06.11.1941
Neðri deild: 17. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í C-deild Alþingistíðinda. (375)

7. mál, ráðstafanir gegn dýrtíðinni

Jón Pálmason:

Ég hef hlustað með athygli á allar þær löngu umræður, sem fram hafa farið um þetta mál hér í hv. deild. Þær hafa að sumu leyti verið athyglisverðar, en að sumu leyti þannig, að ekki er ástæða til að bæta þar miklu við.

Síðan ég talaði hér síðast, hafa litlar athugasemdir komið fram gegn þeim rökum, sem ég Færði gegn þessu frumvarpi. Ég hef sýnt fram á, að það muni alls ekki ná tilgangi sínum í framkvæmdinni, og mun örðugt að mótmæla þeim rökum, sem ég hef fært fyrir þeirri skoðun. Ég skal nú drepa á fáein atriði í ræðum þeirra manna, sem talað hafa, til að vekja athygli á þeim stuðningi, sem mínar skoðanir hafa fengið. Hv. þm. Seyðf. (HG) hefur flutt. hér nokkrar ræður, og mun ég ekki svara þeirri sérstaklega, enda hafa formælendur þessa máls gert það að verulegu leyti. Ýmis hans ummæli sýndu undra mikinn skilningsskort á því ástandi, sem nú ríkir í sveitum landsins. Ef hann þekkti það eins vel og við, sem í sveitunum búum, þá mundi hann vafalaust tala mjög á annan veg. En þær öfgafullu skoðanir; sem fram hafa komið hjá þessum hv. þm. og fleirum, hafa gert það gagn, að fylgismenn þessa frv. hafa í svörum sínum játað beint og óbeint ýmislegt af því, sem ég hef fært fram gegn þessu frv. — Sá maður hér á þingi, sem hefur mestar skyldur við bændastétt landsins og stöðu sinnar vegna ætti að hafa víðtækasta þekkingu á högum landbúnaðarins, er auðvitað búnaðarmálastjórinn, hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt). Þessi þm. lýsti því yfir í umræðum um þetta frv., að bændur gætu nú ekki staðizt samkeppnina um vinnuaflið og að hann óttaðist, að framleiðsla sveitanna mundi mjög dragast saman, hvort sem þetta frv. verður samþ. eða ekki. Ég minni ekki á þetta til að andmæla því, heldur til að undirstrika það. Þessi ummæli falla saman við þær staðhæfingar, sem ég hef flutt um þetta efni. Hv. 1. þm. Rang. (SvbH) lagði á það ríka áherzlu hvað eftir annað, að ef þetta frv. yrði samþ., þá fylgdi því meiri áhætta fyrir bændastéttina en aðrar stéttir þjóðfélagsins. Þetta er líka rétt. Jafnvel hv. þm. V.-Húnv. (SkG) hefur þrátt fyrir alla, sína villu játað, að áhættan, sem stafar af lögfestingu þessa frv., væri mest fyrir bændur. Þessir menn allir vilja samt samþykkja þetta frv, og leggja á það svo mikið kapp, að þeir vilja slíta stjórnarsamvinnu, ef það fæst ekki fram. Hæstv. viðskmrh. (EystJ) hefur í tveimur síðustu ræðan talað af nokkru meiri sanngirni um málið en áður. Hann hefur nú játað hreinskilnislega, að framkvæmd þessa máls mundi ekki verða eins einföld og þægileg eins og á honum var að heyra í upphafi. Ráðherrann gat þess nú, að lögfesting kaupgjalds væri óframkvæmanleg, ef ekki yrðu stórfelldar breytingar á allri aðstöðu gagnvart Bretavinnunni og ekki tækist að semja um þau atriði. Hann bauðst nú líka til að taka aftur þá grein í frv., sem fjallar um lögfestingu kaupgjalds í sveittum, og játaði jafnframt, að framkvæmd þess mundi ekki verða fær. Þetta tvennt voru höfuðrökin í upphafi frá minni hendi gegn lögfestingu kaupgjalds, og mun ég víkja nánar að því síðar.

