10.11.1941
Neðri deild: 19. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 23 í D-deild Alþingistíðinda. (519)

5. mál, fisksölusamningurinn við Breta

Flm. (Finnur Jónsson) :

Ég mun ekki gera það að umræðuefni, hvort rétt hafi verið að gera þennan samning, né heldur deila á þá, sem gerðu hann, að einu né öðru leyti, en hins vegar vil ég sýna fram á nokkrar veilur í þessum samningi; sem eru þess eðlis, að ákaflega er hætt við, að afleiðing þeirra verði sú, að útgerðin dragist saman, ef ekki verður úr þeim bætt.

Við samning þann, sem hér liggur fyrir, þurfti að gæta tvöfaldra hagsmuna útflytjenda. Í fyrsta lagi voru hagsmunir þeirra, sem veiða fiskinn sjálfir og flytja hann til sölu á erlendan markað, svo sem togaraeigendur. Ég tel, að með þeim samningi, sem hér liggur fyrir, sé sæmilega séð fyrir þessum hagsmunum og þú jafnframt hagsmunum Þeirra, sem kaupa fisk af útvegsmönnum hér á landi. Kaupverð fiskjarins innanlands er, eins og kunnugt er, 35 aurar upp og ofan fyrir ýsu, þorsk og sandkola, en verðið, sem gert er ráð fyrir, að fáist fyrir þennan fisk á erlendum markaði, er 1.43 kr. Það er þess vegna gert ráð fyrir, að útflytjendur geti haft sæmilegan hagnað, a. m. k. síðan þau tollaákvæði í Englandi voru afnumin, sem sett voru og leit út fyrir, að ætluðu að gera mönnum ómögulegt að sigla með afla til Englands.

Í öðru lagi eru svo hagsmunir þeirra, sem selja fiskinn frítt um borð í skip, og er það öll smáútgerðin og í mörgum tilfellum togarafyrirtæki, sem ekki kæra sig um að sigla með fiskinn. Fyrir hagsmunum þessara aðila er illa séð í þessum samningi. Það er nú kunnugt, að verð í þorski var lækkað úr 40 aurum niður í 35 aura og ýsu úr 50 aurum í 35 aura. Enn fremur er það vitað, að frystihúsin, sem kaupa fisk, og þeir, sem sjóða niður, geta ekki borgað þetta verð fyrir hann, heldur verð, sem er talsvert lægra. Á síðasta hausti og síðustu vertíð mun útkoman á smáútgerðinni almennt hafa orðið sæmileg hjá þeim, sem gátu losnað við fiskinn jafnóðum um borð í skip. Aftur á móti ef menn gátu lítið losnað við til frystingar, þá var útkoman mjög misjöfn. En með því að nú er búið að lækka þetta verð, er augljóst, að það er þrengt mjög að smáútgerðinni. Það er ekki gert ráð fyrir því í samningnum, að Bretar flytji allan okkar fisk út ísaðan, heldur getur matvælaráðuneytið krafizt þess, að eitthvað af honum verði pæklað eða saltað. Nú er það vitanlegt, að fiskur, sem ekki er fluttur út ísaður, er ódýrari en hinn, allt að 7 aurum hvert kg. Ef lítið verður flutt út af ísuðum fiski á næstu vertíð, er hætt við, að niðurstaðan verði sú, að verðið lækki mjög verulega og að útgerðin dragist saman af þeim ástæðum. Við það að ýsan var lækkuð úr 50 aurum í 35 aura hefur einnig skapazt sú hætta, að útgerðin verði mjög lítil yfir haustmánuðina.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta mikið frekar. Ég hef bent á, að ef ekki verða settar nýjar hömlur, þá er sæmilega séð fyrir hagsmunum þeirra, sem sigla sjálfir með fiskinn. Hins vegar er, eins og nú er, svo mikill munur á því verði, sem hér er greitt, og verði á erlendum markaði, að Bretar ættu sjálfir að sjá hag sinn í því að hækka þetta verð, til þess að tryggja, að útgerðin dragist ekki saman. Það er þetta atriði, sem ég álít, að koma þyrfti til greina við endurskoðun á þessum samningi, sem og hitt, að nauðsyn bæri til að hækka verð fiskjarins. sem tekinn er til ísunar í frystihúsin og til söltunar, vegna þess að það er lágmark, sem hægt er að fiska fyrir, sem nú er greitt fyrir ísaðan fisk. Það er kunnugt, að á framkvæmd samningsins voru til að byrja með ákaflega miklir annmarkar. Yfir þessu var kvartað, og varð það til þess, að látinn var frjáls nokkur hluti Norðurlandsins, þar sem voru verstöðvar eins og Dalvík og Ólafsfjörður, sem ekki gátu stundað sjóróðra meðan íslenzku skipunum var bannað að kaupa þar fisk. Einnig voru það tveir staðir á Vestfjörðum, sem urðu út undan, en nú hefur með samkomulagi verið reynt að bæta það upp, þannig að Bretar taka allmikinn þátt í kostnaðinum við flutning fiskjarins til Ísafjarðar.

Ég hef talið rétt að óska eftir, að þessi till. kæmi hér til atkv., þrátt fyrir þær fréttir, sem hafa borizt í blaði hér í bænum um atkvgr. á lokuðum fundi um þetta mál, vegna þess að í þeirri frétt var ekki skýrt , frá afstöðu einstakra hv. þm, til samningsins. Sú frétt, sem um þetta var birt í einu blaði, var á þá leið, að helzt leit út fyrir, að allir hefðu verið þar ánægðir með samninginn og ekki óskað endurskoðunar á honum að einu eða neinu leyti.