01.04.1942
Efri deild: 26. fundur, 59. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

50. mál, aðstoðarlæknar héraðslækna

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég stend ekki upp af því að það væri í sjálfu sér svo margt í ræðu hv. 2. landsk. þm., sem ég þyrfti að leiðrétta, því að hann talaði af mikilli sanngirni til læknanna, og mér þykir vænt um, að hann skyldi tala, því að ef frsm. hefði verið sá eini, sem talaði, hefði ég álitið, að málið væri borið fram af n. til að sýna stéttinni fjandskap. En hv. 2. landsk. hefur talað um málið af miklum skilningi, og ég skil hans viðhorf. Hann vill, að eitthvað verði gert til að héruðin geti fengið lækna og séu ekki læknislaus, og til þess að læknar geti fengið tíma til að lyfta sér upp og fullnuma sig, t.d. á Landsspítalanum eða öðrum spítölum. Þetta er viðhorf, sem við erum sammála um. Þess vegna greiði ég atkv. á móti frv. við 1. eða 2. umr., af því að ég hefði viljað fá heppilega lausn, svo að héraðsbúum og læknum verði gert auðveldara að fá hjálp, — en með vilja og samþykki stéttar innar. Þetta er það eina, sem ég fer fram á, en mér skilst, að frsm. vilji ekkert gera til samkomulags.

Ef hv. frsm. heldur, að það tefji málið til skaða að láta taka það af dagskrá nú, þar til fyrsta daginn eftir páska, vil ég segja honum, að það tefur það meira að láta fyrst breyta því í hv. Nd. og svo hrekjast á milli d. Það á yfirleitt að vera metnaðarmál fyrir Ed. að ganga svo frá hverju máli, að samkomulag sé fengið, áður en málið fer úr d. En það þýðir ekki að beita neinum rökum við hv. frsm. Hann er búinn að bíta sig í, að engu megi breyta í frv.

Hv. 2. landsk. þm. vildi leiðrétta orð mín um, að n. hefði ekki verið fullskipuð. En það var rétt, sem ég sagði. D. getur ekki fengið það nema frá öðrum aðilanum, hvað fór á milli læknanemanna og n. En nú hefur hv. 2. landsk. gefið mikils verðar upplýsingar um það samtal, sem þarna fór fram. Ég hef átt lítinn kost á að tala við þá aðila, sem ég hefði helzt þurft að tala við, nefnilega stúdentana, sem á að fara að lögþvinga. Þetta bitnar fyrst og fremst á þeim, sem eiga nú að fara að taka próf.

Við 2. umr. hefur komið fram, að það getur hent sig, að ekki sé til spítalapláss fyrir kandidatana í svipinn, en þeir geti farið í þegnskylduvinnu í héruðin. En ég held, að héraðsbúum sé lítil hjálp í því að fá pilta beint frá prófborðinu, sem enga æfingu hafa. En þegar þeir eru orðnir eitthvað æfðari, eftir t.d. 6 mánaða tíma, fara þeir burt, og nýr maður kemur, sem er eins óæfður og hinir voru fyrst. Landlæknir sagði í dag, að til þess að fá menn í lökustu héruðin þyrfti að leita annarra bragða, enda væri fólkinu lítið gagn í eilífum nýgræðingum. Ég trúi því ekki, að landlæknir hafi annað sjónarmið, þegar hann talar við hv. frsm., a.m.k. hef ég aldrei reynt hann að neinni tvöfeldni, svo að hér er um misskilning að ræða hjá hv. frsm.

