3.61 hvert kg, í stað kr. 3.20, og útsöluverð mjólkur kr. 1.37 hver lítri, í stað kr. 0.80.

Bændur hafa eigi enn þá fengið leiðrétta þá röskun, er varð á kauplagi og verðlagi eftir 1914. Þeir eiga kröfur á því að fá þá röskun leiðréttu. Meðan það hefur eigi verið gert, situr illa á hv. þm. Seyðf. að vera að kvarta yfir verðlagi þessara vara.

Hvers mætti vænta frá honum, ef hlutur bænda væri leiðréttur til jafns við hlut verkamanna?

Ég hef þegar rætt um fyrri hluta brtt, minnar við 2. gr. Síðari hluti hennar hljóðar svo: „Ríkisstj. er heimilt að banna verkföll, verk

bönn eða önnur samtök, sem miða að því að stöðva eða leggja niður vinnu.“

Ýmsir foringjar launastéttanna, þar á meðal ýmsir hv. alþm., hafa gengið mjög rösklega fram í því undanfarið að æsa fólkið gegn þessu frv. Mótmæli hafa verið pöntuð frá félögum verkamanna og launamanna og þau lögð fram á A1þingi.

Er fullkomin ástæða til að ætla, ef frv. þetta verður að l., að þá muni menn þessir halda æsingastarfi sínu áfram og egna til verkfalla og upphlaupa, og gæti vel komið til verkbanna eða. verkfalla í því sambandi. Þykir því sjálfsagt að veita ríkisstj. þá heimild, sem brtt. gerir ráð fyrir.

Það er ekki nóg að stíga sporið hálft, það verður að stíga það fullt.

Ef gerð verður tilraun til að koma í veg fyrir framkvæmd l., þá verður að veita ríkisstj. þær heimildir, sem ætla má, að komi að gagni.

Fyrri hluta brtt. við 3. gr. má nánast skoða sem leiðréttingu. Síðari hluti till. hljóðar svo: „Engar slíkar árstíðarverðbreyt. séu látnar

hafa áhrif til breyt. á verðvísitöluna.“

Á s. 1. sumri kom það fyrir, að er þessa árs framleiðsla af kartöflum kom fyrst á markaðinn, þá hækkaði vísitalan vegna hins háa verðlags á þeim um tæp 5 stig.

Verður að telja rétt að koma í veg fyrir, að snöggar verðsveiflur á einstökum vörutegundum, sem jafnvel lítið er til af og vara um skamman tíma, geti haft stórfelld áhrif til hækkunar á allt kaupgjald í landinu.

Er brtt. ætlað að koma í veg fyrir þetta.

Þá er lagt til, að við úthlutun verðlagsuppbótar skuli leggja ti1 grundvallar útflutningsverð varanna samkv. útreikningi Hagstofu Íslands, en eigi útflutningsleyfi S. Í. S., svo sem fyrir er mælt í frv.

Enda þótt S. Í. S. sé langstærsti útflytjandi varanna, er það eigi hinn einasti, og virðist því eðlilegra, að meðalútflutningsverð allra útflytjenda varanna sé lagt til grundvallar fremur en útflutningsverð einstaks fyrirtækis.

Síðasta brtt. er svo hljóðandi:

„Nú telja verðlagsnefndir landbúnaðarafurða nauðsynlegt að hækka verðlag á mjólk og kjöti vegna hækkaðs kaupgjalds samkv. 2. gr., og er þeim þá heimilt að hækka vöruna að sama skapi.

Verðvísitala þeirra má þó eigi verða hærri en vísitala kaupgjalds, hvort tveggja miðað við 1914.

Greiðist hækkun þessi úr dýrtíðarsjóði, sbr. 7. og 8. gr.

Brtt. þessi gerir ráð fyrir, að verði bændur að hækka kaupgjald á árinu 1942 frá því, sem það var 1941, þá verði hækkunin greidd úr dýrtíðarsjóði, en hann á að stofna með framlagi ríkissjóðs. Það er þá lagt á vald verðlagsnefndar að meta, hvenær bændur eiga kröfu á þessum bótum.

Nokkur vandkvæði geta verið á framkvæmd þessarar till., en að sjálfsögðu er ætlazt til, að í reglugerð séu sett nánari ákvæði um framkvæmd hennar.

Fleiri brtt. hefði ef til vill verið ástæða til að bera fram við frumv., t. d. við 1. gr. þess, og þá þess efnis, að við útreikning framfærslukostnaðar sé aðeins tekið tillit til almennra lífsnauðsynja.

Við útreikning framfærslukostnaðar mun nú vera tekið með vín, tóbak, bíóferðir o. fl. af líku tagi. Hvort sem þetta verkar til hækkunar eða lækkunar á vísitöluna, virðist með öllu óviðeigandi að taka tillit til annars en brýnustu lífsnauðsynja við útreikning framfærslukostnaðar.

Ríkisstj. ætti að geta hlutazt til um það við kauplagsnefnd, að þessu yrði breytt, og eru lagafyrirmæli um það því ef til vill ekki nauðsynleg.

Enn fremur hefði ef til vill þótt rétt að hækka framlag ríkissjóðs til dýrtíðarsjóðs vegna aukinna útgjalda, er síðasta brtt. mín kann að hafa í för með sér. Í því sambandi vil ég benda á, að ólíklegt má telja, að 8 millj. þurfi til uppbóta samkv. 8. gr., þar sem full ástæða er til þess að ætla, að einhver eða mestur hluti þeirra verðuppbóta, er þar er gert ráð fyrir, verði greiddur af Bretum.

Svo sem kunnugt er, greiddu þeir okkur~ millj. til verðuppbóta á útflutningsvörur okkar árið 1940, og var það byggt á þeim markaðstöpum, er við höfðum orðið fyrir.

Hin sömu skilyrði eru nú fyrir hendi að því er markaðstöp snertir. Legg ég mikla áherzlu á, að ríkisstj. geri kröfur til Breta um verðuppbætur á framleiðslu ársins 1941 vegna markaðstapa, svo sem gert var fyrir árið 1940.

Samkv. yfirlýsingu hæstv. forsrh.. hefur hann sagt af sér fyrir sig og ráðuneyti sitt vegna ósamkomulags innan ríkisstj. um úrlausn dýrtíðarmálanna, eða nánar tiltekið vegna þess, að frv. þetta fékk eigi fylgi ríkisstj. eða meiri hl. hennar.

Það verður að teljast illa farið, hvaða álit sem menn annars kunna að hafa á ríkisstj., að samkomulag náðist eigi um þessi mál.

Hér eru fjölmennir herir í landi. Við þykjumst verða þess varir, að íhlutan þeirra um okkar mál fari eigi minnkandi.

Þegar þeir sjá, að hér er hver höndin upp á móti annarri, einnig á Alþ. eins og í ríkisstj., að við eigi getum staðið saman á þessum háskatímum, er þá eigi nokkur ástæða til að kvíða vaxandi íhlutun þeirra?

Ef dæma má af okkar og annarra þjóða sögu, er sundrung þjóðarinnar tilvalið tækifæri.