Þá hv. þm., sem hér hafa talað, greinir mjög á um það, hver sé höfuðorsök dýrtíðarinnar. Hv. þm. Seyðf. taldi aðalorsökina verðhækkun á landbúnaðarvörum. Hv. 4. þm. Reykv. (EOl ) taldi aðalorsökina gróða auðmannanna hér í Reykjavík, og þann aukna kaupmátt, sem af honum stafar. Hæstv. viðskmrh. hefur bent á vísitölufyrirkomulagið sem eina hina hættulegustu orsök, sem leiði af sér þær örðugu aðstæður, sem, nú blasa við. Allt þetta hefur nokkur áhrif í þessu efni, en aðalorsakir eru það ekki. Ég hygg, að aðalorsök þess, að hér hefur orðið meiri dýrtíð en í nálægum löndum; stafi fyrst og fremst af hertöku landsins og þeim mikla peningastraum, sem hefur verið settur af stað í sambandi við hana. Mér er sagt, að nú sé greitt mánaðarlega fyrir vinnu innlendra manna hjá herliðinu um 3 milljónir kr., og annað eins eða meira til annarra þarfa setuliðsins. Hver borgar svo allt þetta mikla fé? Það er allt borgað með íslenzkum seðlum, sem gefnir eru út meira og meira eftir því, sem þörfin vex. Upphæðirnar eru svo greiddar með innskrift í viðskiptareikning Íslands í Bretlandi vaxtalaust og tryggingarlaust. Við vonum að vísu, að þetta fé fáist einhvern tíma greitt, en fyrir því er ekki meir í vissa en almennt gerist um stríðslán. Hvernig getum við svo búizt við að stöðva dýrtíðina, þegar tugum millj. er ausið út á þennan hátt? Við getum ekki búizt við öðru en þetta hafi mikil áhrif til lækkunar á kaupmátt okkar krónu. Og á meðan engar breytingar fást, þarf enginn að ætla, að lögfesting á kaupgjaldi og afurðaverði komi að haldi. Hæstv. ráðherrar, bæði viðskmrh. og forsrh., lýstu því yfir, að það hefði komið í ljós, að hinir útlendu menn hefðu góðan skilning á okkar málum. Þetta kann að vera rétt innan vissra takmarka. En mér virðist, að sú mikla smölun, sem hefur farið fram á vinnandi fólki frá atvinnuvegum landsins til hernaðarvinnu og fleira, bendi ekki í þá átt. Ella hefur okkar ríkisstjórn mjög alvarlega vanrækt sitt hlutverk á þessu sviði. Hæstv. viðskmrh. ræddi um, að breytinga væri þörf í þessu efni. Það er nokkuð seint séð, en vissulega er betra seint en aldrei. Í því efni og fleiru varðandi afstöðuna til útlendinganna hér hafa vonir mínar orðið fyrir miklu áfalli, síðan við komum hér saman í haust. Ég hafði talsverða ástæðu til að ætla, að hæstv. stjórn og ekki sízt hæstv. forsætisráðherra legði í það metnað sinn og manndóm að ganga fastlega eftir því, að hin erlendu stórveldi og þeirra menn hér héldu loforð sín að fullu við okkur, bæði í fjármálum og á annan hátt. Að tryggja hagsmuni þjóðarinnar á því sviði fjárhagslega, siðferðislega og menningarlega hlýtur líka eins og nú stendur að vera höfuðverkefni ríkisstjórnar, hver sem hún er Og hún hefur ekki annað frekar að vopni en að leggja við stöðu sína og starf. En þegar það kemur svo fyrir, að okkar stjórnarformaður kastar frá sér því vopni fyrir lítils háttar ágreining um innanlandsmál, áður en vitað er um úrlausn margra þýðingarmikilla atriða varðandi okkar atvinnulíf og viðskiptasamninga, þá tel ég illa farið. Það er líka víst, að þó frumvarp slíkt sem það, sem hér er til umræðu, ætti fullan rétt á sér, þá var það ótímabært með öllu, meðan ekki hafa farið fram samningar um setuliðsvinnuna og fleira í því sambandi. Ef stjórnin hefði byrjað þar, þá var hún á réttri leið.