Hv. 2. landsk. minntist á, að launakjör kandidata væru óheyrilega lág. En það er þannig, að nýútskrifuðum piltum finnst ekkert óeðlilegt, þó að þeir hafi lág laun túrnusárið, því að þeir vita, að sá lærdómur, sem þeir fá á spítalanum, er eina praktíska æfingin, sem þeir fá, áður en þeir fara að vinna sem sjálfstæðir læknar, svo að þeir líta á túrnusárið sem hvert annað kennsluár, enda líta þeir ekkí á sig sem fullgilda, fyrr en þeir hafa útendað námstíma sinn. Í nágrannalöndunum, Danmörku og Noregi, eru þessir menn illa launaðir, og mér er kunnugt um það, frá því er ég var við þetta nám, að t.d. á fæðingarstofnunum, þá fengum við engin laun, þó að við ynnum jafnt nætur og daga. Þetta þótti sjálfsagt, til þess að nemendurnir væru betur undir búnir, þegar þeir færu að vinna. En þessu atriði með launin hefur ekki verið sinnt, og þegar málaleitun kom fram í Læknafélagi Íslands um það að hækka launin, þá var landlæknir á móti till. fyrst í stað, sem form. læknafél. vildi hafa. Svo var leitað til félmrh., sem þá var Stefán Jóh. Stefánsson, og hann vildi ekkert gera í málinu, fyrr en þing kæmi saman, og þá var málið sent til fjvn. Þegar hún skilar áliti og það kemur til. stj., sér hún sér ekki fært að gera neitt í málinu, vegna þess, eftir því, sem forsrh. sagði, að ekki var hægt að fara eftir þeim till. Þetta er nú dæmi um það, hvers má vænta af þingi og stj. í launamálum lækna. Ef við hv. 2. landsk. ætluðum að bera fram frv. í þá átt hér á Alþ., þá verður það ekki að l. nú eða á næsta þingi, enda hefur frsm. n. sagt það, að við launal. megi ekki hreyfa á þessu þingi á þessum háskatímum. Hv. 2. landsk. sagði, að fylgi sitt við málið byggðist á því, að launakjör. lækna yrðu bætt. En hv. þm. hefur enga tryggingu fyrir því, eins og sakir standa, að launakjör lækna verði bætt. Fyrir tveimur dögum var ekki farið að gera neitt í þessu máli, og síðan hefur ekkert verið gert í því. Ef hv. þm. ættar að verða sjálfum sér samkvæmur, þá á hann að styðja að því, að frestað verði framgangi málsins um þennan eina þingdag. Þessum hv. þm. fannst það ekki nógu skýrt tekið fram, hvernig haga ætti greiðslum til þessara ungu manna, sem ættu að fara til héraðslækna úti um land. Hann sagði, að það ætti að skammta þeim skít úr hnefa eftir því, sem ráða mætti af þessu frv. Mér finnst því engin goðgá, að þessu atriði yrði breytt og einnig, að gerð yrði breyt. í þá átt, að héraðslæknar réðu því ekki, hvað þessir ungu menn fá. Þess vegna finnst mér, að hv. 2. landsk. hljóti að vera mér sammála um það, að það beri að fresta þessu máli og fá einhvern samkomulagsgrundvöll, áður en það fer úr d. Frsm. n. hagaði orðum sínum þannig, að hann ræddi bæði frv. í einu. Því finnst mér ekki nema eðlilegt, að ég fylgi hans dæmi. En það, sem var þungamiðjan í þessu máli hjá hv. 2. landsk., var það, sem ég hef minnzt á áður, að það þurfi að launa þessa lækna sæmilega. Ég segi fyrir mig, að ég álit, að slíkt ætti að koma til framkvæmda, og ég . vildi beina því til hv. frsm., hvort hann vildi spyrjast fyrir um það, hvort ég hefði ekki á þeim þingum, sem við höfum haldið, haldið uppi merki héraðslækna í Læknafélagi Íslands og unnið að því, að þeir fengju bætt kjör sín bæði fjárhagslega og einnig hvað önnur fríðindi snertir.

Ég hygg, að ég megi vænta þess, að hv. 2. landsk. geti fallizt á þá skoðun mína, að frv. þurfi endurbóta við í þessari d., og að það sé æskilegt að ná samkomulagi í þessu máli.

Hv. 2. landsk. minntist á það, að það mundi þurfa að gera ýmislegt, til þess að þessir ungu læknar gætu unað við þetta, og það er alveg rétt. Það þarf að haga því þannig, að fyrir hendi séu verkfæri handa þessum mönnum, því að það sjá allir sjálfir að ekki geta þeir af sínum litlu launum farið að kaupa verkfæri. Mér fyndist það mjög vel til fallið, að í hverju héraði væru til verkfæri, sem þessi læknir hefði afnot af. Svo þegar læknirinn hætti störfum, yrðu verkfærin að sjálfsögðu geymd, þar til á þeim þyrfti að halda. Þetta mundi t.d. hjálpa mikið til þess, að þessir ungu menn fengjust til þess að fara í þessi héruð, því að við vitum það allir mjög vel, að þessir menn eru svo fátækir, að þeir hafa ekki tök á því að kaupa slík áhöld. Mér fyndist t.d. mjög vel til fallið, að ríkið ætti þessi áhöld og þau yrðu til afnota fyrir þessa menn rétt eins og ljósmæðurnar fá sina tösku og sín áhöld. Ég hygg því, að einmitt eftir þessar undirtektir hv. 2. landsk., þá muni honum ekki finnast nein goðgá, þó að málið væri tekið út af dagskrá fram yfir páska. Hv. þm. gat þess í ræðu sinni, að fylgi hans við málið byggðist á því, að hann teldi þetta mikið réttlætismál, og þess vegna finnst mér rétt að bera þá till. upp, og leggja það undir úrskurð forseta, hvort ekki megi taka málið af dagskrá og fresta því fram yfir páska.