10.11.1941
Sameinað þing: 11. fundur, 58. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (549)

9. mál, trúnaðarbrot við Alþingi

Páli Zóphóníasson:

Ég vil í fyrsta lagi upplýsa það, að það hefur verið borið undir þm. til álits margt viðvíkjandi utanríkismálum án þess að gengið hafi verið til atkv. um það; umræðurnar og undirtektir þær, er málin í þeim fengu, hafa átt að vera leiðbeinandi fyrir ríkisstjórnina. Þetta er hið eina mál, sem gengið hefur verið til atkv. um á lokuðum fundi. Þess vegna er það, að þegar einn ráðh. kemur með munnlega till., sem enginn annar veit um en hann sjálfur, þá hefur enginn annar en hann sjálfur getað sagt frá því, að það eigi að bera fram till. á fundinum. Ég vænti þess, að það, sem ég segi nú, geti enginn úti í bæ sagt um, hvað er, nema því aðeins, að ég hafi áður sagt, hvað ég ætlaði að segja á þessari stundu. Ólafur Thors kom með munnlega tillögu á fundinum, og enginn gat vitað um hana nema hann og þeir, sem hann hefur sagt, að hann ætlaði að koma með hana. Morgunblaðið veit um tillöguna, og Ólafur Thors hefur því sjálfur orðið að segja því frá, hvað til stæði. Ég vænti þess að hæstv. ráðh. skilji þetta.

Það er alveg rétt, sem ráðh. sagði, að Einar í Lækjarhvammi og Stefán í Reykjahlíð spurðu mig um það, hvert mundi verða útborgunarverð fyrir mjólk til bænda á þessu ári. Ég sagði þeim það, að að óbreyttum ástæðum mundi meðalverð til bænda verða í kringum 45 aur., en bætti því við, að það væru 3 fagfélög, sem ekki mætti binda kaup hjá, og væru þau búin að segja upp samningum, og mundi það hafa þau áhrif, að mjólkurverðið mundi lækka um dálítið á annan eyri til bænda, ef kaupið hjá þeim hækkaði eins og þau fara fram á nú. Og ráðherrann, sem ég neyðist til að kalla hæstvirtan, vill ekki binda kaupið, heldur láta mjólkina til bænda hækka í verði við kauphækkanirnar.