till. hæstv. viðskmrh. að fresta afgreiðslu þessa máls þar til séð verður um samninga við setuliðið, hefði verið réttmæt, ef stjórnin hefði líka frestað því að segja af sér, en nú er þetta um seinan fyrir þetta þing. En viðurkenning er hún á vanrækslum, sem hér hafa átt sér stað. Enda er það víst, að undirstaða þess, að nokkrar aðrar ráðstafanir komi að haldi eins og nú stendur, er að hægt verði að koma í veg fyrir, að atvinnuvegir landsins séu eyðilagðir með því að taka vinnuafl landsmanna til hernaðaraðgerða, sem sennilega koma að engu gagni fyrir þjóðina. Ég tel, að um þetta hefði átt að vera búið að semja fyrir löngu, og hverjir sem hér fara með völd framvegis, þá verða þeir að neyta ýtrustu ráða í því efni. Að ætla sér að fara að lögfesta kaupgjald meðan stendur eins og nú er á þessu sviði, tel ég bæði óviturlegt og lítt eða ekki framkvæmanlegt. Við verðum að láta okkur lynda að leitast við með samkomulagi að halda kaupgjaldi í sem föstustum skorðum, enda ekki útlit fyrir neinar stórdeilur á því sviði. Hins vegar ber að grípa til þess, ef á þarf að halda, að láta ríkisstj. hafa heimild til þess að lögfesta með gerðardómi miðlunartillögur sáttasemjara í vinnudeilum líkt og árið 1937. Nú sem stendur eru ekki líkur fyrir verkföllum, og því er sú ráðstöfun ekki aðkallandi. Hæstv. viðskmrh. gerði tilboð um að taka út úr þessu frv. greinina um lögfestingu á sveitakaupi, og mundi í því sú ein bót, að þá þyrftu bændur ekki að gerast lögbrjótar í hvert sinn, sem þeir ráða til sín fólk, því enginn þarf að ætla, að það fáist fyrir sama kaup næsta ár eins og þetta, ef Bretavinnan heldur áfram. Ráðh. veit að þessi grein er óframkvæmanleg og viðurkennir það með tilboði sínu, en hann vill lögfesta afurðaverðið hjá bændunum, þó að þeir verði varnarlausir fyrir auknum tilkostnaði. Hæstv. forsrh. gat þess meðal annars í sinni ræðu, að þetta frv. eitt væri ekki aðalatriði í dýrtíðarmálunum, og benti á, að hér væru komin fram nokkur önnur frv., er fjölluðu um þau. Vildi hann telja að þau væru ekki síður aðalatriði. Hæstv. ráðh. hefur nú sagt af sér út af þessu frv. einu, en ekki hinum, sem engir vissu um þá. En þegar hann er farinn að sjá, hve vanhugsuð öll framkoman er, þá vill hann eðlilega fara að blanda inn í þeim ágreiningi, sem út lítur fyrir um önnur mál. Hann hefur flanað út í að rjúfa samvinnuna út af þessu máli einu, en sér að hann er kominn í ógöngur. — Hæstv. viðskmrh. hefur nú viðurkennt, að lögfesting kaupgjalds kæmi að engu haldi, ef ekki tekst að semja um setuliðsvinnuna. Og hann hefur viðurkennt, að lögbinding á sveitakaupi væri vanhugsuð tillaga. Það er nú í sjálfu sér aldrei annað en drengilegt að viðurkenna það, sem rétt er. Að viðurkenna sínar yfirsjónir er alltaf drengilegra en að viðurkenna þær ekki. Ég held nú að það væri drengilegast af hæstv. ráðh. að viðurkenna það hreinlega, að þetta frv. sé í aðalatriðum vanhugsað, og taka það aftur. Þá ætti hann líka að taka aftur sína lausnarbeiðni.