23.10.1941
Efri deild: 4. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (447)

6. mál, stimpilgjald

Flm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Frv. þetta er eigi mikið fyrirferðar né margbreytt. En fylgja vildi ég því úr hlaði með fáeinum orðum og þykir verr, að enginn þm. úr fjhn. er viðstaddur, — þangað vænti ég að vísa beri frv. Aðalatriði frv. er innskot það í 14. gr. stimpillaganna, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta: „Þegar afsalsbréf eða leigusamningar greina ekki hina stimpilskyldu upphæð, ber að áætla hana það háa, að víst sé um það, að söluverð eða leiga hafi ekki hærra verið í raun og veru. Verð fasteigna undir slíkum kringumstæðum skal aldrei áætla lægra en tvöfalt fasteignamat hinnar seldu eignar. Ef gjaldandi er óánægður með ákvörðun gjaldsins, getur hann skotið því undir úrskurð stjórnarráðsins“ o. s. frv. — Ákvæði í þessa átt er sýnilega bráðnauðsynlegt til að taka af allan vafa, þegar sýslumönnum eða lögmanni er ætlað að meta upphæð gjaldsins og beinar upplýsingar skortir um söluverð eða leigu. Áður var það venja — þótti sjálfsagt — að geta slíks í afsalsbréfi fasteignar, og fór stimpilgjaldið eftir þeirri upphæð, sem tilgreind var. Nú er mér tjáð, að þetta sé orðin undantekning, a. m. k. hér í Rvík, og er það auðskilið, því að þannig hefur gjaldandi sloppið við að greiða hærra stimpilgjald en af fasteignamatsverði, þótt söluverð væri raunar miklu meira, — oft tvöfalt eða þrefalt hærra á þessum síðustu tímum. Þegar t. d. hús eru nú seld 25–100 þús. kr. yfir fasteignamati, hverfa ríkissjóði 350–1400 kr. stimpilgjaldstekjur af þeirri sölu, og auk þess lækkar þinglýsingargjald, meðan ekki er lögleitt ákvæði það, sem hér er farið fram á. Sjá allir, að samtals er þar um eigi litlar tekjur fyrir ríkissjóð að ræða. Þeir sleppa við réttmæt gjöld, sem braska mest og fela, en hinir eigi, sem skýra hreinskilnislega frá söluverði. Ég skal ekkert um það dæma, hvort stimpilgjaldið sé hæfilega hátt eða of hátt eða hvort rétt væri að miða það framvegis ætið við fasteignamat. Engin endurskoðun á því atriði liggur hér fyrir. Hér er það aðeins atriði, sem allir sjá, að kippa verður í lag. Þessu vil ég beina til hv. fjhn., um leið og ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og þeirrar n. Ég hef minnzt á málið við hæstv. fjmrh. og skrifstofustjóra fjmrn. og mætt þar fullum skilningi á nauðsyn þess. Tel ég heppilegt, að fjhn. hefði samvinnu við ráðuneytið um afgreiðslu málsins. Þar sem þetta er réttlætismál og ekki allt of mörg frv., sem fyrir n. liggja, ætti að mega afgreiða það fljótt, svo að það þurfi ekki að bíða næsta þings.